Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:08:51 (4858)

1997-03-21 16:08:51# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er þörf umræða og málið hefur reyndar oft borið á góma í umræðum hér á Alþingi. Okkur jafnaðarmönnum fannst mjög mikilvægt að fá skýrslu um þessi mál og ég get vísað til framsöguræðu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hönd þingflokksins varðandi þessa skýrslu.

Það er undrunarefni hversu oft það þarf til að þingmenn komi annaðhvort með fyrirspurnir eða biðji um skýrslu um mál sem varpa skýru ljósi á ýmislegt í viðkomandi ráðuneytum. Og maður veltir fyrir sér hvernig það má vera að ekki sé oft og tíðum búið að vinna þessar upplýsingar í ráðuneytunum til þess einfaldlega að geta tekið þar réttar ákvarðanir og verið með þá forgangsröðun sem þarf.

Í tilefni orða hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að sjúklingar mundu e.t.v. fara erlendis að leita sér hjálpar, þá ætla ég að byrja mál mitt á því að bera fram fyrirspurn til ráðherra. Getur það verið að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu opni á möguleika fyrir íslenska sjúklinga að leita sér lækninga erlendis á kostnað Tryggingastofnunar ríkisins? Þetta er fyrsta spurning mín, virðulegi forseti, til ráðherrans.

Í skýrslunni kemur fram hver meðhöndlun skurðsjúklinga utan spítala og á dagdeildum hefur verið og að hún hefur aukist mjög mikið á þessu tímabili. Eins og hér hefur komið fram er vísað til þess að 90 rúmum á skurðdeildum hefur verið lokað og að hjúkrun hefur þrátt fyrir það stóraukist.

Hvað þýðir þetta í raun? Hvað þýðir þessi fjöldi? Hvað þýðir þetta í kostnaði? Hvað erum við að gera, hvaða ákvarðanir tökum við og hvað þýða þær í kostnaði eða sparnaði fyrir sjúkrahúsin og fyrir samfélagið? Það hefur ekki legið fyrir fram að þessu mér vitanlega og ég hef lagt fram, og vil láta koma fram í þessari umræðu, ítarlega fyrirspurn til heilbrrh. um ferliverk unnin á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, á Ríkisspítölum og á öðrum sjúkrahúsum en Ríkisspítölum þar sem fram komi sundurliðað fyrir árin 1993--1996 hve mörg ferliverk hafa verið unnin, hvernig þau skiptast á sérfræðigreinar og hvert sé hámark þeirrar upphæðar sem sjúklingur þarf að greiða, svo sem fyrir skurðaðgerð á bæklunardeildum og aðrar aðgerðir tilgreindar jafnframt og hvað læknar greiða fyrir aðstöðu og þjónustu sem spítalinn veitir og hvort greiðslur hafa verið samræmdar. Ég tel ástæðu til að benda á þetta vegna þess að við höfum ekki hugmynd um hvað þær ákvarðanir þýða, sem hafa verið teknar um að færa aðgerðir út úr hefðbundnu formi sjúkrahúsanna yfir ýmist á læknastofur eða í þessum tilfellum yfir í ferliverk sem unnin eru án þess að til innlagnar komi og þar sem sjúklingar greiða svo og svo mikið fyrir aðgerð, og hvað er verið að spara.

Það kemur fram í skýrslu frá landlækni sem heitir biðlistar á Íslandi frá 1991--1997 að vandi hjúkrunarsjúklinga er verulegur og að fjölga þurfi hjúkrunarrúmum á Reykjavíkursvæðinu. Bent er á að 80 rúm séu teppt á bráðadeildum vegna sjúklinga sem eru hjúkrunarsjúklingar og þrátt fyrir að heimaþjónustan sé orðin allgóð, þá fáist vart betri nýting en er í dag og það sé áætlað að það þurfi að fjölga hjúkrunarrýmum um 15% árlega. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að það er mjög undarlegt að lesa þetta beint ofan í þær athugasemdir sem koma hér í skýrslunni um að það hafi verið fækkað um 90 rúm á skurðdeild vegna breyttra aðgerðaforma. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram virðulegi forseti.

Annað sem mig langar að nefna. Það var haldin ráðstefna í gær á Hótel Sögu. Þar kom fram að í Bandaríkjunum fá bæklunarsjúklingar svokallaða kjörmeðferð, þ.e. menn hafa reynt að koma sér niður á það að finna aðferð í aðgerðum og hjúkrun sem er á einhvern besta hátt, þ.e. frá aðgerðar-, hjúkrunar- og hagkvæmnissjónarmiðum. Þar er meðaltalslega, virðulegi forseti, 12,8 dagar. Hér er búið að koma sjúkrahúsvist vegna bæklunarlækningar niður í átta daga. Reyndar má gera ráð fyrir því að endurhæfingar- og þjálfunarþáttur í þeirri legu geti verið allt að fimm dagar af þessum átta. Þrátt fyrir það eru þessir átta dagar yfirleitt inni á sjúkrahúsi. Ef endurhæfingu væri vel sinnt, annars staðar t.d., þá er vel hugsanlegt að flytja megi sjúkling í hæfingu eftir fyrstu legudagana. Biðlistar eru ekki bara spurning um það hvort hægt sé að komast að á skurðstofum. Þetta er jafnframt spurning um sjúkrarúmin og um nýtingu spítalanna. Því spyr ég ráðherrann og það verður spurning nr. 2: Hvað líður framkvæmd þeirrar stefnumörkunar um endurhæfingardeild ríkisins að Kópvogshæli sem einmitt var hugsað um sem hæfingu fyrir slíka sjúklinga, sem og reyndar hæfingardeild eða legudeildir fyrir krabbameinssjúklinga þannig að þeim væri sinnt með reisn?

