Hámarkstími til að svara erindum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 18:16:56 (4890)

1997-03-21 18:16:56# 121. lþ. 96.15 fundur 356. mál: #A hámarkstími til að svara erindum# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:16]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að setja starfsreglur um hámarkslengd þess tíma sem Stjórnarráð Íslands og aðrar ríkisstofnanir megi taka sér til að svara erindum er þeim berast auk þess að hvetja til átaks í að auka þjónustuvitund starfsmanna ríkisstofnana við almenning og fyrirtæki er þangað leita.

Það er nokkuð alkunna að meðal almennings og fyrirtækja er býsna mikið kvartað undan því að þjónustuvitund í opinberum stofnunum sé ekki eins og hún gæti best verið og það er líka vitað að það gengur oft erfiðlega að fá svör opinberra aðila við einföldum erindum. Þáltill. sú sem hér er flutt miðar að því að hafist sé handa að bæta þjónustu hins opinbera við einstaklinga og fyrirtæki sem þangað leita með úrlausn mála. Ég tel ekki vafa á því að langt sé í land að nauðsynleg hugarfarsbreyting eigi sér stað hjá hinu opinbera í þessa veru. E.t.v. má rekja það allt til þess tíma sem við lutum dönskum yfirráðum. Þá var það nú svo að í Danmörku var og er talað um embættismenn, í stað þess að í mörgum málum, bæði á enskri tungu og eins þýskri, er þessi tegund starfsmanna hins opinbera frekar kennd við þjónustu, þ.e. civil servants á ensku og ég hygg að á þýskunni sé þetta í svipaða veru. Hvort sem það eru Dienst-menn eða hvað það nú heitir á þýsku þá er ljóst að í báðum þessum löndum, Bretlandi og Þýskalandi, hafa opinberir starfsmenn frá alda öðli verið kenndir við það að þeim bæri að þjónusta almenning, þjónusta þá skattgreiðendur sem borga launin þeirra.

Sem lið í að bæta þjónustu við almenning, þá felur þessi þáltill. í sér að settar séu reglur um þann hámarkstíma sem Stjórnarráð Íslands og aðrar opinberar stofnanir mega taka sér til að svara þeim erindum sem þangað berast. Því miður tel ég að mikill misbrestur sé á að þessir hlutir séu í lagi hjá Stjórnarráði Íslands og ég tel að á því verði að ráða bót hið fyrsta. Mér er kunnugt um fjölmörg dæmi þess að dregist hafi úr hömlu í Stjórnarráðinu að svara erindum er þangað berast og ég vil úr þessum ræðustól nefna fjögur slík tilvik þó að mér sé kunnugt um mun fleiri mál.

Ég vil fyrst nefna að á árinu 1994 skrifaði lítið sveitarfélag ráðuneyti og óskaði heimildar til að fá keypt það land sem sveitarfélagið stendur á en núna er í eigu ríkisins. Í janúar 1997 hafði ekki enn, þá voru komin þrjú ár, borist svar við þessu erindi þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi bæði skriflegar og munnlegar og þetta snertir því ekki bara þá ríkisstjórn sem nú situr, heldur nær þetta yfir til ríkisstjórnar þeirrar sem sat á síðasta kjörtímabili.

Borið er við önnum við viðkomandi ráðuneyti þegar eftir er spurt hvað dvelji orminn langa. Ég vil þó láta þess getið að frá því að þessi þáltill. er lögð fram hefur málið nú verið afgreitt með jákvæðum hætti þannig að gengið hefur verið til samninga við viðkomandi sveitarfélag um að það fái að kaupa það land sem bærinn stendur á.

Annað dæmi sem ég vildi nefna er að á árinu 1991 skrifaði lítið fyrirtæki sem þá var með starfsemi erlendis til ráðuneytis og óskaði eftir því að kannað yrði hvort Ísland gæti gert svipaðan milliríkjasamning við tiltekið land og flest lönd í Vestur-Evrópu höfðu þegar gert og slíkur samningur hefði sparað þessu litla fyrirtæki milljónir króna. Svar við þessari ósk hefur ekki borist enn. Fyrirtækið er mér kunnugt um hætti að ganga eftir málinu á árinu 1993 þegar þau svör fengust að málið væri týnt og spurt hvort hægt væri að senda gögnin að nýju.

Þriðja málið sem ég vildi nefna þessu tengt er um fyrirtæki sem óskaði eftir úrskurði um hvort sömu reglur skyldu gilda um tollafgreiðslu tiltekinnar vöru sem fyrirtækið og tilteknar ríkisstofnanir notuðu til að veita sömu þjónustu. Það tók viðkomandi ráðuneyti meira en fjóra mánuði að svara erindinu neitandi. Tekið skal þó fram að í svari ráðuneytisins var beðist afsökunar á þeim drætti sem orðið hefði á svari.

