Sóttvarnalög

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 14:39:06 (4849)

1997-03-21 14:39:06# 121. lþ. 96.10 fundur 191. mál: #A sóttvarnalög# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg í þessari umræðu um frv. til sóttvarnalaga. Eins og komið hefur fram hér bæði hjá hv. formanni heilbr.- og trn. og varaformanni, sem hafa talað á undan mér, þá hefur verið farið mjög ítarlega í þetta frv., bæði í vetur og í fyrra, og hv. formaður nefndarinnar hefur farið mjög ítarlega í þær breytingar sem nefndin leggur til. Ég vil að það komi fram að það var einhugur í nefndinni um allar þessar breytingar og þó nokkur umræða einmitt um upplýsingamálin sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði hér að umtalsefni. Það er vissulega ástæða til að skoða þau mál nánar í nefndinni, eins og hún gat um, því það er rétt að upplýsingar eru verðmæti og sérstaklega upplýsingar í heilbrigðisþjónustunni og þær munu verða verðmætari á næstu árum og áratugum, sérstaklega með tilliti til sérstöðu Íslands. Ég efast ekki um að heilbr.- og trn. mun skoða það mál þegar við ræðum nánar um frv. um réttindi sjúklinga.

Ég vildi koma hér upp vegna þess að mér gafst ekki kostur á að vera viðstödd þegar þetta mál var afgreitt úr nefndinni þar sem tveir fundir voru í þinginu á sama tíma og mér gafst ekki kostur á að sitja fund heilbr.- og trn. þar sem ég var bundin á öðrum fundi. En ég vil geta þess að ég er fyllilega fylgjandi því nál. sem mælt hefur verið fyrir og styð þetta mál heils hugar.