Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:15:17 (4874)

1997-03-21 17:15:17# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég stend vissulega við þau orð sem ég sagði í útvarpi um þetta mál þó að hæstv. ráðherra geri það ekki. Ég stend við það sem hef sagt að ég tel að ástandið sé þannig að það sé undir öryggismörkum. Við sjáum að biðlistar hér eru tvisvar til þrisvar sinnum lengri heldur en eðlilegt er talið á hinum Norðurlöndunum. Og ég vísa líka til þess að yfirlæknar t.d. á bæklunarlækningadeildum telja að stefna eigi að því að hafa hér 3--4 mánaða hámarksbið.

Ég vitna líka til þess, herra forseti, að ef það er svo að þetta hafi ekki reynst vel á hinum Norðurlöndunum, hvers vegna í ósköpunum kemur það ekki fram í skýrslu hæstv. ráðherra? Þar er þó verið að fjalla um biðlista á Norðurlöndum. Af hverju er það þá ekki tekið fram í þeirri skýrslu sem við höfum til umræðu hér af því að hæstv. ráðherra veit að hér hefur verið rætt um að setja slíkar reglur? Ég tel, og stend við það, að meðan biðlistarnir eru þannig að fólk þarf meira að segja að vera á miklum lyfjum og ávanabindandi lyfjum, það líður miklar þjáningar eins og hér hefur komið fram, það eru bráðasjúklingar á þessum biðlistum, þá sé öryggi fólks teflt í tvísýnu. Ég stend við það sem ég sagði í útvarpinu í því efni þó að ráðherrann kjósi að standa ekki við þau orð sem hún viðhafði um þessi efni í útvarpinu.

En þessar skýringar nægja mér ekki, herra forseti, sem rökstuðningur fyrir því máli ráðherrans að þær aðgerðir sem gripið var til á hinum Norðurlöndunum hafi ekki reynst vel.