Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:02:26 (4909)

1997-04-03 11:02:26# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:02]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að ræða þetta mál sem hér er lagt fram og kynnt því verið er að fjalla um fjöregg þjóðarinnar. Ég verð reyndar að játa að ég hef ekki kynnt mér málið nægilega vel til að geta farið ítarlega í það. En ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, varðandi hagsmunagæslu sem má tileinka þessu frv. Ég tel að þetta frv. þurfi mjög góða athugun og yfirferð. Ég hvet til þess að hv. sjútvn., sem ég vænti að fái þetta mál til umfjöllunar, leggi sig fram við athugun þess.

Það er kannski ástæða til, herra forseti, að rifja upp að fiskveiðistjórnunin á Íslandi sl. 13 ár hefur farið fram eftir núverandi kerfi. Það má velta því fyrir sér að á 13 árum hefur tekist að auka þorskafla um 30.000 tonn. Það er árangurinn af fiskveiðistjórnarkerfinu í 13 ár. Það hefur náðst að auka þorskaflann við Ísland um 30.000 tonn. En hvað hefur gerst á sama tíma, hæstv. forseti? Grálúðustofninn er eyddur svo upp til agna að menn fást ekki lengur til að gera út á grálúðu. Hvað annað hefur gerst? Það er kannski ástæða til að nefna það við hæstv. sjútvrh. að ufsakvótinn, sem úthlutað er á hverju ári, næst ekki. Af hverju er það? Það er ástæða til að nefna að ýsukvótinn, sem úthlutað er á hverju ári, næst ekki. Af hverju skyldi það vera? Það væri fróðlegt að fá svör við þessum spurningum frá hæstv. sjútvrh., sem ég sé að er önnum kafinn í umræðum í hliðarsal. Það er ástæða til að biðja hann að hlýða á mál mitt um þetta efni. Ég vil spyrja hann hver sé ástæðan fyrir því að skipstjórar telja að karfastofninn á Reykjaneshrygg sé í stórhættu. Þetta hefur gerst á þeim tíma sem við höfum náð þeim árangri að geta aukið þorskafla á 13 árum um 30.000 tonn. Þetta eru atriði sem ég vildi gjarnan fá svör við ásamt öðrum spurningum sem ég hef lagt hér fram.

Það er ástæða til að velta fyrir sér mörgum greinum en ég ætla eingöngu að halda mig við 6. og 7. gr. þessa frv. 6. gr. fjallar um veiðar í dragnót við Ísland. Í Faxaflóa hafa verið stundaðar veiðar með dragnót og fróðlegt væri að fá að vita hvað hæstv. sjútvrh. ætlar sér í sambandi við þær veiðar. Stendur til að rannsókn fari fram á veiðiþoli stofnsins eða á að halda áfram eins og verið hefur? Menn ímynda sér að mörg lög af kola séu að drepast vegna skorts á súrefni í botninum á Faxaflóa. Sjómenn á Akranesi og víða við flóann hafa gagnrýnt að rannsóknir skuli ekki fara fram. Ég spyr hæstv. sjútvrh. hvort hann ætli að láta fara fram rannsókn. Ef til vill ætlar hæstv. sjútvrh. sér ekki að svara spurningum sem beint er til hans um þessi efni. Það er þá eins og verið hefur þegar þessi mál eru til umræðu, að spurningum er ekki svarað. Það er slæmt að þurfa að segja það hér en það hafa ekki komið svör við spurningum eins og ég var að bera fram.

Það eru ekki nema 10--15 ár síðan mjög var til umræðu og athugunar þáltill. um að stöðva dragnótaveiðar og láta fara fram rannsókn á veiðiþoli kolastofnsins. Það hefur ekki verið gert. Í frv. er sagt að farið sé að ráðum Hafrannsóknastofnunar í þessum málum. Ég dreg það í efa. Mér finnst ástæða til að spyrja þessara spurninga og ég hvet til þess að þeim verði svarað. Ef ekki, þá verða farnar aðrar leiðir.

