Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:33:29 (4914)

1997-04-03 11:33:29# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:33]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að heyra orð hæstv. sjútvrh. um stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum áðan og að sú sem hér stendur hafi séð ljósið í Færeyjum. Það skal tekið skýrt fram að mjög margt í Færeyjum var ekki gott og við sáum að það eru mörg víti að varast. En það eru viss atriði sem við getum af þeim lært og ég vil leggja áherslu á það, það eru aðeins viss atriði. T.d. kom skýrt fram hjá fulltrúum í sjávarútvegi þar að það þýðir ekkert að bjóða fólki 300--400 kr. í laun í fiskvinnslunni. Þeir borga 800 kr. í laun til fiskvinnslukvenna. Það væri mjög mikið framfaraspor ef við mundum bjóða fólki þau kjör sem að mörgu leyti eru boðin þar. Hér gengur allt út á það að nokkrir útgerðarmenn græði sem mest á kostnað almennings. Það er mjög gott mál að það séu peningar í sjávarútveginum til að byggja upp verksmiðjurnar sem virkilega skortir á þar. En það eru mjög mörg önnur atriði sem við kvennalistakonur viljum gera sem þeir gera ekki, m.a. að leggja mun meiri áherslu á verndun fiskstofnanna sem mér finnst þeir ekki gera nægilega mikið. En það sem mér fannst ekki síst athyglisvert er að ástæðurnar fyrir því að þeir vilja ekki taka upp kvótakerfið eru ekki síst siðferðilegar og pólitískar. Þeir vilja ekki sjá sægreifana sitja suður á Spáni á meðan leiguliðarnir eru að veiða fiskinn. Þeir vilja frekar koma á hagkvæmni með því að hafa framseljanlega sóknardaga. Umræðan bæði meðal pólitíkusanna og hafrannsóknarmanna er á allt öðru plani þar heldur en hér og að mínu mati getum við að mörgu leyti lært af þeim, ekki síst siðferðilega.