Breyting á umferðarlögum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 18:02:17 (4887)

1997-03-21 18:02:17# 121. lþ. 96.14 fundur 336. mál: #A breyting á umferðarlögum# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:02]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um breytingu á umferðarlögum. Meðflutningsmenn mínir að tillögunni eru hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, Hjálmar Árnason og Árni Johnsen. Þáltill. er þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum þess efnis að heimila skuli hægri beygju á móti rauðu ljósi á gatnamótum.

Í áraraðir hefur það fyrirkomulag gilt í Bandaríkjunum og Kanada að ökumönnum er heimilt að beygja til hægri á gatnamótum þótt ekið sé á móti rauðu ljósi, nema sérstaklega sé tekið fram að slíkt sé óheimilt. Stöðvunarskylda hvílir engu að síður á ökumanni sem hyggst beygja til hægri á rauðu ljósi eins og á gatnamótum þar sem stöðvunarskylda er en ekki umferðarljós. Sú regla hefur gefist vel þar vestra og margir Íslendingar sem flytjast heim eftir búsetu vestan hafs sakna þessa hagræðis.

Mikil aukning á fjölda bifreiða kallar á stórfelldar og dýrar framkvæmdir við samgöngumannvirki til að umferð gangi öruggt og hindrunarlítið fyrir sig. Leyfi löggjöfin hægri beygju á móti rauðu ljósi mun slíkt verða til að auðvelda mjög umferð um gatnamót og spara sveitarfélögum stórfé sem þau ella þurfa að leggja í ný samgöngumannvirki og vegi til að ná sama árangri. Á stöðum, þar sem ekki er talið æskilegt að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi, væri slíks getið á viðkomandi gatnamótum og ber þá ökumanni að bíða uns komið er grænt ljós. Í Bandaríkjunum og Kanada er bann gegn því að beygt sé til hægri á móti rauðu ljósi gefið til kynna með skilti þar sem á er áletrun um að slíkur akstur sé bannaður. Ella gilda sömu reglur þegar beygt er til hægri og gilda þar sem stöðvunarskylda er á gatnamótum. Engin ástæða er til að ætla að regla sem þessi skili ekki árangri í umferðinni hér á landi eins og hún gerir í Bandaríkjunum og Kanada.

Herra forseti. Ég er þingmaður fyrir kjördæmi þar sem ég held ég megi segja að ekkert umferðarljós sé. Að vísu er umferðarljós við gangbrautir a.m.k. í Bolungarvík. Ég hef ekki orðið var við að í kjördæminu sé það til vansa að vera ekki með umferðarljós. Þó að nokkur önnur viðhorf gildi í þéttbýli þá hygg ég að það sé ekki vandi fyrir íslenska ökumenn að temja sér þær reglur sem hér er lagt til að heimilaðar séu til að liðka fyrir umferð og spara í umferðarmannvirkjum, þ.e. að menn megi beygja til hægri þó ekið sé á móti rauðu ljósi ef umferðin leyfir slíkt að öðru leyti. Annars mundu menn þá stöðva bifreið sína eins og um stöðvunarskyldu væri að ræða og aka ekki áfram nema aðstæður leyfðu. Ég geri mér grein fyrir því að fyrir marga er þetta nokkur nýjung og margir líta vafalaust svo á að þetta muni auka slysahættu í umferðinni. Ég hef ekki trú á því að svo verði og ef 250 milljón manna þjóð auk Kanadamanna getur lært þetta, þá hef ég ekki nokkra trú á öðru en að Íslendingar ættu að geta lært þetta einnig.

Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að útvarpsstöð hafði í síðasta mánuði skoðanakönnun meðal hlustenda sinna um þetta mál og þar voru allir að einum undanskildum sem spurðir voru sammála því að þetta fyrirkomulag væri til bóta. Ég vona því, herra forseti, að Alþingi sjái þetta mál með sömu augum og við flutningsmenn og mál þetta fái jákvæða umfjöllun í þingnefnd.