Áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 16:03:35 (4906)

1997-04-02 16:03:35# 121. lþ. 97.14 fundur 403. mál: #A áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum# þál., Flm. KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[16:03]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. á þskj. 700 um mótun áætlunar um afnám ofbeldis gagnvart konum. Meðflytjendur auk mín eru hv. þingkonur Kristín Ástgeirsdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir. Þetta er 403. mál þessa þings og tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að móta áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum í samræmi við yfirlýsingu sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. desember 1993. Nefndin verði skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, Jafnréttisráðs, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Kvennaathvarfsins í Reykjavík og Stígamóta, svo og fulltrúa forsætisráðuneytis sem verði formaður. Nefndin móti áætlun til fimm ára og hafi eftirlit með framkvæmd hennar. Skýrsla um störf nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi eftir því sem verkinu miðar.``

Herra forseti. Þetta mál snýst um mannréttindi. Það eru mannréttindi að finna til öryggis á eigin heimili. Það eru mannréttindi að njóta verndar foreldra og ástvina í uppvextinum. Það eru mannréttindi að ganga frjáls og óttalaus utan sem innan heimilis án þess að eiga yfir höfði sér að verða fyrir barsmíðum eða nauðgun. Það eru mannréttindi að ráða yfir eigin líkama.

Brot á þessum mannréttindum eru framin daglega í okkar litla samfélagi, jafnvel oft á dag. Það er staðreynd sem er erfitt að horfast í augu við en óhugsandi að sætta sig við. Þess vegna hljótum við að gera það sem við getum til að vinna gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist.

Fyrir réttum mánuði ræddum við skýrslu dómsmrh. um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis en þá skýrslu er að finna á þskj. 612. Skýrslan byggir á könnun og starfi nefndar sem skipuð var í framhaldi af samþykkt tillögu á Alþingi árið 1994 en flytjendur þeirrar tillögu voru hv. þingmenn Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þetta er mjög athyglisverð skýrsla og mikilvægt innlegg í þessa umræðu því það er mála sannast að heimilisofbeldi var fyrir hálfum öðrum áratug eitt best varðveitta leyndarmál samfélagsins. Mannréttindabrot af þessu tagi voru einfaldlega ekki til umræðu. Kvennabaráttan hefur breytt þessu og þar um ræður m.a. starfsemi Kvennaathvarfsins og Stígamóta en þar hafa verið unnin þrekvirki sem hafa gerbreytt viðhorfum til þessara mála. Einnig er vert að minna á nýafstaðna röð málþinga sem þessir aðilar stóðu fyrir ásamt ýmsum fleirum, m.a. Kvennalistanum og Sambandi framsóknarkvenna, um hinar ýmsu birtingarmyndir ofbeldis gagnvart konum og á þeim málþingum kom fram mikill fróðleikur sem gagnast mun í áframhaldandi baráttu.

Kvennalistinn hefur átt drjúgan þátt í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum. Fyrsta þingmálið sem Kvennalistinn fékk samþykkt á Alþingi var um könnun og meðferð nauðgunarmála og tillögur til úrbóta í þeim efnum. Árangur þess starfs er m.a. neyðarmóttaka vegna kynferðislegs ofbeldis sem opnuð var á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 8. mars 1993 og hefur tvímælalaust sannað gildi sitt. Þar var stigið stórt framfaraspor og það starf á eftir að skila sér enn betur, m.a. í fræðslu og miðlun upplýsinga sem ég veit að aðstandendur neyðarmóttökunnar hafa fullan hug á að efla og fara með víðar um þjóðfélagið. Þá hafa verið gerðar breytingar á lögum og fleira til að taka á þeim málum.

