Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:41:25 (4884)

1997-03-21 17:41:25# 121. lþ. 96.9 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við höfum rætt biðlista í heilbrigðisþjónustunni í þrjá klukkutíma. Við höfum rætt allar hliðar orsaka og afleiðingar og ætlan ráðherra til að bregðast við. Tillagan er um að kanna ítarlega biðlista sjúklinga í heilbrigðisþjónustu, samsetningu þeirra, búsetu sjúklinga, aldur og biðtíma, hve bráð meðferð er og hve mikil vinnugeta er skert. Markmiðið er að afla upplýsinga, móta tillögur um að stytta biðlistana, meta það að hve miklu leyti er mögulegt og hagkvæmt að nýta heilbrigðisaðstöðu sem fyrir er utan höfuðborgarsvæðis til að stytta biðlistana og reyna að meta þann kostnað sem þjóðin ber vegna biðlistanna.

Með tilliti til umræðunnar, viðbragða ráðherra og svara hennar ætla ég bara að segja þetta, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða þessa tillögu efnislega, það er óþarfi, því hafi nokkurn tíma nokkurt þingmál lagst sjálfkrafa af, þá er það þetta. Máli mínu er lokið.