Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:56:18 (4818)

1997-03-21 11:56:18# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:56]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir það frv. sem hér er komið og þær úrlausnir sem það mun færa, ef að lögum verður, sem ég efast reyndar ekkert um og á von á því að það hljóti skjóta og góða afgreiðslu í heilbr.- og trn. Þarna eru vissulega réttarbætur til handa ákveðnum hópi sem hefur leitað til okkar og leitað til hæstv. ráðherra á undanförnum vikum eftir leiðréttingu á lögum um fæðingarorlof. Ég verð hins vegar að segja það og lýsa því eins og aðrir hér hafa gert að það var mjög sárt að hæstv. ráðherra skyldi þurfa að leysa upp þá nefnd sem var sett til þess að endurskoða lögin um fæðingarorlofið vegna þess að þar er mjög margt inni sem er mjög brýnt að taka á. Þó kannski einmitt þeir þættir sem hér eru séu þeir sem mest lá á þá eru aðrir þættir eins og sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs nokkuð sem búið er að ræða hér ansi lengi og á hverju einasta ári koma upp kröfur um úrlausnir í því máli sem ekki hefur verið sinnt.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að mjög æskilegt og reyndar sjálfsögð krafa væri að feðrum yrði tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs. Hv. þm. nefndi jafnframt að mörg önnur góð mál væru í heilbr.- og trn. og þyrftu að fá skjóta og góða afgreiðslu eins og réttindi sjúklinga. En það má benda hv. þm. á að til meðferðar í nefndinni er einnig till. til þál. um fæðingarorlof feðra, till. sem er 12. mál þingsins. Hún var lögð fram á fyrsta degi þingsins þar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon flytja till. til þál. um að Alþingi álykti að við endurskoðun laga um fæðingarorlof verði tryggður sjálfstæður réttur feðra til a.m.k. tveggja vikna orlofs á launum við fæðingu barns.

Hæstv. ráðherra hefur líka hjá sér fyrirspurn sem Birna Sigurjónsdóttir varaþingmaður sem var hér fyrir stuttu síðan, lagði fram 20. febr. þar sem var verið var að spyrjast fyrir um stöðu íslenskra kvenna og rétt þeirra til fæðingarorlofs, íslenskra kvenna sem eru í námi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Fresturinn til að svara slíkri fyrirspurn er tíu dagar, en henni er ósvarað enn þannig að það er mjög margt sem við þurfum að taka upp við endurskoðun á lögum um fæðingarorlof og það er ekki hægt að svara ár eftir ár að málin séu í athugun, málin séu í skoðun. Það hlýtur að koma að því að þessari athugun og skoðun heilbrrn. fari að ljúka, en hún hefur staðið yfir í nokkuð langan tíma og var þar til umræðu löngu áður en núv. hæstv. heilbrrh. kom þar til starfa, og við förum að sjá árangur af allri þeirri skoðun sem þar hefur verið á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Hér er samt sem áður um verulega réttarbót að ræða og í heilbr.- og trn., þar sem við höfum rætt þetta, vildum við bíða eftir því að sjá viðbrögð hæstv. ráðherra við þeirri beiðni sem fram hafði komið hjá foreldrum fyrirbura. Við vildum sjá hvað hæstv. ráðherra ætlaði að gera og í heilbr.- og trn. var almennur áhugi á því að leiðrétta kjör þessa hóps sérstaklega og einnig vegna fjölburafæðinga og alvarlegra veikinda barna.

[12:00]

En það vakna samt sem áður nokkrar spurningar við það að fara yfir þetta frv. sem við munum auðvitað taka fyrir á nefndarfundum. Ég býst við að þar verði kallaðir til aðilar sem hafa sérþekkingu á þessum málum. Um það er að ræða, eins og segir í 7. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu skal framlengja greiðslu fæðingarstyrks um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjórum mánuðum. Framlengja skal og greiðslu fæðingarstyrks um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.``

Í 8. gr. er svipað orðalag og segir, með leyfi forseta:

,,Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu skal framlengja greiðslu fæðingardagpeninga um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjórum mánuðum. Framlengja skal og greiðslu fæðingardagpeninga um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Hvort foreldri sem er getur að ósk móður dvalið hjá barni þennan tíma.`` --- Þ.e. þar sem barnið dvelst á sjúkrahúsi eða í heimahúsi.

