Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:35:30 (4915)

1997-04-03 11:35:30# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:35]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem eftir stendur er að hv. 19. þm. Reykv. sagði að mínu mati alveg réttilega að fiskveiðistefna Færeyinga líktist mjög fiskveiðistefnu Kvennalistans. Ég tek alveg heils hugar undir það. Ég held að þarna fari mjög saman sjónarmið Færeyinga og Kvennalistans. Én ég hlýt auðvitað að benda á efnahagslegan árangur af efnahagsstarfseminni í Færeyjum og hér á Íslandi og efnahagslega stöðu Færeyja og Íslands. Og hvaða möguleika Færeyingar hafa á að byggja upp velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu af þeirri efnahagsstarfsemi sem þar fer fram. Það væri ekki síst ástæða fyrir Kvennalistann einmitt að taka þetta til skoðunar. Það er líka ástæða til að rifja upp að það eru aðeins fáir dagar síðan að forstöðumaður hafrannsóknarstofnunar Færeyinga gaf út mjög alvarlega viðvörun um hvert stefndi með stöðu fiskstofnanna út frá því nýja fiskveiðistjórnarkerfi sem þeir hafa tekið upp. Ekki nóg með það heldur gaf aðalbankastjóri þeirra út sams konar viðvörun um það hvert stefndi í efnahagsmálum ef þeir breyttu ekki sinni fiskveiðistjórnun. Allt þetta held ég að sé ástæða fyrir Kvennalistann að skoða. En ég held að upp úr standi, og því verður ekki breytt nema Kvennalistinn breyti um stefnu í sjávarútvegsmálum, að Kvennalistinn fylgir sömu stefnu og Færeyingar gera í þessum efnum og afleiðingarnar hljóta líka að verða þær sömu hér og þar sem þessari stefnu er fylgt í framkvæmd.