Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:24:34 (4879)

1997-03-21 17:24:34# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., SighB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:24]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þessa skýrslu umfram það sem þegar hefur verið sagt, annað en vekja athygli á því hvað í henni stendur. En í henni stendur, með leyfi forseta, um bæklunarlækningar:

,,Samkvæmt biðlistayfirliti landlæknis voru 1.160 manns á biðlistanum árið 1991 en fækkaði niður undir 900 á árunum 1992 og 1993 en fjölgaði síðan í um 1.300 á árunum 1995 og 1996.``

Þetta þýddi það að á síðasta kjörtímabili tókst að fækka um 25% á biðlistum vegna bæklunarlækninga en þeim hefur nú fjölgað aftur um 30%. Þetta segir hæstv. ráðherra sjálf í sínu yfirliti.

Síðan hafa líka komið ábendingar frá hæstv. ráðherra, t.d. um fjölgun hryggspengingaraðgerða og það er rétt, en það er hins vegar ekki rétt að þær aðgerðir hafi verið teknar upp í hennar tíð í heilbrrn. vegna þess að sá læknir sem ráðinn var til starfa til að gera þær aðgerðir var ráðinn til starfa í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og hóf starfsemi sína þá.

Þá er það ekki heldur rétt að um fjölgun á hjartaaðgerðum hafi verið að ræða, þ.e. opnum brjóstholsaðgerðum. Þvert á móti hefur þeim fækkað. Það er hins vegar alveg rétt að kransæðavíkkunum hefur fjölgað en það eru einnig aðgerðir sem hófust í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þannig að ástæðan fyrir því að nokkuð hefur bætt úr aðgerðum og fjölgað aðgerðum á tilteknum sviðum er ekki vegna þess að þarna sé um nýja starfsemi að ræða sem hafi hafist á þessu kjörtímabili, heldur starfsemi sem hófst á síðasta kjörtímabili, nýja starfsemi sem hófst þá og hefur verið í vexti síðan.

Ég hef hingað til ekki tekið mikinn þátt í þeim umræðum sem hér hafa oft verið um heilbrigðismál og er það af ásettu ráði. Það er vegna þess að ég þarf ekki að hafa mörg orð þar um. Erfiðasti andstæðingur hæstv. ráðherra er skugginn af henni sjálfri. Erfiðasta viðfangsefnið sem hún á við að etja er að mæta sínum eigin orðum frá fyrra kjörtímabili og þarf ekki að hafa mörg orð þar um. Hvenær sem hæstv. ráðherra óskar væri hægt að vitna í hana sjálfa, frá því hún var hér óbreyttur þingmaður, um það sem hún er nú að gera og öllu meiri andstæður verða varla fundnar.

Það sem mér finnst vera hins vegar ástæða til að nefna hér er sá máti sem þessi skýrsla er sett fram á, þar sem enn virðist það henda hæstv. ráðherra að fara í hlutverk Ragnars Reykáss. Sett er fram fullyrðing í einni setningu og hún síðan tekin til baka í þeirri næstu. Það er þetta sama Ragnars Reykáss-hlutverk og hæstv. ráðherra leikur ef borin eru saman ummæli hennar frá því hún var almennur þingmaður og svo ummæli hennar og aðgerðir nú. Og það er mjög einkennilegt og athyglisvert jafnframt að þessi Ragnars Reykáss-háttur heldur áfram í þessari skýrslu og jafnvel í setningum sem eru í beinu framhaldi hver af annarri. En, virðulegi forseti, ég vil aðeins vitna til þess hvernig þetta birtist í skýrslunni. Hér er mjög athyglisverð setning á bls. 3 sem út af fyrir sig væri hægt að hafa langt mál um, en hún er svona, með leyfi forseta:

,,Meginástæða þess að biðlistar myndast í heilbrigðisþjónustunni er í stórum dráttum sú að eftirspurn eftir þjónustu er meiri en framboð á henni.`` Síðan mundi Ragnar Reykás bæta við: Elsku karlinn minn. Þar kemur fullyrðing fram sett. Síðan á næstu blaðsíðu, bls. 4, eins og Ragnar Reykás mundi segja: ,,En oftast eru það læknar sem hafa mest áhrif á það hverjir fara á biðlista og hversu lengi þeir eru þar``, þ.e. þarna eru settar fram tvær algjörlega gagnstæðar fullyrðingar. Annars vegar fullyrðingin um það að meginástæða þess að biðlistar myndist í heilbrigðisþjónustu sé sú að eftirspurn eftir þjónustu sé meiri en framboð á henni, sem er nú ekki mjög gáfuleg athugasemd en engu að síður sennilega rétt. Síðan er það dregið í land á næstu síðu vegna þess að þar er fullyrt að það sé nú ekki svo, heldur séu það læknarnir sem hafi mest áhrif á það hverjir fari á biðlista og hversu lengi þeir eru þar. Þá er ekki lengur um lögmál framboðs og eftirspurnar að ræða heldur er þetta allt saman sett á læknana og sagt: Það er ekki lögmál framboðs og eftirspurnar sem ræður því heldur eru það læknarnir sem ráða ferðinni. Þetta er dæmigerður málflutningur í ætt við þá ágætu fjölskyldu og hennar fjallabíl sem kenndur er við Ragnar Reykás.

