Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 15:32:00 (4853)

1997-03-21 15:32:00# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það sem vekur einna mesta athygli í þessari umræðu og þeirri skýrslu sem við erum hér að ræða er hversu lítið er til af raunverulegum upplýsingum um stöðu þeirra fjölmörgu sjúklinga sem eru á biðlistum hér á landi og að ekki skuli hafa verið lögð vinna í það hér eins og hefur verið gert í nágrannalöndunum að afla þessara upplýsinga, halda þeim saman og birta. Mér finnst samt sem áður koma fram í þessari skýrslu að þó byggt sé á upplýsingum frá landlækni sé um ákveðið misræmi að ræða í þeirri skýrslu sem hæstv. heilbrrh. hefur dreift og svo aftur skýrslu frá landlæknisembættinu um biðlista á Íslandi 1991--1997, þar sem fram koma upplýsingar frá því í janúar á þessu ári.

Þá finnst mér einnig að í þessari skýrslu sé aftur og aftur ýjað að því að sjúklingar séu á biðlista, ekki endilega vegna þess að þörf þeirra fyrir læknisþjónustu sé fyrir hendi. Það er ekki sagt beinum orðum nema þá á einum stað að ef hreinsað sé til á biðlistunum þá detti út á milli 10--15% þeirra sem á biðlistum eru vegna þess að þeir séu í raun og veru ekki í þörf fyrir aðgerðir, a.m.k. ekki í bráðri þörf.

Annað sem stingur mig er orðalag sem notað er í skýrslunni t.d. á bls. 2 þar sem er verið að tala um biðlista á einstökum deildum eða í einstökum sérgreinum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hvað varðar almennar skurðlækningar hefur þar myndast biðlisti á síðustu árum einkum á Landspítala og einkanlega, að því er virðist, vegna þess að komin er ný og fljótvirkari tækni er eykur væntingar fólks og fjölgar aðgerðum.``

Það séu væntingar fólks til þessara aðgerða sem ráði ferðinni, en ekki vegna þess að viðkomandi einstaklingur hafi um langan tíma þjáðst af einhverjum sjúkdómi þar sem aðgerðar er þörf.

Það er á fleiri stöðum í þessari ágætu skýrslu verið að ýja að því að þessi umræða um biðlistana sé öll frekar yfirborðskennd og notuð til þess að draga fram ákveðnar aðgerðir í heilbrigðismálum. Mér finnst jafnvel að verið sé að gera því skóna að skýrslubeiðni eins og þessi plús umræðan sem hér fer fram og umræður sem aldrei hafa farið fram um biðlista séu fyrst og fremst til þess að knýja fram hærri fjárframlög til sjúkrahúsa eða einstakra deilda sjúkrastofnana og að jafnvel ýjað að því að læknar eða hjúkrunarfólk beiti þeirri aðferð að setja á biðlista sjúklinga sem ekki séu í brýnni þörf fyrir aðgerð til þess að knýja fram auknar fjárveitingar.

Mér finnst þetta gera þessa skýrslu neikvæðari en hún þarf að vera vegna þess að af hálfu þeirra sem báðu um skýrsluna var einungis verið að fara fram á að lögð yrði vinna í að kanna með skipulegum hætti hversu margir eru á biðlistum og hvaða afleiðingar biðtíminn hefur, ekki bara á sjúklinginn heldur á fjölskyldu hans, fjárhag og á afkomu, má í raun segja, þjóðarinnar í heild. Þess vegna finnst mér ekki vera málefnalega að verki staðið þegar verið er að ýja með þessum hætti að því að umræða um biðlista sé að stærstum hluta tilkomin til þess að ýta undir fjárveitingar til einstakra deilda og að sjúklingum sé raðað inn á biðlista til þess að ná fram breytingum á fjárframlögum til deilda. Þegar ýjað er að því að forgangsröðun fjárframlaga inn í heilbrigðiskerfið sé hugsanlega tilkomin m.a. vegna þess að menn séu misjafnlega duglegir, ýmist þrýstihópar, læknar eða þingmenn, að fjalla um langa biðlista á einstökum deildum, auðvitað er ljóst að það er töluvert misjafnt hvar biðlistarnir eru, en þær upplýsingar sem við höfum séu fyrst og fremst notaðar til þess að ýta á hærri fjárveitingar til sjúkrahúsanna eða einstakra deilda.