Ég vildi beina spurningu til hæstv. ráðherra: Hvaða reglur gilda í þeim tilvikum þar sem um alvarlegan sjúkdóm barns er að ræða sem leiðir til dauða barnsins? Hver er réttur foreldris til orlofsins eða til þessara greiðslna til þess að dvelja heima og jafna sig eftir svo alvarlegan atburð?

Það er ekkert í þessu frv. og ég hef ekkert séð í þeim reglum sem ég hef verið að reyna að kynna mér að nokkuð sé getið um þetta sérstaklega. þess vegna beini ég því til hæstv. ráðherra hvort í gildandi lögum eða reglugerðum sé eitthvert ákvæði sem tekur á þessum tilvikum sérstaklega. Ef svo er, hvernig er þeim málum þá varið? Ef ekki, er ráðherra þá sammála því að það þurfi að gera þær breytingar á þessu frv. sem fela í sér rétt foreldra ef barn andast vegna alvarlegra veikinda, þannig að ekki skerðist réttur foreldra til orlofstöku eða til greiðslna? Mér finnst þetta skipta gífurlega miklu máli þar sem foreldri þarf ekki síður á orlofi að halda ef svo illa fer.

Það hefur verið rætt að fyrirburafæðingum og fjölburafæðingum hafi fjölgað verulega að undanförnu og má kannski fyrst og fremst rekja það til glasafrjóvgunardeildar og þess árangurs sem glasafrjóvgunardeildin hefur náð. Ég vil beina þeim spurningum líka til hæstv. ráðherra sem vissulega tengist þessu máli beint og óbeint, hvort fyrirhugað er að breyta og lagfæra aðstöðuna á vökudeildinni þar sem eru svo mikil þrengsli að ef öll þau börn sem þar dvelja þurfa á því að halda að vera hjá foreldrum sínum og foreldrarnir kannski ekki síður að vera hjá barni sínu, að segja má að það sé nánast útilokað vegna þeirra aðstæðna sem þar er boðið upp á fyrir utan það að starfsaðstæður þess fólks sem þar vinnur dags daglega eru fyrir neðan allt velsæmi. Og ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún hyggst beita sér fyrir því, í ljósi þess að fyrirburum hefur fjölgað og fjölburafæðingum einnig þar sem börn þurfa að dvelja um lengri eða skemmri tíma á vökudeildinni, að aðstæður þarna verði lagaðar þannig að starfsaðstæður starfsfólksins verði í lagi en ekki síður að mögulegt verði fyrir foreldra að dvelja hjá barni sínu eins lengi og óskað er.

Þetta snertir beint annað frv. sem heilbr.- og trn. er að fjalla um þessa dagana en það er réttur sjúklinga, það er réttur þeirra barna sem dvelja á vökudeildinni og eru að sjálfsögðu ófær um að setja fram sínar kröfur þannig að aðrir verða að gera það fyrir þau og réttur þeirra til þess að hafa hjá sér foreldra eða aðstandendur er að sjálfsögðu sá sami og réttur eldri barna til þess. En aðstæðurnar eru þannig að það verður að taka á þessum málum helst ekki seinna en nú þegar og hæstv. ráðherra mundi kannski svara okkur því á eftir hvort hún er tilbúin til þess.

Svo að ég taki nú aðeins upp þá umræðu sem hér hefur verið um fjölskyldustefnu sem þessu máli tengist líka þá er það sem kannski mestu máli skiptir þegar rætt er um kjör fjölskyldna og aðbúnað fjölskyldna í landinu, og það er ekkert eins mikilsvert og það að foreldrar geti og þeim sé gert kleift að sinna börnum sínum og vera með þeim þegar þau þurfa á að halda. Í bréfi sem hæstv. ráðherra er skrifað 8. mars og er undirritað af þremur mæðrum, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Samkvæmt áliti sérfræðinga er ekki ráðlegt að þessi börn [þ.e. fyrirburar] séu í gæslu með öðrum börnum fyrstu 1--2 árin þar sem um verulega smithættu er að ræða.``

Ef það frv. sem hér er til umræðu verður samþykkt, er alveg ljóst að það sinnir aðeins hluta af þeim tíma sem þessi börn þurfa á umönnun foreldra að halda sérstaklega vegna sinna veikinda, eins og kemur fram í þessu bréfi. En hafi hæstv. ráðherra misst af því þá las ég upp setningu úr bréfi sem þrjár mæður skrifa hæstv. ráðherra 8. mars þar sem segir, með leyfi forseta, svo að hæstv. ráðherra sé ljóst um hvað ég er að tala:

,,Samkvæmt áliti sérfræðinga er ekki ráðlegt að þessi börn séu í gæslu með öðrum börnum fyrstu 1--2 árin þar sem um verulea smithættu er að ræða. Afleiðingarnar geta orðið síendurtekin innlögn á barnadeild og þá vitum við öll um þann kostnað og þá hættu sem því fylgir.``

Þarna er talað um tíma allt að tveimur árum.

