Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 15:03:29 (4851)

1997-03-21 15:03:29# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessa skýrslu sem við í þingflokki jafnaðarmanna höfum beðið um þó að um hana verði sagt eins og um svo margt annað sem frá ráðherrum kemur að mikið vantar á að henni sé svarað eins og um var beðið, en af níu spurningum svarar hæstv. ráðherra aðeins tveim til þremur. Það segir okkur eins og reyndar er viðurkennt í skýrslunni og fram kom í máli ráðherra áðan að skráning og upplýsingar um ýmsa nauðsynlega þætti biðlistanna er mjög ófullkomin og nauðsynlegt úr að bæta og ráðherra hefur greinilega áform um. Það er auðvitað ótækt að ekki sé neitt vitað um áhrif langra biðlista á útgjöld ríkis og sveitarfélaga, svo sem kostnað við aukna heimaþjónustu, aukinn lyfjakostnað á vistunarpláss eða kostnað við dýrari og umfangsmeiri aðgerðir vegna langrar biðar. Eða hvaða áhrif löng bið hefur á afkomu heimilanna, atvinnuöryggi, vinnutap og aðra þá þætti sem mikil áhrif hafa, ekki bara á sjúklingana heldur og fjölskyldur þeirra og framfærslumöguleika. Allar þessar upplýsingar er nauðsynlegt að hafa til þess að hægt sé að leggja mat á það hvort og þá hvaða sparnaður fylgir löngum biðlistum, frestun á aðgerðum, og þá hvort ekki sé skynsamlegra að gera átak og setja t.d. þak á lengd biðar eftir aðgerðum og ekki bara út frá sparnaðarsjónarmiðum heldur og öryggi og velferð sjúklinganna. Engu að síður koma fram í þessari skýrslu ýmsar upplýsingar sem eru athyglisverðar og vil ég fara yfir nokkur af þeim atriðum.

Í fyrsta lagi eru biðlistarnir mjög langir, án endurhæfingar tæplega 3.400 manns, sem er aukning um 30% frá árinu 1993. Og maður veltir fyrir sér, af því að fram kemur í skýrslunni að kostnaður við að afgreiða alla þá sem eru á biðlista Landspítalans er áætlaður 270 millj. kr., hvað kostar t.d. lyfjameðferð og hver er kostnaður vegna lyfja sem sjúklingar þurfa að taka meðan þeir bíða á biðlistunum? Aðgerðirnar verða dýrari og umfangsmeiri, sjúklingarnir eru á bótagreiðslum, vinnutap er mikið o.s.frv. Erum við ekki komin hátt upp í þennan kostnað --- þessar 270 millj. kr. sem kostar að afgreiða alla sem eru á biðlistum? Þetta er einmitt gatið í skýrslunni, að þessum spurningum er ekki svarað.

Það kemur fram í þessari skýrslu, sem mér finnst mjög athyglisvert og veldur auðvitað áhyggjum, að frá 1990, á sama tíma og 90 rúmum á skurðdeildum hefur verið lokað endanlega í Reykjavík og á Reykjanesi, þá er veruleg aukning að því er varðar fjölda sjúklinga sem hjúkrunarfólk annast. Það kemur fram að á sama tíma annast hjúkrunarfólk fleiri sjúklinga en verið hefur eða um 17,2% aukning á hvert stöðugildi hjúkrunarfræðinga. Þetta sannar það sem margoft hefur verið haldið fram hér að álag á hjúkrunarfólk er orðið allt of mikið. Og það er ómanneskjulegt þetta álag sem er verið að leggja á hjúkrunarfólk sem staðfest er í þessari skýrslu.

Fram kemur í þessari skýrslu að aðalvandamálið sé á bæklunardeildum og fyrirhugað sé að veita sérstaka fjárveitingu til átaks þar. Hvað mun það þýða fyrir styttingu á þessum biðlistum og hvenær verður ráðist í þetta átak? Um það er ekki rætt í þessari skýrslu. Það eru tæplega 1.400 manns á biðlistum eftir bæklunaraðgerðum og þeim einum og sér hefur fjölgað um 25% á sl. þrem eða fjórum árum. Og af því hæstv. ráðherra sagði að bráðasjúklingar væru ekki á þessum listum þá sé ég ekki betur en að fram komi í þessari skýrslu að á bæklunardeildinni sé um helmingur sjúklinga bráðasjúklingar. Er þá um helmingur af þessum 1.400 manns bráðasjúklingar?

