Meðferð sjávarafurða

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:24:16 (4898)

1997-04-02 15:24:16# 121. lþ. 97.11 fundur 476. mál: #A meðferð sjávarafurða# (innflutningur, landamærastöðvar) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:24]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um samþykkt á drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar og viðbætur á viðauka I við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Um er að ræða verulegar breytingar á viðaukanum er lýtur að heilbrigði dýra og dýraafurða. Ísland yfirtekur aðeins þær gerðir er varða lifandi fisk, hrogn og svil nokkurra fisktegunda svo og fiskafurðir, þar á meðal fiskmjöl.

Því frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, er ætlað að færa löggjöf á þessu sviði til samræmis við þær gerðir Evrópusambandsins sem yfirteknar verða með áðurnefndri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið árið 1992 gengust EFTA-ríkin, þar með talið Ísland, undir þá skyldu að taka upp í löggjöf sína tilskipanir Evrópusambandsins varðandi hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu fiskafurða, ásamt tilskipunum um framleiðslu á lifandi skelfiski og um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu eldisfisks og eldisafurða. Ákvæði þessara tilskipana eru meginefni laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, ásamt reglugerðum um meðferð og vinnslu sjávarafurða og vinnslu og sölu skelfisks. Þetta eru þær reglur sem íslenskir framleiðendur vinna eftir og eru sambærilegar við reglur ESB. Ísland fékk hins vegar algera undanþágu frá því að heimila innflutning á lifandi dýrum og afurðum þeirra. EES-samningurinn gerði hins vegar ráð fyrir að allar undanþágur yrðu teknar til endurskoðunar á árinu 1995.

Hins vegar voru þær tilskipanir sem gilda um viðskipti milli Evrópusambandsríkja og heilbrigðiseftirlit á landamærum þeirra ekki yfirteknar. Ástæðan fyrir því var sú að í samningaviðræðum um Evrópska efnahagssvæðið gátu önnur EFTA-ríki en Ísland ekki sætt sig við að heilbrigðiseftirlit á landamærum innan EES yrði fellt niður.

Hefðu EFTA-ríkin innleitt reglur Evrópusambandsins varðandi landamæraeftirlit þá hefði jafnframt verið unnt að flytja lifandi dýr og landbúnaðarafurðir milli einstakra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins án sérstaks eftirlits. Önnur EFTA-ríki en Ísland voru á þeim tíma ekki reiðubúin fyrir svo veigamiklar breytingar. Þetta skipti Ísland hins vegar engu máli þar sem við fengum algjöra undanþágu varðandi landbúnað eins og kunnugt er.

Flestum útflytjendum íslenskra sjávarafurða er enn í fersku minni svokallað Frakklandsmál sem upp kom í febrúar 1994. Atvik voru þau í stuttu máli að frönsk stjórnvöld hertu mjög fyrirmæli til heilbrigðis- og tollyfirvalda um eftirlit með innflutningi á ísfiski og sjávarafurðum. Birtu stjórnvöld lista yfir þau lönd sem hefðu heimild til framleiðslu sjávarafurða og dreifingar þeirra í Frakklandi. EFTA- ríkin voru ekki á þessum lista og því var innflutningur frá Íslandi til Frakklands óheimill frá þessum degi. Meðal þeirra aðgerða sem frönsk stjórnvöld gripu til var að taka fyrir dreifingu á fiski og fiskafurðum í 48 klst. eftir að sýni hefði verið tekið úr viðkomandi sendingu meðan verið væri að rannsaka það. Þetta gerði t.d. Íslendingum ókleift að selja ísfisk því fiskurinn skemmdist á þessum tíma. Tafir á afhendingu fiskafurða höfðu í för með sér mikil óþægindi og juku kostnað fyrirtækjanna til muna.

Þetta mál sýndi okkur greinilega, að enda þótt EFTA-ríkin hefðu yfirtekið allar meginreglur Evrópusambandsins um framleiðslu og dreifingu sjávarafurða, þá töldust þau enn til þriðju ríkja, þ.e. ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, hvað varðar eftirlit með heilbrigði vöru á landamærum Evrópusambandsins.

