Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:06:27 (4857)

1997-03-21 16:06:27# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessar upplýsingar sem hún gaf hér við fyrirspurnum mínum. Það er gott og blessað að bæta við starfsfólki á barna- og unglingageðdeildinni, enda var þar mjög brýn þörf. Engu að síður bíða enn mjög mörg börn eftir þjónustu og einhverfu börnin hafa ekki fengið þjónustu enn þá. Þau hafa ekki fengið þjónustu frá greiningu sl. ár og það tel ég mjög alvarlegt mál þannig að það verður að leysa það mál.

Vegna brunasjúklinganna og lýtalækningadeildarinnar þá er það auðvitað fagnaðarefni að tekið skuli hafa verið á þeim málum, enda verður þjóð sem ætlar að fara að byggja upp álver og stóriðju þar sem mun meiri hætta skapast á brunaslysum að hafa almennileg úrræði ef slíkt kemur upp á. Það er því ekki seinna vænna að koma þeim málum í gott horf.

Vegna ummæla hæstv. ráðherra um öldrunarþjónustuna og uppbyggingu öldrunarheimilis í Hveragerði, sem auðvitað er gott og blessað svo langt sem það nær, þá er ég ekki sátt við að túlka það að hjúkrunarheimili í Hveragerði létti á Reykjavíkursvæðinu vegna þess að ég hef verið ósátt við það þegar sjúklingar eða aldraðir eru fluttir hreppaflutningum vegna þess að þeir þurfa á þjónustu að halda eins og hefur tíðkast hér. Menn hafa verið, þegar þeir eru orðnir aldraðir og sjúkir, fluttir hér hreppaflutningum frá sínum heimaslóðum og þurft að eyða ævikvöldinu langt frá sínum nánustu. Það tel ég alls ekki að eigi að líðast. En ég fagna því engu að síður að hæstv. heilbrrh. er með áform uppi til úrbóta í þessum málum.