Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:59:37 (4904)

1997-04-02 15:59:37# 121. lþ. 97.12 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála ráðherranum að mikilvægt er og jafnvel mikilvægast fyrir byggð í landinu, a.m.k. fyrir þá byggð sem byggir sína afkomu á sjávarútvegi, að fiskveiðum sé stjórnað af skynsemi. Um það eru engar deilur milli okkar í þessu efni. Við erum sammála um það. En það kann að vera að við séum ekki endilega sammála um hvaða stjórn er af skynsemi. Ég er ekki alveg viss um að það sé stjórn fiskveiða af skynsemi að öllum skipum á Íslandi sé hleypt upp að 12 mílum fyrir utan Vestfirði, jafnvel skipum yfir þúsund tonn. Ég er ekki sannfærður um að það sé stjórn fiskveiða af skynsemi að stórum skipum sé hleypt upp í 4 mílur t.d. út af Vestfjörðum á ákveðnu svæði og á ákveðnum tíma ársins. Ég hefði talið það veiðar af skynsemi að þeir sem búa á staðnum nytjuðu miðin og þau skip sem þar eru gerð út en ekki önnur skip.

Það má sjá á stöðu byggðar vítt um landið að hún er ákaflega misjöfn. Sumir staðir hafa staðið ákaflega vel af sér þá takmörkun á veiðum, sem tekin var upp á sínum tíma og var óhjákvæmileg, staðir eins og Akureyri og Höfn í Hornafirði. Aðrir hafa ekki náð að standast þessa þróun sem orðið hefur og nefna má öll þorpin á Vestfjörðum sem hafa tapað öllum togurum sínum og byggja afkomu sína á tiltölulega litlum skipum með litlar veiðiheimildir.

Mér hefur ekki fundist það vera stjórn fiskveiða af skynsemi að láta þá þróun ganga yfir eins og gerst hefur með tilheyrandi afleiðingum á efnahag fólksins sem þar býr og áhrifum á verðmæti eigna og annað slíkt.