Enda þótt aðstæður séu ekki þær sömu í dag og þegar þessir atburðir gerðust varð stjórnvöldum það ljóst að staða Íslands sem þriðja ríkis gagnvart ESB varðandi landamæraeftirlit með sjávarafurðum væri óviðunandi til frambúðar.

Samningaviðræðum milli sérfræðinga EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að heilbrigðisreglur fyrir þessar sjávarafurðir yrðu hluti EES-samningsins, stóðu yfir með hléum frá febrúar 1994 og lauk með samkomulagi í nóvember 1996.

Meginástæður fyrir viðræðunum voru tvær: Önnur ástæðan var sú að á árunum 1993--1994 vann Evrópusambandið að samræmingu reglna um landamæraeftirlit gagnvart ríkjum utan Evrópusambandsins. Þá lá fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mundi gefa út ákvörðun þess efnis m.a. að sýni yrðu tekin úr 20% sendinga sjávarafurða sem fluttar yrðu inn til sambandsins og 50% skelfiskssendinga. Ljóst var að afurðir frá EFTA-ríkjunum þyrftu að sæta þessari skoðun á landamærum með tilheyrandi kostnaði, töfum og takmörkunum á innflutningshöfnum og flugvöllum.

Hin ástæðan var sú að í I. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var ákvæði um að endurskoðun á undanþágum EFTA-ríkja skyldi fara fram árið 1995.

Viðræðurnar snerust þannig annars vegar um samningsbundna endurskoðun á I. viðauka við EES-samninginn og hins vegar um afnám landamæraeftirlits á EES-svæðinu.

[15:30]

Áðurnefnt samkomulag gerir ráð fyrir því að landamæraeftirlit milli EFTA-ríkjanna, þ.e. Íslands og Noregs og aðildarríkja Evrópusambandsins verði lagt niður. Þess í stað þurfa Ísland og Noregur að taka að sér heilbrigðiseftirlit með vörum frá ríkjum utan efnahagssvæðisins, Ísland aðeins með sjávarafurðum en Noregur með sjávarafurðum, landbúnaðarafurðum og lifandi dýrum.

Í 3. gr. frv. eru lagðar til veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi við innflutning sjávarafurða. Bætt er við lögin tveimur nýjum köflum. Annar kaflinn er um innflutning sjávarafurða og hinn kaflinn um landamærastöðvar.

Í 19. gr. er fjallað um innflutning frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Meginreglan er sú að heilbrigðiseftirlitið er að meginstefnu í höndum útflutningsríkisins og ber það ábyrgð á því. Þeir aðilar í útflutningsríkinu, sem vilja markaðssetja fiskafurðir á Evrópska efnahagssvæðinu, þurfa að uppfylla þær heilbrigðiskröfur sem þar gilda. Þetta hefur í för með sér að sjávarafurðir, sem fluttar eru milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, þurfa ekki að sæta heilbrigðisskoðun og landamæri eru í því tilliti afnumin. Fiskistofu er þó heimil skyndiskoðun og að taka sýni til rannsókna. Þessari heimild eru þó takmörk sett og verður að beita henni án mismununar.

Innflutningur á sjávarafurðum frá þriðju ríkjum verður eftirleiðis með þeim hætti að þeir aðilar einir sem uppfylla heilbrigðiskröfur EES mega flytja inn fisk og fiskafurðir til Íslands. Gefnar verða út skrár yfir þær vinnslustöðvar, verksmiðjuskip og frystiskip sem uppfylla umræddar heilbrigðiskröfur og öðrum er óheimill innflutningur inn á EES-svæðið, þar með talið til Íslands.

Allan lifandi fisk og fiskafurðir, þar með talið fiskmjöl frá aðilum utan EES, skal skoða á landamærastöð. Hins vegar er fiskiskipum heimilt að landa ísuðum afla sínum í öðrum höfnum.

