Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:45:58 (4867)

1997-03-21 16:45:58# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:45]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður heilbr.- og trn. lítur með söknuði til síðasta kjörtímabils þegar hann var í þeirri stöðu að hafa kontórista til að skrifa fyrir sig en það hefði sjálfsagt ekki veitt af núna að hafa það vegna þess að það stenst ekki allt í hans ræðu. Ég vildi aðeins rifja upp það sem mér finnst grundvallaratriði af því að hann er að tala um hvað gert hafi verið.

Það sem gert hefur verið er að hæstv. heilbrrh. hefur unnið að því að bæta skipulag, verkaskiptingu og yfirstjórn innan heilbrigðisþjónustunnar þannig að fjármagnið nýtist sem best í þágu sjúklinga til þess að hægt sé að taka upp hátækni, til þess að hægt sé að greiða ný lyf sem koma inn, til þess að hægt sé að ráðast á biðlista. En það bregður svo við að hæstv. heilbrrh. hefur eiginlega aldrei hreyft sig í neinum aðgerðum án þess að liggja undir stórárásum hér á hv. Alþingi eins og það sé sérstök illmennska af hennar hálfu að biðlistar eru í heilbrigðiskerfinu. Svona málflutningur skilar náttúrlega hvorki þinginu né heilbrigðisþjónustunni neitt áfram. Ég hef oft furðað mig á þeim óyfirvegaða æsingi sem fylgir umræðunni hér á þingi þegar heilbrigðismál ber á góma.