Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 16:01:51 (4905)

1997-04-02 16:01:51# 121. lþ. 97.12 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[16:01]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Frv. mælir m.a. fyrir um togveiðisvæði en eins og fram kom fyrr í umræðunni voru ekki róttækar breytingar gerðar í þeim efnum. Þó er heldur verið að takmarka veiðisvæði togaranna og fella niður ákveðin hólf, sem svo hafa verið nefnd, sem þeir hafa á tilteknum tímum getað veitt innan við 12 mílur m.a. úti fyrir Vestfjörðum þannig að í því efni hygg ég að við séum sammála.

Varðandi afkomu einstakra fyrirtækja er það að minni hyggju grundvallaratriði að stjórnvöld eiga ekki að stýra rekstri einstakra fyrirtækja. Aðalatriðið er að almennar reglur gildi um fiskveiðistjórnun og að aðstaða þeirra sem í atvinnugreininni starfa sé jöfn en síðan verður hver og einn að vera sinnar gæfu smiður í rekstri og starfrækslu atvinnufyrirtækjanna.