Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 13:03:44 (4837)

1997-03-21 13:03:44# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[13:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er verið að endurskoða reglur og vinna að réttarbótum fyrir foreldra langveikra barna í Tryggingastofnun. En hæstv. heilbrrh. nefndi ekki hvort og hvernig hún hygðist breyta þeim óréttlátu reglum sem gilda um greiðslu ferðakostnaðar til foreldra barna sem eru á sjúkrahúsi. Hæstv. heilbrrh. segir að móðir sé yfirleitt hjá barni á vökudeild. Margar mæður eiga mörg börn og þurfa að sinna þeim bæði heima og á spítala. Dæmið sem ég nefndi í máli mínu áðan var einmitt þannig að það var fjölburamóðir sem þurfti að sinna öðru barninu á vökudeildinni og hinu heima. Ég þekki nokkur dæmi um að foreldrar þurfa að keyra frá Keflavík til Reykjavíkur daglega og jafnvel oft á dag, frá Hveragerði til Reykjavíkur jafnvel oft á dag. Það eru mýmörg svona dæmi og nú liggur fyrir hjá Tryggingastofnun áfrýjun vegna úrskurðar um greiðslu þar sem var sótt um greiðslu daglega. Þessi úrskurður hefur ekki borist. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að foreldrar sem eru í þeirri stöðu að þurfa að fara á hverjum degi til þess að sinna barni sem er á sjúkrahúsi og þurfa að fara langan veg, fái greitt daglega fyrir slíkar ferðir? Það þarf að koma fram í þessari umræðu því þetta eru óréttlátar reglur sem eru alls ekki viðunandi. Og ég held að hæstv. ráðherra geti verið mér sammála í þeim efnum. Í þessari umræðu þarf því að koma fram hvað hæstv. ráðherra hyggst gera í málefnum fólks sem býr við þessar aðstæður.