Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:55:32 (4902)

1997-04-02 15:55:32# 121. lþ. 97.12 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Megintilgangur þessa þingmáls er samkvæmt 1. gr. þess að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Þetta er samhljóða ákvæði og er í núgildandi lögum sem þetta frv. á að leysa af hólmi, en þau lög eru orðin liðlega 20 ára gömul. Þróun byggðar í landinu á þeim tíma hefur verið með þeim hætti, a.m.k. getum við sagt síðustu tíu ár, að það er varla hægt að tala um trausta byggð. Það hefur verið stöðugt undanhald víðast hvar á landsbyggðinni. Einungis á örfáum stöðum getum við sagt að byggð hafi staðið af sér undanhaldið en hvergi verið í neinni sókn nema á höfuðborgarsvæðinu, þar hefur verið traust byggð.

Ég vildi því leita eftir því við hæstv. ráðherra að hann útskýrði fyrir okkur hvernig þessi lög eiga að breyta þeirri þróun sem verið hefur eða hvort sú þróun sem er eigi bara að vera áfram að mati hans og að það sé traust atvinna og traust byggð í landinu að áfram verði fólksfækkun á landsbyggðinni, m.a. á öllum stöðum á Vestfjörðum sem er það kjördæmi sem hvað mest byggir afkomu sína á sjávarútvegi.

Ég vil nefna það, virðulegi forseti, að ég hefði talið að ef menn vildu nálgast þetta markmið, þ.e. að lögin tryggðu byggð og atvinnu í landinu einkum í sjávarútvegsbyggðunum, þá yrði að vera í frv. ákvæði sem veitti þeim byggðum tiltekinn rétt umfram aðra til sóknar og nýtingar á auðlindum nálægt þeim byggðum. Það er nú ekki tími til að hafa lengri orð um það, virðulegi forseti, enda mun ég gera það í ræðu minni um þetta mál á morgun. En það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hverja skoðun hann hefur í þessu efni.