Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:34:32 (4880)

1997-03-21 17:34:32# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fyrrv. heilbrrh. fyrir hans ræðu. Hann talaði mikið um Ragnar Reykás og hans ágætu fjölskyldu. Ég var að hugsa hvort okkar væri líkara Ragnari Reykás, elsku karlinn minn, ég eða hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. því hann sneri mjög vel út úr þegar hann var að lesa upp úr þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir en það er eins og gerist. Menn hafa gaman af að grínast.

Það sem nákvæmlega stendur í þessari skýrslu og hann er að vitna til á bls. 3 um stöðu biðlistamála á Norðurlöndum er að þar er verið að skýra betra og meira framboð kallar á meiri eftirspurn, eðlilega. Eftir því sem við höfum betri og sérhæfðari sérfræðinga sem gera hlutina betur, þess meiri væntingar eru að sjálfsögðu hjá sjúklingum og við erum svo lánsamir Íslendingar að við erum með mjög góða sérfræðinga. Einn þeirra minntist hv. þm. á áðan og það er alveg hárrétt hjá honum og rétt munað að hann réð hann til starfa og hann framkvæmir margar bæklunaraðgerðir. En þeim hefur fjölgað gífurlega á þessum tíma.

Ég vil líka minna á, af því að hv. þm. gerði mjög lítið úr því sem hefur verið gert á þessu kjörtímabili og sagði m.a. að hjartaaðgerðum hefði fækkað, þá var gert alveg sérstakt átak sumarið 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Það voru biðlistar í alvarlegar hjartaaðgerðir og ríkisstjórnin lagði 40 millj. kr. til þess að stytta biðlistana. Síðan er, eins og fram hefur komið, verið að taka í notkun nýja rannsóknarstofu sem eykur möguleikana varðandi kransæðavíkkanir.