Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:41:11 (4919)

1997-04-03 11:41:11# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:41]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það er mikill áhugi bæði sjómanna og útvegsmanna að hafa virkt eftirlit með fiskveiðunum. Það er mikið hagsmunamál, bæði fyrir sjómenn og útvegsmenn, að það sé gert. Almannahagsmunir eru líka þar á bak við. Það hefur verið samstaða um það milli fulltrúa sjómanna og útvegsmanna sem komu að samningu þessa frv. að eðlilegt væri að taka á þeim vandamálum sem stundum hafa komið upp í þessum tilvikum og það hefur verið mikill áhugi á því af hálfu skipstjórnarmanna og útvegsmanna að taka þátt bæði í rannsóknum og í að auðvelda eftirlitið. Ég held að í því tilviki sem hér er verið að taka á vanda, þá ætti Alþingi frekar að stuðla að því að við getum leyst hann til þess að hafa virkt eftirlit, en að draga úr því. Auðvitað er þetta vandasamt og ég get tekið undir það með hv. þm. að þetta er ekki einfalt mál. Sem betur fer eru það undantekningartilvik að skipstjórnarmenn taki ekki þátt í athugunum á tilteknum svæðum þegar eftirlitsmenn óska eftir því. En það geta verið mjög brýnir hagsmunir að það sé gert.