Áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 18:30:56 (4892)

1997-03-21 18:30:56# 121. lþ. 96.17 fundur 385. mál: #A áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:30]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun. Mér þykir ánægjulegt að fá tækifæri til að mæla fyrir máli þessu og ræða það við hæstv. forseta. Við sem þekkjum hjartslátt Alþingis og starfshætti vitum að ekki er reiknað með því að hér sé þétt setinn bekkurinn þegar komið fram að kvöldmat á föstudegi. En tillaga þessi er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra í samvinnu við félagsmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga að auðvelda sveitarfélögum landsins að hefja skipulega vinnu að áætlunum um sjálfbæra þróun með hliðsjón af ,,Dagskrá 21``.

Stefnt verði að því að sveitarfélög sem ekki hafa þegar byrjað slíkt starf hefji það sem fyrst og ekki síðar en í ársbyrjun 1998. Miðað verði við að slíkar áætlanir geti legið fyrir hjá sem flestum sveitarfélögum landsins á árinu 2000.``

Þetta er efni þáltill. Hún er fram borin af brýnni þörf, að ég tel sem flm. hennar, en áður en ég kem að því vildi ég aðeins víkja að hugtakinu um sjálfbæra þróun sem hér er notað sem þótti allframandi fyrir fáum árum en er nú að líkindum farið að vinna sér sæmilegan þegnrétt í íslensku máli og menn séu farnir að skynja hvað á bak við býr. Hugtak þetta var fyrst sett fram opinberlega á vegum Sameinuðu þjóðanna í skýrslu Brundtland-nefndarinnar svonefndu árið 1987 undir heitinu Sameiginleg framtíð okkar. Á enskunni er þetta hugtak sustainable development. Með því er átt við samfélagsþróun á heimsvísu af nýrri gerð þar sem tryggt sé gott og heilbrigt umhverfi samhliða því sem frumþörfum manna sé fullnægt. Framsetningin ,,maðurinn í sátt við umhverfi sitt til lengri tíma litið`` lýsir kannski best viðfangsefninu. Hugmyndin um sjálfbæra þróun gerir ráð fyrir að framleiðslu- og neysluhættir einstaklinga og þjóða virði þau takmörk sem umhverfi jarðar og einstakra vistkerfa setur. Líta ber á málin heildstætt og í samhengi til að tryggja verndun og viðhald umhverfisgæða. Lögð er jafnframt áhersla á lýðræðislega þátttöku og áhrif almennings á ákvarðanir á öllum stigum. --- Þess ber að geta að hugtakið sjálfbær þróun er enn ekki fastmótað þar eð ekki hefur verið samþykkt skýrt afmörkuð skilgreining þess á alþjóðavettvangi. Inntak þess getur því breyst og dýpkað með vaxandi skilningi og sammæli þjóða um forsendur umhverfisverndar.

Í samræmi við tilmæli Brundtland-nefndarinnar 1987 ákvað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að kalla saman ráðstefnu um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro í júní 1992. Á þeirri ráðstefnu var samþykkt m.a. framkvæmdaáætlun fyrir utan almenna yfirlýsingu, um umhverfi og þróun á árinu 1992 og gengur hún undir heitinu Dagskrá 21. Þessi framkvæmdaáætlun hefur því miður ekki enn þá verið þýdd í heild sinni á íslensku, eftir því sem ég best veit, heldur liggur hún aðeins fyrir í útdrætti og er það satt að segja ekki vansalaust með grundvallargagn af því tagi sem ég legg fram til forseta til sýnis. Efni þáltill. er sótt í þessa framkvæmdaáætlun. Hún byggir á hugmyndunum um sjálfbæra þróun og þar er m.a. fjallað um æskilegt frumkvæði héraðs- og sveitarstjórna til stuðnings víðtæku starfi að umhverfisvernd. Gert var ráð fyrir því í þessari framkvæmdaáætlun að ekki seinna en árið 1996 hefðu sem flestar sveitarstjórnir í hverju aðildarlandi að Sameinuðu þjóðunum náð sammæli um það hver á sínu svæði hvernig staðið yrði að staðbundinni Dagskrá 21 eins og það er kallað, The Local Agenda eins og það er orðað á enskunni, lokal programm eða eitthvað slíkt á skandinavískum málum.