Misræmið milli þessarar skýrslu og þess sem kemur fram í skýrslu landlæknis frá því í janúar 1997 þar sem landlæknisembættið telur sig vera að gefa nokkuð glöggar upplýsingar um ástandið eins og það er í dag finnst mér vera töluvert og lítið gert úr þeim upplýsingum sem þó eru til hjá landlækni. En það kemur fram m.a. í skýrslu landlæknis að þrátt fyrir að það hafi orðið verulegar framfarir og meðallegutími á sjúkrahúsum hafi styst frá því sem áður var, þá sé það engu að síður staðreynd að það komi veikari og eldri sjúklingar inn til meðferðar nú en áður. Það kennir hann fyrst og fremst því að biðlistanir eru mjög langir.

Jafnframt eins segir á bls. 2 í skýrslu landlæknis, með leyfi forseta:

,,Embættið lagði strax áherslu á að biðlistar yrðu tölvufærðir og reglulega yfirfarnir. Smám saman færðust biðlistar í betra horf og eftir 1991 fóru að berast tölvufærðir biðlistar frá sérgreinasjúkrahúsunum og nú má fullyrða að yfirleitt eru allir biðlistar á sérgreinasjúkrahúsunum tölvufærðir og reglulega farið yfir þá.``

Hins vegar finnst mér í skýrslunni vera sagt að þetta sé vinna sem sé í raun og veru eftir og það megi reikna með því að 10--15% þeirra sem eru á biðlistum í dag detti út við þessar reglulegu yfirferðir vegna þess að þeir séu ekki í raunverulegri þörf fyrir aðgerð eins og stendur. Þarna finnst mér gæta ákveðins misræmis í þeim upplýsingum sem fram koma hjá landlækni og svo aftur í þessari skýrslu. Það er ekki bara á stóru sjúkrahúsunum hér í Reykjavík sem biðlistarnir eru yfirfarnir reglulega og skráðir. Hér segir líka á bls. 4 í skýrslu landlæknis, í kafla sem heitir: ,,Nánar um biðlista``:

,,Til viðbótar við skráða biðlista 1996 hafa nú komið til nýir biðlistar sem áður voru ekki teknir með eða fyrirfundust ekki, þ.e. biðlistir frá hálfs-, nef- og eyrnadeild FSA, biðlistar frá kvensjúkdómadeild Landspítalans og nýtilkomnir biðlistar eftir augnaðgerðum. Biðlistar á almennum skurðdeildum urðu aðallega til eftir að kögunaraðgerðir hófust 1992--1993. Einnig hefur verið bætt við biðlistum frá Sjúkrahúsinu á Akranesi sem eru nýtilkomnir. En eitthvað ber á að sjúklingar úr Reykjavík leiti til sjúkrahúsa utan Reykjavíkur.

Í þessari skýrslu er tafla um líðan fólks á biðlistum eftir kransæðaaðgerðum og ýmsum öðrum aðgerðum. Þar kemur mjög greinilega fram, þrátt fyrir það að ráðuneytið telji sig ekki geta haft yfirsýn yfir þau áhrif sem biðlistar hafa á líðan sjúklinga, að biðlistarnir hafa veruleg áhrif á líðan sjúklinga og lyfjataka sjúklinga eykst verulega og getur endað á þann veg sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór hér yfir áðan, að það þurfi að koma til sérstakrar meðferðar vegna mikillar lyfjanotkunar.