Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:43:40 (4901)

1997-04-02 15:43:40# 121. lþ. 97.12 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:43]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Í maí 1994 skipaði ég nefnd til að endurskoða ákvæði laga nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að þau atriði sem starf nefndarinnar skuli einkum beinast að séu heimildir til togveiða innan fiskveiðilögsögunnar og önnur skipting veiðisvæða milli veiðarfæra, framkvæmd skyndilokana og annarra svæðisbundinna friðunaraðgerða og viðurlög við fiskveiðilagabrotum. Í nefndina voru skipaðir þrír fulltrúar sjómanna tilnefndir af Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands og þrír fulltrúar útvegsmanna tilnefndir af Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Formaður nefndarinnar var Jón B. Jónasson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.

Nefndin skilaði tillögum sínum í lok október 1996 og er lagafrumvarp þetta í samræmi við tillögur nefndarinnar að öðru leyti en því að hér er gert ráð fyrir nokkuð mótaðri lagaákvæðum varðandi dragnótaveiðar auk þess sem kveðið er með skýrari hætti á um framkvæmd leyfisbindingar veiða. Þessar breytingar eru til komnar vegna afstöðu sem fram kom hjá hagsmunaaðilum við kynningu tillagna nefndarinnar um skipulag dragnótaveiða. Þá þykir nauðsynlegt að kveða skýrar í lögum á um þær meginviðmiðanir sem leggja beri til grundvallar, þegar veiðar eru leyfisbundnar í ljósi nýlegra dóma Hæstaréttar.

Lög nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, voru samþykkt á Alþingi í maí 1976. Lög þessi leystu af hólmi lög frá 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, og síðari lög um breytingar á þeim lögum. Samþykkt laga nr. 81/1976 var á sínum tíma einn veigamesti þátturinn í þeirri endurskoðun laga og reglna um fiskveiðistjórn sem fylgdi í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur. Í lögum nr. 81/1976 voru ýmis nýmæli og merkust þeirra má e.t.v. telja ákvæði um heimildir Hafrannsóknastofnunarinnar til skyndilokana veiðisvæða og víðtækar heimildir fyrir ráðherra til setningar reglna um friðunarsvæði og notkun og útbúnað veiðarfæra. Með lögunum voru enn fremur gerðar nokkrar breytingar á togveiðiheimildum fiskiskipa en veigamesta breytingin á þeim fólst í því að horfið var frá því að miða togveiðiheimildir fiskiskipa við brúttórúmlestatölu þeirra en í stað þess var tekið upp að miða við mestu lengd fiskiskipanna.

Frá því að lög nr. 81/1976 tóku gildi hafa verið gerðar á þeim nokkrar breytingar. Má þar fyrst nefna breytingar þær sem tengjast aflamarkskerfinu. Aðrar breytingar hafa ekki verið stórfelldar, en þær veigamestu lúta að rýmkun heimilda til dragnótaveiða og ákvæðum um skyndilokanir.

