Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:07:29 (4925)

1997-04-03 12:07:29# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:07]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er nú að verða næsta hefðbundið má segja í umræðum um stóriðjumál að fyrst talar hæstv. iðnrh. og mælir að sjálfsögðu fyrir sínum málum og síðan talar talsmaður Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna fyrir sama máli og bætir um betur. Ég skaut því að iðnrh. um daginn að hann ætti nú kannski bara að bregða sér frá upp í ráðuneyti og sinna sínum pappírum sem örugglega bíða eftir honum óþolinmóðir eftir lausn, án þess að ég sé að segja að hann eigi þar fleiri pappíra en aðrir ráðherrar, af því talsmenn Alþfl. standa vaktina svo vel fyrir hann.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég treysti mér ekki til þess að bera lof á málið eins og hv. síðasti ræðumaður gerði þó að ég hlýði að sjálfsögðu vandlega á hann og veit að hann ber hag síns umdæmis og umhverfis mjög fyrir brjósti. Það er kannski að nokkru leyti vandi þeirra manna sem stundum fjalla um mál af þessu tagi að þeir eru dálítið bundnir af þeim hagsmunum sem eru í kringum þá í kjördæmum þeirra.

Ég ætla hins vegar, herra forseti, á þeim stutta tíma sem ég hef fram að hádegishléi að víkja að nokkrum almennum atriðum en segja í fyrsta lagi að mér finnst að það vanti framtíðarsýn í þessu máli. Það er ekki lagt fram sem hluti af framtíðarsýn í atvinnumálum af neinu tagi. Það sama á við um frv. um álver á Grundartanga sem við ræddum hér fyrir nokkru. Það er ekki reynt að draga upp þá framtíðarsýn í atvinnuþróun sem er æskileg að mati stjórnvalda. Ég tel að hún sé í raun og veru þríþætt.

Það er í fyrsta lagi auðvitað sú framtíðarsýn sem byggist á því að virkja hugvit landsmanna sem er að skila vaxandi auði og arði í þjóðarbúið á hverju einasta ári. Stór hugbúnaðar- og tölvufyrirtæki eru núna að ráða til sín tugi ungra íslenskra sérfræðinga sem eru að skapa verðmæti sem hvorki eru fiskur, túrismi né ál, en skipta þjóðarbúið samt gríðarlega miklu máli. Þetta er í raun og veru það mikilvægasta þegar upp er staðið og er að nokkru leyti árangur af þeirri menntastefnu sem hefur verið fylgt á Íslandi, árangur af því að Lánasjóður íslenskra námsmanna var í lagi og skilaði þessu fólki árangri og jákvæðum niðurstöðum í háskólanámi sem er núna bersýnilega verið að eyðileggja á öðrum vettvangi.

Í annan stað felst þessi framtíðarsýn að mínu mati í sjávarútveginum, hún liggur þar. Það er bersýnilegt að sjávarútvegurinn getur á næstu árum skilað, bæði vegna aukinna þorskveiða, líka vegna síldveiða og af öðrum ástæðum, stórauknum verðmætum, margföldum á við það sem menn eru að tala um í stóriðjumálunum.

Í þriðja lagi eru það svo auðvitað orkumálin sem eiga að skila okkur arði. Þar er spurningin kannski fyrst og fremst um það hversu hratt við eigum að fara vegna þess að það eru verðmæti sem ekki hlaupa frá okkur heldur eru á sínum stað.

Að lokum eru það svo auðæfin sem felast í landinu sjálfu, hreinleika þess og náttúru Íslands, sem m.a. birtast okkur í stórvaxandi tekjum af ferðamannaþjónustu sem hafa verið um 10% að raungildi núna um langt árabil, en menn eru að tala um að verði kannski eitthvað minni á næstu árum. En þarna er samt sem áður um auðæfi að ræða.

