Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:52:32 (4829)

1997-03-21 12:52:32# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir síðustu orð ráðherra að það er nauðsynlegt að vera ekki að blanda allt of mörgum málum saman við þetta og ég veit að hv. þm. gera það ekki. Það hefur komið fram í máli þeirra þótt þeim liggi auðvitað mikið á hjarta varðandi aðrar réttarbætur í fæðingarorlofsmálum. En þetta er auðvitað brýnasta málið og um það eru allir sammála.

En varðandi endurskoðunina þá svaraði hæstv. ráðherra mér ekki. Er þessi endurskoðun farin af stað á nýjan leik? Ef svo er ekki, hvenær verður það? Mun endurskoðunin ná til lengingar á fæðingarorlofi, réttar feðra, breyttrar fjármögnunar og samræmingar á fæðingarorlofi? Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að geta svarað því skýrar en hún hefur gert.

Ráðherrann svaraði heldur ekki því sem ég spurði um, hvort hún væri ekki sammála mér um að við ættum að stefna að því markmiði að hafa fæðingarorlof fyrir þessa hópa sem við höfum verið að tala hér um, fyrirburaforeldra og fleirburaforeldra, að setja okkur það markmið að það verði að lágmarki eitt og hálft til tvö ár eins og fagfólk hefur sagt að væri nauðsynlegt, ekki síst vegna fyrirburafæðingar. Það vildi ég að kæmi sértaklega fram hjá ráðherra. Ég hefði gjarnan viljað sjá líka í þessu frv., þó ég muni ekkert gera kröfu um það af því að ég vil ekki tefja málið, meiri sveigjanleika, að það væri hægt að lengja fæðingarorlofið vegna þessara hópa enn frekar undir sérstökum kringumstæðum. Slík tillaga má auðvitað ekki vera til að tefja málið. En ég hefði gjarnan viljað sá hana í frv.