Síðan segir í næstu málsgrein, með leyfi forseta: ,,Það virðist vera alþjóðleg niðurstaða, að þar sem sjúklingur ber ekki kostnað af aðgerðinni sjálfur, þ.e. þar sem ríkið greiðir, þar eru biðlistar almennt lengri. Þar sem læknum er greitt fyrir hverja aðgerð sérstaklega, þar eru biðlistar að jafnaði styttri`` elsku karlinn minn. Og svo heldur hæstv. ráðherra áfram og segir: ,,Slíku afkastahvetjandi kerfi fylgja þó ýmsir ókostir; það er allajafna dýrara og um það standa sífelldar deilur hvort gerðar séu ónauðsynlegar aðgerðir. Það er því í beinu framhaldi af þessum atriðum sem á það er bent að lengd biðlista sé í öfugu hlutfalli við það hversu mikið fé er veitt til aðgerða.`` Með öðrum orðum, í fyrri tveimur setningunum er sett fram fullyrðing um alþjóðlega niðurstöðu, þ.e. að þar sem sjúklingurinn ber ekki kostnað af aðgerðinni sjálfri séu biðlistar lengri og öfugt þegar um það er að ræða að læknum sé greitt fyrir hverja aðgerð sérstaklega. Þessi fullyrðing er þar fram sett og svo er hún dregin til baka í næstu tveimur setningum. Svona gerir Ragnar Reykás. Þetta er hans aðferð. Þetta er aðferðin sem er kennd við Ragnar Reykás og hans fjallabíl. Og það er mjög einkennilegt og bæði skemmtilegt og broslegt í senn að þetta er þessi Ragnar Reykás-aðferð sem hæstv. heilbrrh. notar. Síðan bætir hæstv. heilbrrh. við í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

,,Í stórum dráttum má líta á biðlista sem tæki til að gera áætlanir og skipuleggja vinnu og vinnuálag. Hér á landi hafa þeir stundum fengið þá stöðu í umræðunni að verða tæki til þess að fá aukið fé veitt inn á ákveðnar deildir eða til ákveðinna aðgerða. Það er því áróðurslega jákvætt að geta sýnt fram á langa biðlista og að þeir lengist, þegar talið er að meira fé þurfi til starfseminnar``, elsku karlinn minn.

Þetta er auðvitað alveg ljóst. Svo heldur Ragnar Reykás áfram og segir: ,,Það er hins vegar mikil einföldun eins og reynt er að draga fram hér að framan. Langir biðlistar gera líka auknar kröfur til mönnunar í stjórnun og það er reynslan að þar sem umhirðu biðlistanna er sinnt stöðugt er ástandið betra og skipulagning auðveldari.``

Öllu betur verður þetta nú ekki gert en að setja tvær gagnstæðar skoðanir og fullyrðingar fram í sömu málsgreininni. Það er ekki einu sinni að það séu greinaskil á milli. Þetta er sett fram í einni og sömu málsgreininni, tvær gagnstæðar fullyrðingar, og hæstv. heilbrrh. gerir þær báðar að sínum eins og Ragnar Reykás gerir að jafnaði. Það er því ekkert einkennilegt við það þó að hæstv. heilbrrh. sé í mótsögn við sjálfa sig frá síðasta kjörtímabili. Hún er líka, hæstv. ráðherra, í mótsögn við sjálfa sig, setningu fyrir setningu í þeirri skýrslu sem hún leggur fram nú þannig að það er mjög erfitt að ræða við hæstv. heilbrrh. um þær fullyrðingar sem hún setur fram í þessari skýrslu vegna þess að hæstv. ráðherra getur alltaf bent á það að sú fullyrðing sem á að ræða sé dregin til baka í næstu setningu á eftir. En engu að síður hef ég gaman af að heyra hæstv. ráðherra rökstyðja það hvernig það getur verið í senn að það sé lögmál framboðs og eftirspurnar sem ráði lengd biðlista og að það séu læknarnir sem hafi mest áhrif á það hverjir séu á biðlista og hversu lengi þeir séu þar.

Ég hefði líka haft gaman af að heyra hæstv. ráðherra færa rök fyrir því að biðlistar séu notaðir sem tæki til þess að fá aukið fé í ákveðnar deildir og að því sé áróðurslega jákvætt að geta sýnt fram á langa biðlista og þeir lengist þegar talið er að meira fé þurfi til starfseminnar. Virðulegi forseti, er þá hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að þeir löngu biðlistar sem kynntir hafa verið á einstökum sviðum séu áróðursaðferð til þess að tryggja það að viðkomandi starfsemi fái meira fé eða er hæstv. ráðherra algjörlega öndverðrar skoðunar, sem hæstv. ráðherra setur fram í næstu setningu á eftir?