Nú er það svo að útivinnandi foreldrar eiga ekki rétt á nema vikuleyfi vegna veikinda barna og þó að það frv. sem hér er til umræðu og vissulega er réttarbót, verði samþykkt, þá stendur samt sem áður eftir að þarna getur orðið um að ræða allt að heilt ár sem þarf að sinna barninu og barnið er ekki fært um að vera í gæslu annars staðar eða innan um önnur börn. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort ... (Heilbrrh.: Ég heyri, hv. þm.) Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún muni í ljósi þeirrar stefnu sem Framsfl. hefur kynnt í málefnum fjölskyldunnar beita sér fyrir því að orlof foreldra vegna veikinda barna verði aukið. Hæstv. ráðherra er einstaklega málgefin þennan morgun, virðulegi forseti. (Heilbrrh.: Margir vilja koma að máli við ráðherra.) Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra hlýði á þær spurningar sem ég hef fram að færa vegna þess að þær skipta verulegu máli og okkur hefur verið sýnt fram á það að alls staðar á hinum Norðurlöndunum er réttur foreldra vegna veikinda barna mun meiri en hér. Og það hefur gerst aftur og aftur að þeir sem þetta mál snertir, þ.e. aðilar vinumarkaðar og ríkisvaldið, vísa á milli sín ábyrgðinni. Ríkisvaldið lýsir því yfir að þetta sé samningamál aðila vinnumarkaðarins, að þetta sé ekki málefni ríkisstjórnar og síðan segja aðilar vinnumarkaðarins: ,,Þetta er málefni ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst að leysa eða Alþingis.`` Þess vegna beini ég þessari spurningu til hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því að orlof foreldra eða réttur foreldra vegna veikinda barna verði aukinn verulega frá því sem nú er? Það skiptir miklu máli fyrir þá foreldra sem hér eiga hlut að máli, sem tengjast þessu frv. sem við erum að ræða, sem og annarra foreldra sem eiga veik börn.

Að lokum tek ég undir það að við munum flýta afgreiðslu þessa máls og það er fyrst og fremst vegna þess að hér er um mikið réttlætismál að ræða og það hefur ekki staðið á stjórnarandstöðunni í heilbr.- og trn. þegar um slík mál er að ræða, að flýta fyrir afgreiðslu þeirra. Og þó að við höfum rætt það hvort það standist lög þegar lög eru sett að þá séu þau afturvirk, þá finnst mér það í þessu tilviki vera fullkomlega réttlætanlegt og jafnvel þó að það hefði verið talað um þarna heldur lengri tíma heldur en frá síðustu áramótum. Ég fagna því að ráðherrann skyldi bregðast svo skjótt við og leggja þetta frv. fram. Samt sem áður er fjölmörgum spurningum ósvarað er varða rétt foreldra vegna veikra barna eða barna sem þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsi eða í heimahúsi vegna veikinda og ég vil leggja að hæstv. ráðherra að svara þeim spurningum sem hér hafa komið. En ég vil jafnframt ítreka það að, eins og fram kom hjá hv. varaformanni heilbr.- og trn. að við erum með mjög mörg mál inni í heilbr.- og trn. sem þýða verulegar úrbætur m.a. fyrir foreldra. Við erum með foreldra, aldraða og örykja og ýmsa þá sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi, eins og t.d. hvað varðar umönnunarlaun, rétt til umönnunarlauna vegna umönnunar í heimahúsi. Við erum einnig með frv. þar sem verið er að leggja til að ríkið taki þátt í kostnaði vegna sálfræðiþjónustu og félagsráðgjafar fyrir börn að 18 ára aldri þannig í heilbr.- og trn. eru mörg mjög góð mál frá hæstv. ríkisstjórn, en það eru jafnvel fleiri góð mál frá stjórnarandstöðunni.