Þetta er framtíðarsýnin. Og mér finnst að hún eigi að vera í forgrunni. Björt, íslensk framtíðarsýn eigi að vera í forgrunni í uppbyggingu atvinnumála frekar heldur en stóriðjan sem slík.

Varðandi hins vegar það frv. sem hér liggur fyrir þá er verið að taka á takmörkuðum þætti atvinnuþróunarinnar og raunar ekki mjög stórum, vegna þess að hér er verið að tala um að heimila stækkun á þessu fyrirtæki sem þýðir frambúðarstörf fyrir u.þ.b. 30 manns. Það er nú í raun og veru öll stærðin á þessu dæmi. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að fara yfir það jafnrækilega og ella vegna þess að þrátt fyrir allt er ekki hægt að segja að um stórtíðindi sé að ræða að öðru leyti en lýtur að breyttri eignaraðild. Að öðru leyti eru hér ekki stórtíðindi uppi að mínu mati. Þau 30 störf sem hér er um að ræða eru vissulega þýðingarmikil. Hins vegar ber að nefna það í leiðinni að á sama tíma og verið er að tala um að þetta séu mikil jákvæð pólitísk tíðindi þá er verið að loka verksmiðju hérna skammt frá þar sem eru og hafa verið í vinnu á milli 70 og 100 manns. Það er alvarlegt umhugsunarefni og líka það að þau mál eru í raun og veru aldrei rædd á Alþingi sem ég held að sé vegna þess að sú verksmiðja er í Reykjavík. Ég hugsa að hún hefði verið rædd oftar ef hún hefði verið utan kjördæmismarka Reykjavíkur. Að nokkru leyti hefur Áburðarverksmiðjan goldið þess að vera í Reykjavík. Þá er ég ekki að tala um viðhorf Reykvíkinga til hennar heldur það að þegar um er að ræða atvinnuþróunartækifæri á landsbyggðinni þá taka menn gjarnan miklu frekar við sér en þegar um Reykjavík er að ræða.

Ég vil þá, herra forseti, víkja að frv. sem slíku og segja að kosturinn við það er sá að það er skýrt. Það er bara lagt hér fyrir það sem á að taka afstöðu til. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra og biðja hann að hugleiða það, og einnig formann nefndarinnar sem er hér viðstaddur, hvort ekki þurfi að breyta fleiri atriðum í lögunum um járnblendiverksmiðjuna. Þau eru úrelt. Það eru nokkur ákvæði, t.d. um skattamál, í lögunum eins og þau eru, t.d. í 7. gr. varðandi skattfrjáls framlög í varasjóði og fleira sem byggist í raun og veru á skattalögunum eins og þau voru 1972, en eru allt annar veruleiki í dag. Þannig að ég vil benda hv. iðnn. og hæstv. ráðherra á það hvort ekki þurfi að laga í leiðinni mörg fleiri atriði í lögunum um járnblendiverksmiðjuna, sem eru barn síns tíma og voru sett auðvitað miðað við þær aðstæður að ríkisstjórnin eða ríkið hefði alla forustu og ætti meiri hluta í fyrirtækinu. Þess vegna hefði ég viljað sjá að nefndin fjallaði um það hvort ekki ætti að bæta við fleiri atriðum, þó að ég kunni út af fyrir sig vel að meta það að hin pólitísku álitamál eru lögð fyrir í frv. eins og það liggur fyrir. Ég tel að það sé jákvætt að Alþingi geti tekið afstöðu til málsins pólitískt. En það er allt annað mál t.d. í frv. um álverið á Grundartanga. Þar finnst mér að vanti pólitískt skýran prófíl á frv. sem slíkt, það sé of almennt. En þetta er í raun og veru konkret eins og það liggur hér fyrir og þó að ég hafi ýmsar skoðanir á málinu þá tel ég að frá sjónarmiði Alþingis sé það jákvætt.