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt þegar liðið er á umræðu að átta sig á hvað á að leggja áherslu á í þessari umræðu. Mig langar þó að nefna það varðandi biðlistana að frv. um réttindi sjúklinga hefur komið fyrir þingið á ný og okkur finnst að engin bót hafi verið gerð í því frv. á biðlistunum. Það hefur verið tekin umræða áður um þann þátt og ég vísa til ábendinga siðfræðiráðs Læknafélags Íslands sem koma fram í umsögnum til heilbr.- og trn. um fyrra frv. en þar er einmitt vísað til þess að ekki er bætt úr réttindum sjúklinga m.a. með áherslu á biðlistana og siðfræðina í því að láta fólk bíða svo lengi eftir aðgerðum.

[16:15]

Ég vil líka nefna það varðandi átakið að sagt var að gert hafi verið átak í haust með skipulagsbreytingu. Þetta er ekki rétt. Þetta kemur fram í skýrslunni á bls. tíu. Aðgerðum var fjölgað úr fjórum í sex á viku. Þetta voru fyrirmæli frá formanni stjórnarnefndar Ríkisspítala, fjármagni var lofað og þetta kom m.a. fram í fjölmiðlum á sínum tíma. Það hefur ekkert fjármagn komið. Hver aðgerð kostar 600 þús. kr. Það kemur líka fram í skýrslunni. Gerðar hafa verið 40 fleiri aðgerðir frá 15. október og þar til nú og samt kemur ekkert viðbótarfé. Þessu verður ekki mætt með skipulagsbreytingum. Menn ýta á undan sér vanda og þarna var lofað fjármagni sem hefur ekki komið fram. Og það verður að spyrja þeirrar spurningar: Hverju skila átaksverkefni af þessu tagi ef gert er átak sem ryður fjármagni til innan spítalans og kallar á vanda á öðrum stöðum ef ekki er brugðist við? Svo er keyrt niður á öðrum tímum ársins þannig að átakið sem gert var er ekki til neins annars en að dregið er úr á öðrum tíma þannig að þegar upp er staðið, þá hefur ekkert áunnist. Það er farsælla, virðulegi forseti, að gera langtímaáætlanir í þessum efnum.

Annað mál sem mér finnst brýnt að koma inn á og hefur reyndar verið nefnt, er vandinn á barna- og unglingageðdeild og það er síðasta athugasemdin sem ég ætla að gera í ræðu minni í þessari umræðu. Það er mjög mikill vandi á barna- og unglingageðdeild og þrátt fyrir góð orð um fjármagn, gengur illa að leysa vanda barna- og unglingageðdeildar. Hér er bent á það hver biðlistinn er og ég ætla að vísa í svar sem ég fékk frá heilbrrn. við spurningu um umfang geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga og vandann. Það kemur fram að á árinu 1995 voru 68 börn og unglingar lögð inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans en 348 fengu meðferð á göngudeild. Það er bent á að vaxandi áhersla er lögð á meðferð án innlagnar, við vitum af hverju það er, og á styttingu legutímans, að meðallegutími er nú 45 dagar, að á árinu 1995 voru tæplega 60% af innlögnum bráðainnlagnir og að helmingur sjúklinga kom frá Reykjavík.

Ég vil líka upplýsa það að samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni barna- og unglingageðdeildar Landspítalans er sá hópur stór sem ekki fær aðstoð en þyrfti á henni að halda. Þetta kemur fram í svari ráðherrans. Sá hópur sem ekki fær aðstoð er stór og það er reyndar bent á það að í desember veitti ráðherra 3 millj. af ráðstöfunarfé ráðherra til að reyna að bregðast við en þetta hjálpar á engan veg.

Ráðherrann veitti 12 millj. kr. fyrir ári síðan og í umræðu um fíkniefnamál var bent á að þetta væri átak til að búa til meðferðardeild og stað þangað sem foreldrar gætu snúið sér. Það hefur seinna komið í ljós í umræðum um fíkniefnavandann og af hálfu ráðherrans sjálfs að í raun og veru var þetta fjármagn notað til að styrkja deildina í heild sinni vegna þess að vandinn er svo mikill. Þetta er eitthvað það brýnasta sem við verðum að taka á. Við höfum háleit markmið og góð og ég styð ráðherrann og hef gert það fyrr í ræðum mínum í öllum hennar tilraunum til þess að bæta úr fíkniefnavandanum. Það er búið að gera samkomulag um fíkniefnalaust Ísland, fíkniefnalausa skóla. Það þýðir ekki að gera þessar áætlanir, virðulegi forseti, og taka svona á málum. Öðruvísi er hægt að bregðast við á þeim stöðum sem brýnast er, svo sem á barna- og unglingageðdeild Landspítalans.