Undirbúningur að þessu ferli átti raunar að hefjast þegar á árinu 1993, m.a. með alþjóðlegu samráði og síðan samvinnu og skiptum á upplýsingum milli sveitarstjórna í aðdraganda stefnumótunar. Þetta hefur því miður ekki gengið eftir sem skyldi. En í þessari framkvæmdaáætlun, Dagskrá 21, nánar tiltekið í kafla 28, er fjallað um þetta verkefni, aukna vinnu og áhrif héraðs- og sveitarstjórna í þessu sambandi. Þessi leiðsögn frá Ríó kveður á um nokkur atriði hvernig að verki skuli staðið í sambandi við þetta verkefni og vísa ég til greinargerðar um það efni.

Með þessari þáltill. er ekki hugmyndin að gefa neina bindandi forskrift um það hvernig sveitarfélög hér á landi eigi að móta sínar áætlanir um sjálfbæra þróun. Hér verður aðeins bent á reynslu sem fengin er í nágrannalöndum okkar þar sem unnið hefur verið markvisst í þessum málum í hartnær áratug, t.d. í Noregi. Þar hófst tilraunaverkefni að umhverfisvernd í sveitarfélögunum raunar löngu fyrir Ríó-ráðstefnuna eða árið 1987, stutt af norska umhverfisráðuneytinu og fjárhagslega af norska ríkinu. Þessu verkefni lauk árið 1991 og upp frá því tryggði ríkið m.a. endurgreiðslu launa fyrir umhverfisráðgjafa sem starfa skyldu í hverju sveitarfélagi þannig að slíkt kerfi var komið á í Noregi ári fyrir Ríó-ráðstefnuna og samþykkt Dagskrár 21. Árið 1993 höfðu hvorki meira né minna en 415 sveitarstjórnir í Noregi, og það er mikill meiri hluti norskra sveitarstjórna, notfært sér þessa heimild til ráðningar umhverfisráðgjafa.

Það liggja fyrir leiðbeiningarrit í Noregi og víðar á Norðurlöndum sem gefin voru út á árunum eftir Ríó-ráðstefnuna, eins og þetta frá norska umhverfisráðuneytinu ,,Tenke globalt -- Handle lokalt`` eins og það heitir á skandinavísku máli. Norska sveitarstjórnarsambandið hefur gefið út leiðbeiningar um það til sveitarfélaga hvernig æskilegt er að standa að þessum málum. Það er því margt að sækja til nágrannalanda okkar í þessu efni, t.d. til Svíþjóðar þar sem hið sama hefur verið gert og kannski ekki síður en í Noregi. Hér er ég með bækling sem heitir Dagskrá 21, smábæklingur sem eru leiðbeiningar um sjálfbæra þróun. Í kafla 28 er einmitt fjallað um það sem varðar sveitarfélögin og þá vinnu sem þar hefur verið í gangi hliðstætt og í Noregi. Svona efni er bara eitt lítið dæmi um handhæga litla leiðbeiningu á sænsku fyrir sveitarfélög um það hvernig standa beri að máli.

Virðulegur forseti. Aðeins um það frekar hvernig þessi mál standa hér á landi og hver ástæðan er fyrir því að þessi tillaga er flutt. Satt að segja hefur ráðleggingum Dagskrár 21 lítið verið sinnt að því er varðar þátt sveitarfélaga og stuðning af hálfu ríkisins við þau í umhverfismálum. Á einstökum sviðum hefur vissulega náðst umtalsverður árangur og átak er í undirbúningi hjá einstökum sveitarfélögum eða á vegum byggðasamlaga þeirra. Þar má nefna úrbætur í meðferð sorps og frárennslis, gatnagerð og margháttaða viðleitni til fegrunar umhverfis. Það sem hins vegar skortir á víðast hvar er að sveitarstjórnir setji umhverfismálin í þann forgang sem æskilegt væri og samþætti þau vinnu að vistvænu skipulagi og atvinnuþróun.

Svo virðist sem umhverfisráðuneytið hafi ekki megnað að veita þá leiðsögn og hvatningu sem eðlilegt væri, m.a. með hliðsjón af því sem gert hefur verið í grannlöndum okkar. Þau fáu dæmi sem hægt er að benda á hér á landi þar sem sveitarfélög hafa sinnt kvaðningu Dagskrár 21 sýna þetta betur en mörg orð.

