Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:55:27 (4831)

1997-03-21 12:55:27# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég var að tala um að ég hefði viljað sjá meiri sveigjanleika en er í frv. þá er ég að tala um að það geti í ákveðnum tilvikum verið um lengra fæðingarorlof að ræða heldur en hér er kveðið á um, þegar um mikil veikindi er að ræða. Það er oft á tíðum svo að fjórir mánuðir er alls ekki nægjanlegt þó það bætist þarna við allt upp í 13 mánuði t.d. þegar við erum að tala um fyrirbura- eða fleirburafæðingar.

Mig undrar svolítið, herra forseti, sem fram kom hjá hæstv. ráðherra. Nefndin sem er almennt að endurskoða fæðingarorlof var leyst upp snemma í vetur og að það taki alla þessa mörgu mánuði --- við erum að sigla inn í vorið --- að ráðherra sé enn að velta fyrir sér hvernig á að skipa nefndina o.s.frv. Þetta tekur allt of langan tíma hjá hæstv. ráðherra. Nefndin þarf svigrúm til að vinna og við hljótum að vænta þess að ráðherra leggi fram frv. næsta haust. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum hefur þessi nefnd ekki verið skipuð á nýjan leik? Það er einhver fyrirstaða í þessu. Hver er hún, hæstv. ráðherra? Mér finnst nauðsynlegt að það komi fram.