Gert ráð fyrir að á Íslandi verði tekið upp eftirlit með sjávarafurðum, þar með töldu fiskmjöli og nokkrum lifandi fisktegundum sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því skyni er nauðsynlegt að koma á fót sérstökum landamærastöðvum þar sem skoðun afurða getur farið fram með fullnægjandi hætti, í höfnum og á Keflavíkurflugvelli.

Fiskistofa mun annast daglegan rekstur þessara landa\-mæra\-stöðva. Starfsmenn Fiskistofu munu að öllu jöfnu annast eftirlitið og munu þeir þannig skoða fisk sem landað er úr skipum þriðju ríkja, t.d. heilfrystum fiski úr rússneskum skipum. Hinsvegar mun embætti yfirdýralæknis hafa umsjón með innflutningi á fiskmjöli til fóðurs og lifandi fiskum með tilliti til sjúkdómavarna. Þá er gert ráð fyrir því að Fiskistofa, yfirdýralæknir og Hollustuvernd skipti með sér eftirliti eftir því sem hagkvæmast þykir hverju sinni.

Landamærastöðvarnar skiptast í varanlegar stöðvar og stöðvar sem hafa heimild til að skoða frystan fisk fram til 31. desember 1998. Í frv. er ráð fyrir því gert að sjávarútvegsráðherra ákveði með reglugerð fjölda landamærastöðva og staðsetningu þeirra. Meðan á samningaviðræðum stóð lagði ég ríka áherslu á að Ísland fengi sem flestar hafnir viðurkenndar til innflutnings á frystum afurðum sem ætlaðar eru til frekari vinnslu. Þannig yrði sem minnst röskun á því fyrirkomulagi sem nú er við þennan innflutning. Samkomulag náðist um 12 aukastöðvar sem hafa tímabundið leyfi fyrir innflutningi á frystum fiski. Þessi niðurstaða er okkur mjög hagkvæm því óneitanlega fylgir því kostnaður og tímatap að sigla með afurðir inn á eina höfn til eftirlits og landa þeim síðan í annarri.

Nú er fyrirhugað að með reglugerð verði settar upp sjö landamærastöðvar og valdar hafa verið tólf hafnir sem fá tímabundið leyfi. Er gert ráð fyrir að þær verði á eftirtöldum stöðum:

Landamærastöðvar verði í Reykjavík, Hafnarfirði, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Vestmannaeyjum og á Keflavíkurflugvelli. En hafnir sem hafa sérstakt leyfi fyrir innflutningi frystra sjávarafurða til ársloka 1998 verði í Keflavík, Grundarfirði, Patreksfirði, Þingeyri, Sauðárkróki, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði, Seyðisfirði, Höfn, Þorlákshöfn og Dalvík.

Við ákvörðun í ráðuneytinu á framantöldum landamærastöðvum var tekið tillit til þess hvar innflutningur frá þriðju ríkjum var mestur undanfarin ár. Þá var ákveðið að a.m.k. ein landamærastöð væri í hverjum landsfjórðungi og sem næst útibúi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Að lokum var tekið tillit til þess hvar Fiskistofa hafi ákveðið að staðsetja eftirlitsmann með fasta búsetu. Augljóst hagræði næst fram með því að nýta eftirlitsmenn Fiskistofu bæði við heilbrigðiseftirlit og annað eftirlit sem stofunni er falið með lögum. Ég vil leggja á það áherslu að hér er ekki um að ræða endanlegt val á landamærastöðvum því fyrir árslok 1998 verður ákveðið hvaða hafnir sem tímabundið leyfi hafa fái varanlegt leyfi.

