Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:06:22 (4871)

1997-03-21 17:06:22# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem var að mestum hluta til málefnaleg, en mig langar til að gera það að umtalsefni í upphafi að mér fannst hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir snúa æðimikið út úr fyrir mér þegar hv. þm. sagði að ég hefði gert lítið úr vandamálum sem fylgja biðlistunum. Ég geri alls ekki lítið úr vandamálinu, það er til staðar og ef hv. þm. hefur hlustað á upphaf ræðu minnar, þá kom ég einmitt sérstaklega inn á að það er bæði vandamál sjúklingsins og fjölskyldunnar og allra aðstandenda þegar sjúklingur bíður eftir alvarlegri aðgerð þannig að það má mikið á sig leggja til að létta á þessum biðlistum. Ég vil að hv. þm. taki það aftur að ég hafi gert lítið úr því. En þar fyrir utan verður að minnast á það sem gert er. Við erum að leggja 5 milljörðum meira til heilbrigðis- og tryggingamála 1997 og 1996 miðað við árin þar á undan eða árið 1995. Við erum því að leggja miklu meira fjármagn til heilbrigðis- og tryggingamála og þó svo við getum ekki gert allt sem við viljum, þá erum við samt að gera miklu fleiri aðgerðir í dag heldur en við höfum gert áður. T.d. opnuðum við gjörgæsludeild á Ríkisspítölum á sl. sumri sem gjörbreytir allri aðstöðu fyrir stærri aðgerðir.

Þessi gjörgæsludeild sem opnuð var í sumar er svo vel búin að slíkar gjörgæsludeildir sjást ekki víða á Norðurlöndum. Það verður að minna á að við höfum aldrei gert fleiri aðgerðir en við erum einmitt að gera núna og við erum að fjölga aðgerðum bæði úti á landi og á Reykjavíkursvæðinu. Við erum að auka þjónustu við aldraða með því að opna Landakot sem öldrunarsjúkrahús, með því að opna Skógarbæ, hjúkrunarheimilið fyrir 70 sjúklinga, með því að opna í Ási í Hveragerði fyrir geðfatlaða aldraða. Við erum að efla barna- og unglingageðdeildina. Við höfum lagt verulega meira fjármagn til barna- og unglingageðdeildarinnar heldur en hefur verið gert undanfarin ár.

Hv. þm. spyr hvort rétt sé að fara sömu leið og Norðurlandaþjóðir hafa gert varðandi hámarksbið eftir aðgerð. Við þurfum að skoða það mjög vandlega. Málið er að þessi hámarksbiðtími hefur ekki leyst neitt vandamál á hinum Norðurlöndunum þannig að ef við gerum það eitt erum við ekki að leysa neitt vandamál.

Hv. þm. spurði að í síðari ræðu sinni hvort það geti verið að einhverjir sjúklingar séu að borga 100 þús. kr. í lyfjakostnað vegna þess að þeir séu að bíða eftir aðgerð. Þessar upplýsingar komu frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og ég mun kanna hvort þetta geti verið vegna þess að ef sjúklingur hefur háan lyfjakostnað þá fær hann afslátt, eins og hv. þm. kannast við, eða fær svokallað lyfjakort. Ef það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. að sjúklingar séu að borga 100 þús. kr. á mánuði þá verður það skoðað sérstaklega, en það eru þá nýjar upplýsingar.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á að skýrslan sem hér er lögð fram sé öðruvísi en hún á að venjast. Það er vegna þess að nefnd hefur starfað frá því í maí að því að fara nákvæmlega ofan í þessa biðlista. Hvað er á bak við biðlistana? Hvernig nákvæmlega sjúklingarnir hafa það, hvað læknarnir hafa um það að segja, o.s.frv. Það hefur aldrei verið farið svona nákvæmlega ofan í biðlista og núna og það mun auðvitað gagnast okkur til framtíðar.

Ég hafði tækifæri til að svara öðrum í andsvörum þannig að mér finnst ekki ástæða til að lengja þessa umræðu meira en orðið er, en ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem tóku þátt í henni. Þetta er vandamál sem er unnið að að leysa. Það verður aldrei leyst í eitt skipti fyrir öll en það er unnið að öllum þáttum biðlistamálsins og það mun að sjálfsögðu færa okkur árangur.