Hámarkstími til að svara erindum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 18:26:57 (4891)

1997-03-21 18:26:57# 121. lþ. 96.15 fundur 356. mál: #A hámarkstími til að svara erindum# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:26]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er hreyft athyglisverðu máli. Ég hafði að vísu talið að það hefðu verið settar einhverjar viðmiðunarreglur inn í löggjöf um þetta fyrir ekki löngu síðan tengt upplýsingaskyldu stjórnvalda en það er vafalaust misminni. Það hlýtur hv. flm. að hafa kynnt sér þegar hann undirbjó þetta þingmál að það væru ekki skýrar reglur. En á því er mikill misbrestur og hefur verið fram að þessu að erindum frá almenningi sé svarað innan tiltekins hæfilegs tíma.

Sú regla sem ég kynntist, heyrði um, erlendis þegar ég dvaldi þar var tveggja vikna tími sem hámark, þ.e. að það bæri að svara erindum innan tveggja vikna og það er svona viðmiðunarregla sem mér hefur fundist að væri eðlileg og þá sem hámarkstími því auðvitað á að vera hægt að svara fjölmörgum erindum nánast samdægurs, þyrfti að vera þannig, svo að ég tek undir þá hugsun sem er í þessu og geri ráð fyrir að fyrirmæli séu óskýr eða ófullnægjandi í gildandi löggjöf en hafði raunar haldið að á þessu hefði verið tekið að einhverju leyti.

Aðeins varðandi það sem hv. flm. nefndi um enska tungu, um civil servant og þýskuna, þá get ég ekki tekið undir að þeir séu kallaðir þjónar eða Diener sem eru í opinberu starfi sem embættismenn í þýskumælandi löndum því að þar eru þeir kallaðir Beamter og Beamtentum, Das Deutsche Beamtentum er ... ja, fær ýmsa til að fá gæsahúð þegar litið er til baka. Það þótti nokkuð harðdrægt í samskiptum við borgarana en ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma. Hins vegar er talað um Öffentlicher Dienst, um opinbera þjónustu þannig að þar kemur þjónustuhugtakið við sögu.