Það vill svo til að í sveitarfélagi í mínu kjördæmi, Egilsstöðum, hefur verið í gangi vinna frá því í maí 1996 í verkefni norrænu ráðherranefndarinnar sem Egilsstaðabær er þátttakandi í að gerð umhverfisáætlana í sveitarfélögum í samvinnu við Færeyinga. Í Færeyjum hafa 17 sveitarfélög samvinnu um þetta verkefni og er Egilsstaðabær fulltrúi Íslands í verkefninu og nýtur til þess fjárhagsstuðnings frá umhverfisráðuneytinu og hefur jafnframt haft samband við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það var hins vegar nánast fyrir tilviljun að Egilsstaðabær frétti af þessu verkefni og náði að tengjast því og sýnir hvað þessi mál eru á tæpu vaði hjá okkur. Á þessu stigi felst í verkefninu að gerð sé úttekt á stöðu umhverfismála í sveitarfélaginu að því er varðar rekstur og fjárfestingar sem tengjast umhverfismálum. Sérstakur fulltrúi hefur verið í hlutastarfi til að sinna þessu verkefni en því lýkur nú bráðlega og verður fylgt eftir með tveimur ráðstefnum. Önnur ráðstefnan er í Færeyjum þar sem burðarásinn er og flestir sem í verkefninu starfa. Sú ráðstefna er í lok maí en hin í byrjun júní eða 9.--10. júní nk. á Egilsstöðum. Sú reynsla sem fæst á Egilsstöðum getur nýst öðrum sveitarfélögum í þeirri vinnu að staðbundinni sjálfbærri þróunaráætlun sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir.

Þá er að geta þess, virðulegur forseti, að Reykjavíkurborg er um þessar mundir að gerast þátttakandi í svonefndu Álaborgarsamstarfi sem er átak með samvinnu 240 borga og héraða í Evrópu til að stuðla staðbundið að sjálfbærri þróun. Samstarfinu var komið á eftir ráðstefnu í Álaborg vorið 1994. Borgarráð Reykjavíkur hefur nýlega skipað nefnd sem á í senn að vera verkefnisstjórn fyrir Álaborgarsamstarfið og undirbúa jafnframt stefnumótun Reykjavíkur í umhverfismálum samkvæmt forskriftinni frá Ríó. Vissulega eru fleiri sveitarfélög sem hafa sinnt þessum málum. Ég nefni Stokkseyri sem hefur unnið gott starf að umhverfismálum. Vafalaust er svipuð viðleitni víðar í gangi í einstökum sveitarfélögum en samræmt átak og nauðsynlegur stuðningur þarf að koma til svo að sem flest sveitarfélög hefji vinnu að áætlunum um sjálfbæra þróun, hvert á sínum vettvangi. Tillagan gerir ráð fyrir að áætlanir sveitarfélaganna í anda Dagskrár 21 liggi fyrir frá sem flestum þeirra á árinu 2000. Það væri góð afmælisgjöf og viðspyrna á tímamótum til að hefja göngu inn í næstu öld.

Ég er ekki í vafa um það, virðulegur forseti, að ef unnið yrði í anda þess sem hér er lagt til mundum við standa mun betur innan skamms í sambandi við umræðu og stefnumörkun ekki bara innan hvers sveitarfélags heldur fyrir landið í heild. Það er einmitt þannig sem umhverfismálin þurfa að þróast og vaxa upp úr nærtækum viðfangsefnum í sem nánastri snertingu við fólkið og umbjóðendur þess jafnhliða því sem við þurfum að sjálfsögðu að vera virkir þátttakendur í þeirri alþjóðlegu stefnumörkun og skuldbindingum sem Íslendingar hafa gengist undir eða þurfa að verða virkir þátttakendur í til þess að tryggja það að komandi kynslóðir fái eða geti búið við umhverfi og aðstæður sem séu þannig að menn þurfi ekki að setja spurningarmerki við það hvernig staðan verði að nokkrum áratugum liðnum að ekki sé talað um aldir.

Ég geri tillögu um það, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til hv. umhvn. að lokinni umræðu um þáltill.