Mér finnst ástæða til að ræða 7. gr. þar sem fjallað er um hrognkelsaveiðar. Hrognkelsaveiðar eru stundaðar nánast takmarkalaust við Ísland. Sennilega er hent milljónaverðmætum í sjóinn á hverju ári. Það er ástæða til að velta því fyrir sér um leið og bannað er að henda sjávarafla frá borði að við hrognkelsaveiðar eru hrognin úr grásleppunni hirt og afganginum hent í sjóinn. Það er ekki gerð hin minnsta tilraun til að athuga möguleika á nýtingu á fiskinum. Áður fyrr var grásleppa veidd vegna fisksins og þá var hrognunum hent. Nú er verðmæti hrognanna í hverri grásleppu um það bil 450 til 500 kr. kílóið. Það er selt upp úr bát á 550--650 kr. Það ber að skoða þetta. En á sama tíma er ef til vill verið að fleygja í sjóinn verðmætum upp á hundruð milljóna án þess að nokkur maður skipti sér af því vegna þess að það er ekkert athugað á hvern hátt hægt er að nýta þessa afurð. Þar tel ég að við verðum að grípa inn í og ég bið hæstv. sjútvrh. að skoða hvort ekki sé ástæða til að gera úttekt á þessu máli.

Ég vil nefna það að undirritaður stóð að tilraun fyrir 20 árum um að láta sjóða fiskinn af hrognkelsum niður en því var hafnað af tilraunaeldhúsi háskólans að slíkt væri möguleiki. Samt sem áður var þessi varningur uppi í hillu hjá undirrituðum í tvö ár. Að þeim tíma liðnum var opnuð dós og ekkert var að þessum matvælum. Ég tel að enn sé ástæða til að skoða þessi mál aftur. Ég hef miklar áhyggjur af því að gengið sé of langt í hrognkelsaveiðum við Ísland. Það hefur sýnt sig að sífellt hefur dregið úr magninu þrátt fyrir nánast gegndarlausa sókn. Ég held að menn verði að skoða þetta. Ég bið hæstv. ráðherra að athuga hvernig þessi mál standa. Ég hygg að hrognkelsum sé hent í sjóinn sem nemur 4.500--5.000 tonnum við Ísland á ári hverju. Af því er sennilega nýtanlegur fiskur upp á 50%--60%. Þarna er um að ræða eitthvað sem ég tel að sé ólöglegt. Það er bannað að henda afla dregnum úr sjó aftur í sjóinn.

Ég vil fara fram á að hv. sjútvn. taki til greina í umfjöllun um frv. til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands allar þær þáltill. og lagafrv. sem fyrir liggja vegna þess að þessi frv. og þáltill. lúta öll að stjórnun fiskveiða sem er okkar meginmál og ég tel að ástæða sé til að skoða ýmsa hluti sem þar eru settir fram.

Ég vil einnig hvetja hv. sjútvn. til að skoða refsiákvæðin vel sem eru í 15.--20. gr. frv. Þar er um margslungið ferli að ræða og ég tel að ástæða sé til að skoða það mjög vel.

Heimildir ráðherra aukast verulega með þessu frv. og ég ætla ekkert að hafa á móti því. En í heild sinni tel ég ekki að um sé að ræða miklar breytingar aðrar en þær að verið er að auka heimildir ráðherra til ýmissa ráðstafana um fiskveiðar. Ég hvet til þess að það verði skoðað þegar heimildir liggja fyrir hjá ráðherra hvort ekki sé eðlilegt að skipta upp veiðisvæðunum í landhelginni með tilliti til afkastagetu bátaflotans og tek þar með undir orð hv. síðasta ræðumanns, Kristins H. Gunnarssonar.

Ég ætlaði ekki að fjalla lengi um þetta mál. En við þessum atriðum sem ég benti á og spurði um vildi ég gjarnan fá svör. Sérstaklega hvernig á því stendur að á þeim 13 árum sem núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur verið við lýði hefur aðeins náðst sá árangur að bæta við eða auka aflann um 30.000 tonn í þorski. Á sama tíma er grálúðustofninn kominn niður í nánast núll. Það eru engin afköst. Þó veiðiheimildum sé úthlutað, þá nást þær ekki. Sama má segja um ufsann og ýsuna. Skipstjórar á togurum segja að karfastofninn á Reykjaneshrygg sé mjög illa farinn. Mér finnst ástæða til að velta þessu fyrir sér um leið og við veltum fyrir okkur áhrifunum af því fiskveiðistjórnarkerfi sem við lýði er. Ég er ekki að segja að hægt sé að skipta úr því kerfi umsvifalaust en ég tel að ástæða sé til að skoða árangurinn betur en mér virðist hafa verið gert.