Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:48:54 (4869)

1997-03-21 16:48:54# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:48]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að segja hv. formanni heilbr.- og trn. hvernig hann á að haga málflutningi sínum hér á Alþingi. Hæstv. heilbrrh. er alveg fullkomlega fær um að svara fyrir sig. Ég vil bara leiðrétta að það er ekki fyrir málflutning stjórnarandstöðunnar að niðurskurði eða hagræðingu á sjúkrahúsum á landsbyggðinni var dreift á þrjú ár. Það var einfaldlega gert í vinnu stjórnarliða að þessum málum, í vinnu á vegum heilbrrh. Stjórnarandstaðan kom þar ákaflega lítið nærri. Það hefur ekki verið horfið frá þessum áformum. Þetta er einn þátturinn í því að skoða skipulag heilbrigðisþjónustunnar úti um landsbyggðina í því skyni að fjármagn sem lagt er til hennar nýtist sem best og hægt sé að veita sjúklingum sem besta þjónustu í þröngri stöðu. Það er ekki við því að búast að forgangsröðinni í heild verði breytt stórlega á næstu árum, að stökkbreytingar verði í því að heilbrigðiskerfið fái til sín enn stærri hlut af þjóðarkökunni. Ég hef ekki trú á því. Við þurfum að reyna að nýta þá fjármuni sem við leggjum í þetta kerfi sem allra best og ég er mjög fylgjandi því að við reynum allt sem hægt er til þess að stytta biðlista í þjóðfélaginu, t.d. í bæklunaraðgerðum þar sem skórinn kreppir mjög að. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því og ég tel að þar þurfum við að gera átak og skoða þau mál alveg sérstaklega.