Það sem ég var líka hissa á, virðulegi forseti, og ég tek það með í þessu samhengi, var það sem hæstv. ráðherra sagði í útvarpi eftir að þessi skýrsla kom fram, þar sem ég hafði haldið því fram að þetta ástand væri óviðunandi og dýrt fyrir þjóðfélagið, en hún vísaði því alveg á bug að biðlistar væru vandamál. Biðlistaskýrslan sýndi ekki slæmt ástand hér á landi heldur þvert á móti, að sögn hæstv. ráðherra. Telur hæstv. ráðherra það virkilega ekki vera vandamál þegar 3.400 manns eru á biðlista og fram kemur að um helmingur þeirra sem eru á bæklunardeildum eru bráðasjúklingar? Og án þess að það komi fram í skýrslunni þá er ég sannfærð um að mikill fjöldi þeirra sem eru á biðlista eftir bæklunaraðgerðum er óvinnufær. Það sem er alvarlegt og kemur fram í þessari skýrslu er að margir þeirra sem eru á biðlistum, t.d. eftir bæklunaraðgerðum, eru að staðaldri á ávanabindandi lyfjum eins og morfíni. Fram komu í útvarpi, eftir að þessi skýrsla kom fram, upplýsingar um að dæmi væru um að sjúklingar sem væru á biðlistum og hefðu ánetjast ávanabindandi lyfjum hefðu þurft að fara í meðferð eftir slíka lyfjatöku. En hæstv. ráðherra telur þetta ekki vera neitt vandamál og þetta sé ekki óviðunandi ástand heldur þvert á móti. Hversu langt þarf að ganga til þess að ástandið sé óviðunandi að mati hæstv. ráðherra? Hæstv. ráðherra getur ekki leyft sér að tala svona kæruleysislega um þessa biðlista eins og mér fannst koma fram í máli hennar í Ríkisútvarpinu þegar þessi skýrsla kom fram. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt að bið hér eftir nauðsynlegum aðgerðum er tvisvar til þrisvar sinnum lengri heldur en þekkist í löndunum sem við berum okkur saman við.

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að ráðherrann sýni okkur þá virðingu að vera hérna í salnum á meðan við erum að ræða biðlista sem ráðherrann telur að vísu að séu ekki vandamál. En hún getur þó a.m.k. sýnt þeim þá virðingu, sem telja þetta vera stórt vandamál, að hún hlýði á mál okkar sem hér erum inni. Og bið ég forseta að stöðva klukkuna þannig að ekki sé gengið á tíma minn. (Gripið fram í.) Það er ekki til of mikils mælst að hæstv. ráðherra hlusti á mál okkar ef vera mætti að það hefði einhver, vonandi, áhrif á ráðherrann þannig að hann a.m.k. viðurkenni að við séum hér að fjalla um vandamál.

Öll Norðurlöndin nema Ísland hafa sett sér ákveðnar reglur um hámarksbið eftir aðgerðum. Við erum að tala þar um þrjá til sex mánuði, allt eftir tegund aðgerða og sjúkdóms. Og hvað er sagt í þessari skýrslu þegar biðlistarnir eru skoðaðir? Það er verið að tala um að biðlistarnir séu það langir hér að sé miðað við þriggja til fjögurra eða sex mánaða bið eins og er í löndunum sem við berum okkur saman við þá samsvarar það 600 manna biðlista, t.d. á bæklunardeildinni, en við erum með 1.367 manns á biðlista. Og það er vandamál í mínum huga að við skulum bjóða sjúklingum upp á það. Það eru ekki bara þjáningarnar sem þessu fylgja, óvissan og óöryggið --- ekki bara fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans, heldur vinnutapið, bótagreiðslurnar og allt annað sem þessu fylgir og þetta hefur vissulega áhrif á afkomu sjúklinganna. Hér eru ekki til skilgreind öryggismörk, það er að vísu rétt og kemur fram í skýrslunni, en önnur lönd hafa sett sér þau. Ég held við teflum mjög, og ég held að það sé varlega orðað, á tæpasta vað að því er varðar öryggi sjúklinganna. Við erum að tala um að helmingurinn af sjúklingunum sem eru á biðlistum á bæklunardeild sé bráðasjúklingar.

Ég vil spyrja: Telur hæstv. ráðherra ekki tímabært að setja reglur um hámarksbið eftir aðgerðum eins og við jafnaðarmenn höfum lagt til í stefnumörkun okkar sem liggur hér fyrir þinginu, stefnumörkun í heilbrigðismálum? Ég les úr þessari skýrslu að læknar séu okkar sammála um að það skuli gert vegna þess að það kemur fram í skýrslunni að til að setja heilbrigðiskerfinu markmið um að ákveðnir sjúklingahópar skuli aldrei bíða lengur en þrjá mánuði, aðrir sex eða jafnvel enn þá lengur og að biðlistar verði þannig af fleiri en einni tegund eða þyngd, þurfi m.a. að koma upp ítarlegu upplýsingakerfi um hvaða áhrif biðtími sjúklinga hefur hvað varðar lyfjatökur, vinnufærni, fjárhagsástand og fleira. Og þetta vantar. Takist ekki að ná settu markmiði um biðtíma þarf að skoða þann möguleika að sjúklingar geti valið að fá aðgerðina gerða annars staðar. Þetta lýsir því að læknar hafa áhyggjur af þessu og telja ástandið alvarlegt og að það þurfi að skoða þann möguleika að sjúklingar geti fengið aðgerðina gerða annars staðar. Og ef það er ekki hægt hér á landi, herra forseti, þá spyr ég hæstv. ráðherra --- erum við þá að opna frekar fyrir möguleika á að sjúklingar geti farið erlendis til aðgerða?