Eins og áður er getið var við gildistöku laga nr. 81/1976 horfið frá því að miða togveiðiheimildir skipa við brúttórúmlestir og ákveðið að miða þess í stað við mestu lengd þeirra. Ástæða þessarar breytingar var sú að brúttórúmlestaviðmiðunin þótti ekki heppileg þar sem tiltölulega litlar breytingar á skipi, sem engin áhrif höfðu á afkastagetu þess, gátu haft mjög mikil áhrif á skráða brúttórúmlestastærð skipanna. Í gildistíma laganna frá 1973 hafði skipum verið skipt upp í þrjá stærðarflokka miðað við viðmiðunarstærðirnar 105 og 350 brúttórúmlestir. Með lögum nr. 81/1976 voru fiskiskipin einnig flokkuð í þrjá stærðarflokka en miðað var við 39 metra og 26 metra mestu lengd. Auk þess segir í lögum nr. 81/1976, að þegar rætt sé um skip 39 metra og styttri þá séu undanskildir skuttogarar með aflvél 1000 brennsluhestöfl eða stærri og höfðu því slík skip sömu togveiðiheimildir og skip stærri en 350 brúttórúmlestir. Í ákvæði til bráðabirgða við lögin var hins vegar ákveðið, að ekkert skip skyldi missa í neinu togveiðiréttindi, þrátt fyrir ofangreinda breytingu. Þannig hefur skip haldið togveiðiheimildum sínum þótt það sé lengra en 26 metrar sé það undir 105 brúttórúmlestum. Sama gildir um skip stærra en 39 metrar sé það undir 350 brúttórúmlestum. Þetta bráðabirgðaákvæði var ekki tímabundið og hefur verið túlkað svo, að skipin haldi réttindum sínum fari stærð þeirra í brúttórúmlestum ekki yfir tilgreind mörk. Þar sem auðvelt er, eins og áður sagði, að hafa áhrif á brúttórúmlestastærð skips hefur þessi skipan með árunum leitt til þess að togveiðiheimildir sambærilegra skipa eru mjög misjafnar. Jafnhliða þessu hefur sú þróun orðið að byggð hafa verið mjög afkastamikil skip sem mælast aðeins styttri en 26 metrar. Þessi skip eru miklum mun breiðari en eldri jafnlöng skip voru og eru auk þess búin mun stærri vélum. Mælast þau yfir 105 brúttórúmlestir og er afkastageta þeirra miklu meiri en þeirra skipa, sem höfð voru til hliðsjónar þegar togveiðiheimildir minnstu togveiðiskipanna voru ákveðnar með lögum nr. 81/1976. Loks má nefna að sérákvæðið um skuttogara með vél stærri en 1.000 hestöfl hefur valdið nokkrum túlkunarvanda því ekki er í lögunum skilgreining á því hvað teljist skuttogari og hafa breytingar í gerð og búnaði skipa á undanförnum árum aukið skilgreiningarvandann. Þessar reglur laga nr. 81/1976, sem hér hafa verið raktar, hafa því valdið miklu misræmi í togveiðiréttindum fiskiskipa, auk þess sem allt eftirlit með því hvaða togveiðiréttindi einstök skip hafa er mjög erfitt. Þykir því rík ástæða til að koma á annarri og betri skipan mála.

Lagt er til að fallið verði frá brúttórúmlestaviðmiðun hins ótímabundna bráðabirgðaákvæðis núgildandi laga varðandi togveiðiheimildir fiskiskipa. Miðað verði við mestu lengd fiskiskipa sem meginreglu en jafnframt verði litið til toggetu þeirra við ákvörðun togveiðiheimilda. Í því skyni verði tekinn upp til viðmiðunar svonefndur aflvísir en hann er samsettur af þeim kröftum sem mestu ráða um toggetu fiskiskipa. Þá er lagt til að skipum verði heimilt að stunda dragnótaveiðar á þeim svæðum þar sem togveiðar eru þeim heimilar án sérstaks veiðileyfis. Aðeins verði heimilt að veita bátum undir tiltekinni stærð heimildir til dragnótaveiða innan togveiðilína. Aðlögunartími fyrir báta sem missa togveiðiheimildir við þessa breytingu verði til 1. janúar 2003.

Ekki er lagt til að miklar breytingar verði gerðar á skipan togveiðihólfanna sjálfra en hins vegar er framsetningu þeirra í frumvarpstextanum breytt til hægðarauka. Þó er lagt til að felld verði niður fimm togveiðisvæði.

Tvö þeirra við suðurströndina þar sem veiðar með vörpu hafa nú í nokkur ár verið bannaðar út að þremur sjómílum að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar.

Eitt þeirra nær inn á Breiðafjörð þar sem samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunarinnar er iðulega bæði smáýsa og smáþorskur og hefur komið til skyndilokana af þeim sökum.

Loks er um að ræða tvö svæði fyrir Vestfjörðum þar sem skipum styttri en 20 metrar hefur verið heimilað að stunda togveiðar að hausti upp að fjórum sjómílum. Þessi svæði voru á sínum tíma opnuð vegna rækjubáta en þeir hafa lítið nýtt þau og þykir ekki ástæða til að halda þessum sérstöku heimildum áfram.

Þá er lagt til að breytingar verði gerðar á tveim togsvæðunum við Norðausturland og að sett verði nýtt togsvæði þar sem skipum í tveimur minni flokkunum verði heimilt að stunda veiðar allt upp að fjórum sjómílum út af norðanverðum Vestfjörðum frá 1. nóvember til 31. janúar. Ástæða þessarar tillögu er að á þessu svæði má á haustin finna bæði kola og ýsu og eru svæðin lítið nýtt af öðrum fiskiskipum þennan tíma.

