Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:11:33 (4872)

1997-03-21 17:11:33# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. mótmælti því að hún hefði nokkurn tíma talað um að þetta væri ekki vandamál. Nú var ég alls ekki að leggja hæstv. ráðherra þessi orð í munn. Það sem ég var að gera var að lesa það sem ráðherrann sagði í útvarpi eftir að þessi skýrsla kom fram. Ég fékk útskrift af því af því að ég varð svo undrandi. Ég ætla að lesa það orðrétt, herra forseti, þannig að það fari ekki á milli mála. Ég talaði um að ástandið væri óviðunandi og það er haft eftir mér. Síðan kemur:

,,Ingibjörg Pálmadóttir vísaði þessu alveg á bug og segir að á flestum sviðum séu biðlistar ekki vandamál.`` Síðan kemur: ,,Ingibjörg segir því biðlistaskýrsluna ekki sýna slæmt ástand heldur þvert á móti að yfirvöld séu á réttri leið.``

Þetta er haft nákvæmlega eftir ráðherranum og ráðherrann getur varla mótmælt sínum eigin orðum.

Varðandi það að setja reglur um hámarksbið eftir aðgerð, þá vitnar ráðherrann til þess að erlendis þar sem þetta hafi verið gert hafi það ekki leyst nein vandamál og ekki reynst vel. Hvaðan hefur hæstv. ráðherra þetta? Þetta kemur alls ekki fram í þeirri skýrslu sem við höfum verið að ræða hér og ég bið ráðherrann um að rökstyðja sitt mál frekar áður en hún setur slíkar fullyrðingar fram. Ég hef heyrt það haft eftir t.d. landlækni að hann telur að reynslan sýni að þetta hafi virkað vel á Norðurlöndum, vandamálin þar séu hverfandi og að setja reglur um hámarksbið hafi verið verulega til bóta. Ég óska því eftir því við þessa umræðu að heilbr.- og trn. --- hér er nú einn fulltrúi úr heilbr.- og trn. --- taki þessi ummæli hæstv. ráðherra til sérstakrar skoðunar og leggi mat á hvort rétt sé að þær reglur sem settar voru á hinum Norðurlöndunum hafi ekki verið til bóta. Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi okkur skýringu á þessari fullyrðing sinni.