Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:04:03 (4856)

1997-03-21 16:04:03# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:04]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að svara hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hún spurði sérstaklega um meðferð brunasjúklinga. Ég vil geta þess að í sumar var opnuð á gjörgæsludeildinni sérstaklega útbúin stofa fyrir brunasjúklinga sem gjörbreytti alveg aðstöðunni fyrir þá sem koma mikið brenndir inn á Ríkisspítala. Varðandi lýtalækningadeildina, þá var í undirbúningi að stækka þá deild þar sem lýtalækningadeildin er til húsa núna en síðan var á seinni stigum tekin sú ákvörðun að opna aðra deild. Þess vegna tafðist þetta nokkuð, en það er búið að auglýsa eftir starfsfólki þannig að ég býst við að það séu a.m.k. tvær vikur þangað til lýtalækningadeildin verður opnuð.

Varðandi barna- og unglingageðdeildina, þá er það hárrétt sem hv. þm. sagði að þar er mikið vandamál. En það verður að minna á að sérfræðingum hefur verið fjölgað. Á sl. ári var fjölgað sérfræðingum um fjóra á barna- og unglingageðdeildinni til að létta undir, en það er rétt að einhverfir hafa lent þarna einhvers staðar á milli stafs og hurðar og það er ekki afsakanlegt. Það er hárrétt hjá hv. þm. Það er vegna þess að þetta er svona á mörkum þess sem félmrn. og heilbrrn. þjónusta og við erum að vinna að því að samhæfa þetta betur, það er alveg nauðsynlegt.

Varðandi öldrunarþjónustuna vil ég minna á að það er verið að bæta úr brýnni þörf fyrir öldrunarþjónustu með því að opna í Skógarbæ nú í vor. Þar verða allt að 70 hjúkrunarrými. Þessi opnun sem verður í Hveragerði og er sérstaklega ætluð geðfötluðum öldruðum léttir líka á Reykjavíkursvæðinu og einnig opnun öldrunarsjúkrahúss á Landakoti sem verður á næstunni. Þá erum við að létta mjög á þessum biðlistum. Sem betur fer voru tölurnar ekki alveg réttar sem hv. þm. var með því að við erum að tala um 145 sjúklinga sem bíða eftir hjúkrunarrými og okkur sýnist að það sé í sjónmáli að við getum uppfyllt þær þarfir sem þar eru.