Í samningaviðræðunum var það mikið baráttumál að fá áheyrnaraðild að fastanefnd ESB um dýraheilbrigði en sú nefnd er framkvæmdastjórn ESB til aðstoðar við mótun og framkvæmd löggjafar á þessu sviði. Þessi nefnd er sá vettvangur þar sem fjallað verður um þau vandamál sem upp kunna að koma varðandi löggjöf ESB/EES á sviði meðferðar og eftirlits með sjávarafurðum og mótaðar þær breytingar sem gera þarf á þeim reglum. Það er því mjög mikilvægt fyrir Ísland að geta tekið þátt í umfjöllun um þær reglur sem uppfylla þarf hér á landi frá byrjun. Samkomulag náðist um þetta á lokaspretti viðræðnanna og hefur Ísland þegar sótt nokkra fundi nefndarinnar. Einnig hafa Ísland og Noregur fengið aðild að undirnefndum sem gera tillögur að reglum um heilbrigði dýra og afurða þeirra, Ísland þó einungis varðandi fisk, fiskafurðir og fiskmjöl.

Í lok IV. kafla er að finna svokallað öryggisákvæði sem samningsaðilar geta gripið til í sérstökum tilfellum. Komi upp innan aðildarríkja ESB eða EFTA/EES-ríkja, annarra en Íslands, tilteknir dýrasjúkdómar eða annað sem stofna kann heilbrigði dýra eða almennings í alvarlega hættu, getur sjávarútvegsráðuneytið gripið til öryggisráðstafana gagnvart ríki því sem sjúkdómur kemur upp í. Framkvæmdastjórn ESB og hin EES-ríkin geta gripið til sams konar aðgerða gagnvart Íslandi að sömu skilyrðum uppfylltum. Öryggisráðstafanirnar taka gildi um leið og aðrir samningsaðilar hafa verið upplýstir um beitingu þeirra. Ráðstafanirnar geta ýmist falist í algjöru innflutningsbanni eða setningu sérstakra skilyrða um innflutning frá því ríki sem sjúkdómur kemur upp í. Viðræður milli aðila skulu þó hefjast án tafar og ef lausn finnst ekki er heimilt að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í V. kafla um landamærastöðvar er gert ráð fyrir gjaldtöku fyrir skoðun á fiski og fiskafurðum sem koma frá þriðju ríkjum. Um er að ræða samræmt gjald á öllu EES-svæðinu til að samkeppnisstöðu sé ekki raskað á svæðinu.

Kostnaður hefur verið áætlaður vegna eftirlits með innfluttum sjávarafurðum frá þriðju ríkjum. Stofnkostnaður vegna landamærastöðva er talinn nema 16,3 milljónum króna. Þá hefur einnig verið áætlaður rekstrarkostnaður fyrir síðari hluta ársins 1997 sem talin er nema 3,6 milljónum kr. en tekjur á móti eru taldar geta numið 1,5 milljónum kr. Áætlun um rekstrarkostnað fyrir allt árið 1998 nemur 7,3 milljónum kr. Tekjur eru taldar muni nema 3 milljónum kr.

Hér er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1997. Sú dagsetning er við það miðuð að sameiginlega EES-nefndin samþykki ákvörðun um breytingu á I. viðauka við EES-samninginn á fundi sínum í lok apríl nk. Ómögulegt er að segja til um hvenær framkvæmdastjórn ESB lýkur endanlegri umfjöllun sinni um samkomulagið. Lengstur tími fer í að þýða það á tungumál allra aðildarríkjanna.

Herra forseti. Ég vil leggja á það áherslu að frumvarp þetta er flutt í tengslum við þingsályktunartillögu um samþykkt draga að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar og viðbætur á viðauka I við EES-samninginn sem lögð hefur verið fram hér á Alþingi.

Verði þáltill. samþykkt ásamt þessu frv. verður samkeppnisstaða íslensk sjávarútvegs jöfnuð við samkeppnisstöðu sjávarútvegsfyrirtækja ríkja Evrópusambandsins hvað varðar kostnað vegna heilbrigðiseftirlits á landamærum. Auk þess veitir þessi samningur okkur færi á að fylgjast mun betur með mótun og setningu reglna á þessu sviði innan ESB og jafnframt opnast sá möguleiki að hafa áhrif á mótun þessara reglna. Á hinn bóginn fellur nokkur kostnaður á okkur og auknar skyldur en það er léttvægt þegar heildarhagsmunir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á okkar langmikilvægasta markaði eru hafðir í huga.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.