Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:27:47 (4820)

1997-03-21 12:27:47# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:27]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kom fram áðan að í okkar flokki væru miðaldra karlar og þeir hefðu nú ekki mikinn áhuga á þessu máli. En það er nú öðru nær. Þeir hafa talsverðan áhuga á þessu. Ég get nefnt sem dæmi að það situr einn hv. þm. í forsetastóli sem hefur mikinn áhuga á þessu og er reyndar sjálfur úr gífurlega stórum systkinahópi. Mig minnir að hv. þm. Guðni Ágústsson eigi 15 systkini þannig að hann hefur fullan skilning á þessu, sá hv. þm., og situr í heilbr.- og trn. og mun að sjálfsögðu hjálpa okkur við að koma þessu ágæta máli hér í gegn.

Varðandi það að ég hafi ekki beitt mér í jafnréttismálum, þá er það alrangt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Þar hef ég beitt mér af fullum krafti og m.a. í starfsmatinu, var m.a. með grein í Morgunblaðinu í gær varðandi það atriði. Ég vil líka benda hv. þm. á að Framsfl. er fyrsti flokkurinn á Íslandi sem hefur samþykkt sérstaka jafnréttisáætlun og þar átti sú er hér stendur talsverðan hlut að máli.

Það var einnig athyglisvert að hlusta á hv. seinasta ræðumann þar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og maður spyr þá: Hvað gerði ráðherrann þá? Það var nú ekki mikið. Það var afar athyglisvert að heyra hér að hv. þm. Össur Skarphéðinsson væri kominn úr barneign vegna aldurs. Það get ég ekki skilið. Ef svo er, þá er eitthvað meira að en aldurinn.