Varðandi síðan frv. að öðru leyti og efni þess þá ætla ég fyrst að víkja að spurningunni um eignarhaldið. Og ég ætla að slá því föstu hér og bera það undir hæstv. ráðherra ef hann vill fara um það einhverjum orðum í máli sínu, að ég tel að það hafi verið jákvætt að Íslendingar hafa ráðið þessu fyrirtæki, tvímælalaust jákvætt. Ég tel að það hafi fyrst og fremst verið jákvætt vegna þess að þar með var stefna og starfsemi fyrirtækisins löguð að almennri íslenskri atvinnustefnu.

[12:15]

Ég minni á að í upphafi var gert ráð fyrir því að Íslendingar borguðu erlenda eignaraðilanum, líklega í upphafi Union Carbide, 3% af veltu fyrirtækisins í tækniþjónustukostnað. Þetta er auðvitað alveg dæmigert þriðja heims ákvæði. Þegar tæknivæddar stórþjóðir voru að setja niður verksmiðjur í nýlenduríkjum var þeim ekki treyst fyrir að sjá um tæknilega forustu og tæknilega vinnu í tengslum við viðkomandi fyrirtæki og þess vegna voru slík ákvæði sett þarna inn. Þetta var í upphaflegu frv. og upphaflegu lögunum um þetta mál. Þetta breyttist. Og það breyttist fyrst og fremst vegna þess að Íslendingar áttu þarna meiri hluta en líka vegna þess að þar var og hefur verið í langan tíma mjög öflugur forstjóri sem hefur haft metnað til að halda þannig á málum að sómi væri að fyrir Ísland að því er þetta varðar og ég tel ástæðu til að þakka honum það alveg sérstaklega. Jafnframt hefur það verið tryggt að þessir peningar hafa verið notaðir að hluta til í rannsóknar- og þróunarstarfsemi á Íslandi í fyrirtækinu. Það hefur orðið til þess að fyrirtækið stendur tæknilega miklu betur en það hefði annars gert af því að þeir peningar hafa verið notaðir í fyrirtækinu á þeim forsendum sem íslensk forusta þess og forstjóri hafa ákveðið. Ef þetta hefði ekki verið gert hefðu peningarnir verið notaðir, ávaxtaðir og ákvarðaðir í Kristiansand, í miðstöðvum fyrirtækisins. Þetta tel ég að skipti gríðarlega miklu máli. Þess vegna finnst mér rangt að gera lítið úr því að íslenska eignaraðildin hafi í raun og veru hjálpað til við að laga þetta fyrirtæki og gera það að betra fyrirtæki fyrir Ísland og fyrir starfsmenn fyrirtækisins.

Ég held að þetta sér gríðarlega stórt atriði. Þess vegna vildi ég gjarnan, herra forseti, að áhersla yrði lögð á að menn muni, um leið og hlut ríkisins er breytt í fyrirtækinu, að það var og hefur verið jákvætt að Íslendingar réðu þessu og það gæti út af fyrir sig verið það áfram ef menn vildu setja sig í þær stellingar.

Nú háttar þannig til, herra forseti, að meiningin var að hætta kl. 12.15 og ég hefði þurft að fara til annarra verka þannig að það er spurning hvort ég mætti halda áfram ræðu minni þegar umræðan hefst á ný.

(Forseti (ÓE): Ef hv. þm. óskar að gera hlé á ræðu sinni þá verður það gert en forseti vill spyrja vegna sérstakrar óskar þess sem næstur er á mælendaskrá hvort athugasemdir séu við að sá hv. þm. fái að flytja stutta ræðu.)

Það eru að sjálfsögðu athugasemdir við það, herra forseti, bæði er leitt að missa af ræðunni og eins þætti mér leitt ef hv. þm. flytti stutta ræðu en þar sem þingmaðurinn mun hafa óskað eftir þessu verð ég væntanlega að beygja mig undir það, eða hvað --- og fæ ég að koma þá inn á eftir?

(Forseti (ÓE): Já. Hv. þm. gerir hlé á ræðu sinni.)