Fjórða og síðasta málið sem ég nefni hér máli mínu til stuðnings er það að í upphafi árs 1996 ritaði lögmaður fyrir hönd umbjóðanda síns tilteknu ráðuneyti í framhaldi af úrskurði umboðsmanns Alþingis um mál er varðaði þennan umbjóðanda lögfræðingsins. En úrskurður umboðsmanns Alþingis hafði áður fallið skjólstæðingi lögmannsins í hag. Nú ári síðar hefur ekki enn borist svar frá viðkomandi ráðuneyti. Ég tel með öllu óviðunandi að þannig sé staðið að málum.

Á árunum 1971--1981 þegar ég var starfsmaður í Stjórnarráði Íslands, nánar tiltekið í fjmrn., þá var það haft í flimtingum þar að í öðrum ráðuneytum, sumum öðrum ráðuneytum en fjmrn., giltu þær reglur að erindum er þangað bærust skyldi ekki svarað of fljótt. Fljót afgreiðsla var talin grafa undan tiltrú almennings á að afgreiðsla máls byggðist á vandaðri málsmeðferð. Erindi sem bárust voru því lögð til hliðar í nokkurn tíma áður en þau komu til skoðunar. Að vísu er mikið vatn runnið til sjávar síðan þetta var og tímarnir mikið breyttir. Engu að síður, svona var talið að þetta væri á árunum milli 1970 og 1980.

Á þessum tíma var hins vegar sú starfsregla í gildi í fjmrn. að ráðuneytisstjóri gerði starfsmönnum að svara öllum erindum er ráðuneytinu bærust innan sjö virkra daga og það fylgdi með að væri ekki unnt að kveða upp efnislegan úrskurð innan þeirra tímamarka, þá skyldi fyrirspyrjanda svarað og sagt hvenær vænta mætti endanlegs svars. Það er ekki vitað til þess að vandivirkni í málsmeðferð hafi liðið fyrir þessa vinnureglu, þvert á móti hygg ég að það hafi skapað tiltrú meðal almennings að vita að brugðist yrði skjótt við þeirri málaleitan sem uppi væri höfð. Slíkar reglur eru einnig einfaldar og það ætti engum að vera ofviða að skilja þær eða vinna eftir þeim.

Með tilkomu nýrrar tækni, tölvutækni, og stórfjölgun opinberra starfsmanna frá þessum tíma sem hér hefur verið vitnað til, má vænta þess að unnt eigi að vera að svara flestum erindum innan fimm virkra daga auk þess sem unnt ætti að vera að gefa þeim erindum númer sem af einhverjum ástæðum er ekki hægt að svara innan tiltekins frests og birta síðan á heimasíðum Stjórnarráðsins á veraldarvefnum hvað líði afgreiðslu umræddra mála. Slík tilhögun mundi að mínu mati veita þeim starfsmönnum hins opinbera sem í hlut eiga mikið aðhald og stórbæta þjónustu við almenning og fyrirtæki. Aðalatriðið er þó að ríkisstjórnin setji skýrar reglur um hvers skattgreiðendur megi vænta í viðskiptum sínum við Stjórnarráð Íslands og aðrar opinberar stofnanir. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sem í störfum sínum sem borgarstjóri sýndi það að hann rak Reykjavíkurborg af miklum dugnaði og skilvirkni, taki tillit til þessara ábendinga og setji Stjórnarráðinu og öðrum ráðuneytum skýrar reglur um þann hámarkstíma sem opinberir starfsmenn, fyrst og fremst í Stjórnarráðinu en helst í öllum öðrum opinberum stofnunum, hafa til þess að svara þeim sem þangað leita. Hvort sú regla ætti að vera eins og ég lýsti hér áðan að menn hefðu sjö virka daga til að svara eða einhver önnur, þá er aðalatriðið að settar séu skýrar reglur um að fólk þurfi ekki að bíða vikum, mánuðum og jafnvel árum saman eins og hér hefur verið rakið eftir því að fá einföld svör við einföldum erindum frá Stjórnarráðinu.

Ég held að það megi segja að stjórnsýsla alls staðar í hinum vestræna heimi sé í stöðugri mótun og endurskoðun og ég sé ekki nokkra ástæðu til annars en að slík endurskoðun og slík nýsköpun í opinberri stjórnsýslu eigi að geta átt sér stað á Íslandi eins og í nálægum löndum.