Um þessar tillögur og forsendur fyrir þeim vísast að öðru leyti til frumvarpsins og athugasemda með því þar sem rækilegri grein er gerð fyrir þeim breytingum sem hér er verið að mæla fyrir um.

Í 7. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að renna traustari lagastoðum undir núverandi skipulag grásleppuveiða en veiðar þessar hafa um langt árabil verið leyfisbundnar. Í frumvarpinu felast hins vegar ekki tillögur til breytinga á efni núgildandi reglna enda ríkir almenn sátt um þær.

Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 81/1976, um heimild ráðherra til setningar reglugerða um svæðalokanir til að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar, eru ítarleg. Engu að síður hafa þau ekki þótt nægilega ljós. Jafnframt eru þau þannig orðuð að deila má um gildissvið þeirra, t.d. varðandi veiðar á öðrum tegundum nytjastofna en fiski. Þykir ástæða til að einfalda þessar reglur og jafnframt gera þær skýrari og ótvíræðari. Sama á við varðandi ákvæði um heimildir til handa ráðherra til setningar reglugerða sem lúta að friðun og nýtingu fiskstofna.

Á sínum tíma þóttu ákvæði 8. gr. laga nr. 81/1976, um heimildir til handa Hafrannsóknastofnuninni til þess að skyndiloka veiðisvæðum með tilkynningum í útvarpi eða strandstöð, merk nýjung. Á þeim 20 árum, sem liðin eru frá því að lögin öðluðust gildi hefur fengist mikil reynsla af framkvæmd skyndilokana og þykir ástæða til að taka mið af henni og breyta ákvæðunum í samræmi við hana. Auk þess hafa á þessu sviði orðið breytingar, t.d. í fjarskiptatækni sem eðlilegt er að taka tillit til.

Lagt er til að heimildum Hafrannsóknastofnunar til skyndilokana verði breytt nokkuð þannig að þær gildi í allt að fjórtán sólarhringa í stað sjö sólarhringa. Auk þess verði heimilt að framlengja þær um viku við sérstakar aðstæður. Þá verði heimilað að grípa til skyndilokana á grundvelli tillagna frá skipstjórum fiskiskipa að ákveðnum ströngum skilyrðum fullnægðum.

Loks er lagt til að veruleg breyting verði gerð á viðurlagaákvæðum enda má segja að viðurlagakafli laga nr. 81/1976 sé ekki í samræmi við þá lagaþróun sem almennt hefur orðið. Verður að telja að ýmis ákvæði hans séu úrelt enda má rekja þau óbreytt til eldri laga sem miðuðust við allt aðrar aðstæður en nú ríkja. Er rétt í þessu sambandi að benda á að með lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, voru samþykktar verulegar breytingar á viðurlagakafla laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Er samræmi milli viðurlagaákvæða laga nr. 38/1990 og laga nr. 57/1996. Þessi tvenn lög, ásamt lögum nr. 81/1976, eru veigamestu lögin á sviði fiskveiða og nýtingar fiskstofna hér við land. Þykir því nauðsynlegt að viðurlagaákvæði laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands séu í samræmi við viðurlagakafla áðurnefndra laga. Lagt er m.a. til að fallið verði frá skilyrðislausri upptöku afla og veiðarfæra vegna landhelgisbrota og refsirammi vegna sekta verði einfaldaður.

Herra forseti. Lögð skal sérstök áhersla á að í frumvarpi þessu er á ýmsan hátt reynt að koma til móts við sjónarmið útgerðarmanna og sjómanna, bæði varðandi framkvæmd ákvæða sem lúta að lokunum svæða og fleiri þátta. Þá er jafnframt leitað aukins samstarfs við þá varðandi skynsamlega nýtingu fiskstofna og má í því sambandi benda á ákvæði 11. gr. frv. en í því er heimilað að grípa til skyndilokana vegna upplýsinga frá sjómönnum vegna skaðlegra veiða.

Ég tel því mikilvægt að Alþingi takist að afgreiða frv. á þessu þingi. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu, herra forseti, vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.