Það kemur fram að yfirlæknar í greininni, þá erum við enn þá að tala um bæklunaraðgerðirnar, telja að stefna eigi að þriggja til fjögurra mánaða hámarksbiðtíma. Þeir geta það ekki einir og sér, þeir geta það ekki nema með liðsinni hæstv. heilbrrh. Og hvað þarf til? Jú, það þarf fjármagn. Við höfum aðstöðuna á spítalanum. Við höfum skurðstofurnar, nýtingin á þeim er þannig að það væri hægt að nýta þær miklu betur en gert er. Við erum fyrst og fremst að tala um fjármagn en ég er ekki viss um að við séum að tala um nokkurn sparnað með því að láta sjúklingana vera svona lengi á biðlistum.

Við erum að tala um hjartaaðgerðir. Þar eru nokkrir tugir fullorðinna á biðlista og börn einnig. Það er talað um að að flýta aðgerðum á nokkrum sem þar bíða. Við erum að tala um að algengur biðtími vegna háls-, nef- og eyrnasjúkdóma sé eitt ár og þar er talað um að óæskilegt sé að biðin sé lengri en fjórir mánuðir. Og ásættanlegt sé að biðlisti augndeildar sé um 150--200 manns en fjöldi sjúklinga á biðlista á augndeild Landspítalans er nú 314.

[15:15]

Og af því að ráðherra talar um að hér sé ekki um neitt vandamál að ræða, engir bráðasjúklingar bíði þá eru þó á biðlista geðdeildar um 200 manns og á biðlista barnageðdeildar eru 93 börn og unglingar. --- Það væri vel til fundið ef hv. varaformaður heilbr.- og trn. væri nú ekki að ónáða ráðherrann meðan þessi umræða fer fram. --- Yfirlæknir geðdeildar Landspítalans telur að öll mál sem þangað koma séu svo bráð að leysa verði úr þeim þegar í stað. En við erum samt að tala um 200 manns á biðlista og 93 börn og á fíkni- og fjölkvilladeildum eru 74 á biðlista. Það er mat yfirlæknisins á þeirri deild að öll mál sem þangað koma séu svo brýn að leysa verði úr þeim þegar í stað.

Ekki er hægt að sýna fram á eða gera grein fyrir, réttara sagt, hve stór hópur fólks yrði af launum og missi bóta vegna biðar á biðlistum þegar það verður óvinnufært en það kemur þó fram að um er að ræða að hópur fólks verður af launum og missi bóta vegna biðar eftir læknisaðgerðum.

Það er því ljóst að þessi skýrsla kallar á að farið verði í að efla skráningu á þessum biðlistum þannig að hún gefi okkur meiri möguleika og að ráðist verði í frekari aðgerðir og að settar verði reglur til þess að stytta biðlistana. Hæstv. ráðherra nefndi hér að styrkja þyrfti úrræði vegna barnageðdeildarinnar, og hefði ég áhuga á að vita frekar um það. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra og ég spyr: Hvað er ráðherrann með í huga? Það er varla út í loftið að ráðherrann nefnir að styrkja þurfi úrræðin en það er ekki nóg að segja það. Hvernig ætlar ráðherra að styrkja úrræðin og eru einhver áform uppi um það á næstunni að styrkja úrræðin vegna barnageðdeildarinnar, sem ég tel mjög mikilvægt að verði gert?

Mjög athyglisverðar upplýsingar varðandi uppbyggingu á öldurnarþjónustunni koma fram sem ástæða væri til að fara yfir. Þar kemur fram að af 189 með mjög brýna þörf og bíða eftir plássi á öldrunardeildum eru um 70 á bráðasjúkrahúsum. Hvað er verið að gera í málum varðandi uppbyggingu öldrunarþjónustu? Við vitum að þetta getur orðið vandamál í framtíðinni að öldruðum er að fjölga verulega og á því máli þarf að taka.

En ég þakka ráðherra fyrir skýrsluna þó vissulega valdi það mér vonbrigðum að hæstv. ráðherra telji að ekki sé slæmt ástand að því er varðar biðlistana. Að það sé ekkert vandamál og engu líkara en að á þessu máli þurfi ekki að taka. Vonandi verður skýrslan þó til þess að eitthvað verði gert í þeim málum og ráðherrann tilgreindi ýmis atriði á nokkrum deildum sem væri fyrirhugað að bæta úr. En ég ítreka aftur spurningu mína: Er ráðherrann sammála því að við setjum okkur það markmið, og setjum reglur um biðlistana, þannig að biðin verði ekki lengri en þrír til sex mánuðir og að við setjum okkur þar sambærilegar reglur og hin Norðurlöndin hafa gert?