Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:42:28 (4885)

1997-03-21 17:42:28# 121. lþ. 96.9 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:42]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er að sumu leyti rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að efni þessarar tillögu er búið að ræða mjög mikið í dag með því að skýrsla sem heilbrrh. hefur lagt fram hefur verið til umræðu í allan dag.

Tilgangur okkar félaganna með því að leggja fram þáltill. var eingöngu að hvetja til þess að biðlistamálin yrðu skoðuð og reynt að meta það, eins og stendur í tillögunni, hvernig hægt væri að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna betur. Við erum eingöngu að tala um að við höfum heilbrigðiskerfi í landinu sem er mjög gott en hjá okkur hafa vaknað spurningar um hvort það er nægilega vel nýtt alls staðar. Ég undraðist mjög þegar ég fór að lesa í þingtíðindum þær umræður sem urðu um þessa tillögu þegar hún kom á dagskrá vegna þess að tilgangur okkar var eingöngu sá að reyna að meta hvort ekki væri hægt að nýta þetta kerfi sem við höfum mun betur. Ég sé á skýrslu ráðherra að það er einmitt það sem hún hefur í hyggju, m.a. með því að nýta þá afkastagetu sem er til úti á landsbyggðinni. Á bls. 11 segir m.a., með leyfi forseta:

,,Endurskoða skal dreifingu aðgerða í ljósi þess að bæst hefur við ný læknisstaða á Akureyri og veitt hefur verið sérstakt fé til sjúkrahússins á Akranesi í bæklunaraðgerðir.``

Sjúkrahúsið á Akranesi er ekki talið upp með sjúkrahúsum með biðlista þannig að þess má vænta að það sé rúm til þess að létta á þeim sjúklingum sem bíða eftir bæklunaraðgerðum. Tilgangur okkur var ekki annarlegri en svo en að létta á því fólki sem bíður eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.