Það er margt fleira sem gera þarf og út á það gengur sú tillaga sem hér er borin fram. Við teljum umræðuna það vel á veg komna í þjóðfélaginu og ýmsar hugmyndir fyrir hendi til úrbóta þannig að nú sé bara að hefjast handa og hrinda þeim í framkvæmd. Þess vegna leggjum við til að stefnt sé saman til nokkurs konar aðgerðaráðs fulltrúum hinna frjálsu félagasamtaka sem hafa unnið hvað mest að þessum málum, svo og fulltrúum framkvæmdarvaldsins sem málið varða. Menn kunna að spyrja og hafa reyndar þegar spurt hvers vegna tillagan sé einskorðuð við afnám ofbeldis gagnvart konum en ekki bara ofbeldis yfirleitt og síðast í morgun fékk ég upphringingu frá fjölmiðli sem spurði um þetta.

Ekki skal gera lítið úr því. Vissulega þarf að vinna gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er og gegn hverjum sem er. En ofbeldi gagnvart konum hefur nokkra sérstöðu. Eins og menn hljóta að átta sig á, m.a. við lestur fylgiskjalsins, sem er yfirlýsing um afnám ofbeldis gagnvart konum sem samþykkt var á 85. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. desember 1993. Íslendingar greiddu þessari yfirlýsingu atkvæði sitt og tóku með því undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Vissulega má benda á atriði í yfirlýsingunni sem ekki ætti að þurfa að taka sérstaklega á hér á landi en önnur þarfnast svo sannarlega rækilegrar umfjöllunar og úrbóta við.

Við mótun áætlunar um afnám ofbeldis gagnvart konum þarf m.a. að hafa eftirfarandi atriði í huga:

1. Að fræðsla um ofbeldi og áhrif þess verði aukin verulega í skólum og meðal almennings, hvort sem um er að ræða kynferðislegt ofbeldi eða ofbeldi af öðrum toga.

2. Að heimilisofbeldi verði skilgreint og meðhöndlað eins og annað ofbeldi.

3. Að fræðsla fyrir lögreglumenn, lögfræðinga og dómara um kynferðisofbeldi og ofbeldi á heimilum verði stóraukin.

4. Að markvisst verði unnið að því að fjölga konum í þeim starfsstéttum sem vinna við meðferð ofbeldismála, bæði hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum.

5. Að kæruskylda hvíli á lögreglu og ákæruvaldi vegna ofbeldisbrota, en ábyrgðin hvíli ekki á þolanda brotsins.

6. Að brotaþola sé skipaður málsvari allt frá upphafi rannsóknar til málsloka.

7. Að lögreglu verði gert kleift að beita nálgunarbanni jafnhliða áminningu ef einhver raskar friði annarrar manneskju eða vekur henni ótta með ógnunum eða ofsóknum.

8. Að tryggt verði fjármagn til reksturs miðstöðva fyrir konur og börn sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi.

9. Að komið verði á meðferðarúrræðum fyrir karla sem beita konur ofbeldi.

Af þessari upptalningu má sjá hvers vegna við teljum nauðsynlegt að fulltrúar svo margra ráðuneyta komi að málinu. Það þarf að taka á því með mjög víðtækum hætti ef verulegur árangur á að nást. Hæstv. dómsmrh. hefur sýnt þessum málum áhuga og skilning og hann lýsti því m.a. yfir í umræðunni 5. mars sl. að hann hefði lagt drög að myndun starfshópa til að huga að löggæsluþættinum og að öðrum sem mundi huga að meðferð þessara mála í dómskerfinu. Hann lýsti þar einnig yfir vilja sínum til að stuðla að samstarfi milli ráðuneyta og tók undir þær hugmyndir sem fram komu í umræðunni um slíkt. Við, flytjendur þessa þingmáls, bindum því miklar vonir við að um þetta geti náðst góð samstaða á Alþingi.

Í ofbeldi gegn konum birtist kvennakúgun í sinni grófustu mynd og það er krafa kvenna að gripið verði til aðgerða til að afmá þann smánarblett af íslensku samfélagi og svo sannarlega hafa stjórnvöld í raun tekið undir það með því að skrifa undir þá yfirlýsingu sem fylgir með þessu sem fskj.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu en að lokinni þessari umræðu legg ég til að henni verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.