Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 13:44:57 (4936)

1997-04-03 13:44:57# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[13:44]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Málshefjandi hefur gert grein fyrir spurningum sem hann sendi mér nú rétt fyrir hádegið og hafa yfirskriftina: Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu. Sumar spurningarnar fjalla um útgáfu byggingarleyfa og ýmislegt sem framkvæmdir varðar sem eru á þessu stigi máls alls ekki á vegum umhvrn. Það gefur ekki út byggingarleyfi eða önnur framkvæmdaleyfi varðandi framkvæmdir á vinnustað en það gæti auðvitað komið til þess ef slík leyfi eru á einhverju stigi kærð til ráðuneytis. Útgáfa starfsleyfis er mál sem sá sem hér stendur ber ábyrgð á. Tímans vegna er því miður ekki mögulegt að fara ítarlega yfir starfsleyfið þó að ástæða hefði verið til þess en mig langar aðeins að benda á nokkrar áherslubreytingar sem gerðar hafa verið á starfsleyfinu frá upphaflega auglýstri tillögu.

Hollustuvernd ríkisins tók athugasemdir og kærur til meðferðar. Við afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar til ráðherra og starfsleyfis fyrir álver Norðuráls er að finna ýmsar breytingar sem stofnunin gerði á upphaflega auglýstum tillögum svo sem eins og að óheimilt er að hefja framkvæmdir við stækkun álvers ef vöktun á rekstrartíma fyrsta áfanga álversins sýnir að forsendur og áætlanir hvað varðar mengun standast ekki. Gert er ráð fyrir að samráð sé haft við heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis sem hefur gert miklar athugasemdir við framganginn og það upplýst um stöðu mála.

Í þriðja lagi er talað um að þynningarsvæði vegna flúoríðmengunar er skilgreint óháð öðru þynningarsvæði.

Í fjórða lagi eru sett inn nokkur ákvæði sem draga úr loftmengun. Gert er ráð fyrir að hönnun á þekjum og afsogsbúnaði frá rafgreiningarkerum og skipulag við opnun kera miðist við það að minna en 1,5% af kergasi sleppi úr kerskála. Gerð er krafa um að löndunar- og flutningskerfi fyrir súrál til kerskála álversins skuli vera lokað þannig að súrálsryk sem berst til umhverfis verði í lágmarki.

Varðandi úrgang er sett inn ákvæði um skráningu alls úrgangs og að nýta beri endurvinnanlega hluti hans.

Að lokum er sett inn ákvæði um að mæla skuli flúoríð í beinum grasbíta í nágrenni álversins og að framkvæmdar skuli mælingar til samanburðar við bakgrunnsrannsóknir sem gerðar hafa verið á svæðinu áður en rekstur álvers hefst.

Til viðbótar við þetta hefur síðan ráðuneytið í sinni meðhöndlun á málinu bætt við nokkrum viðbótarkröfum til þess að mæta ábendingum og kröfum andmælenda, eins og að haldnir skuli ítarlegir kynningarfundir annað hvert ár um umhverfismál álversins þar sem á fundunum skal kynna aðilum varnir gegn mengun ytra umhverfis, árangur í mengunarvörnum og niðurstöður mælinga og umhverfisvöktunar. Í starfsleyfinu er gert ráð fyrir að verði starfslok, þ.e. Norðurál hætti framkvæmdum og starfsemi á gildistíma starfsleyfisins, skuli það ganga vel og skilmerkilega frá öllu umhverfi og gerðar eru auknar kröfur um umhverfisvöktun eins og t.d. að settar verði upp mælistöðvar, m.a. sunnan Hvalfjarðar sem ekki var áður. Gerðar eru kröfur um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar verksmiðjunnar úr 60 þúsund tonna ársframleiðslunni. Þannig er nú gerð krafa að ef fram koma við umhverfisvöktun fyrsta áfanga verksmiðjunnar skaðleg áhrif sem ekki voru ljós áður, er ekki heimilt að hefja framkvæmdir við stækkun verksmiðjunnar fyrr en að loknu frekara mati á umhverfisáhrifum.

Minna má á að umhvn. Alþingis eða meiri hluti hennar hefur í ítarlegri skýrslu sett fram þá skoðun að viðmiðanir í starfsleyfinu séu fullnægjandi og einnig segir í lokaorðum nefndarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Niðurstaða meiri hluta umhvn. er sú að kröfur þær sem gerðar eru í starfsleyfistillögunum fyrir álver á Grundartanga séu nægjanlegar.``

Að teknu tilliti til þessara þátta, sem ég hef m.a. reynt að rekja í stuttu máli nokkur ný áhersluatriði og þess sem að öðru leyti eru í starfsleyfinu, taldi ég eðlilegt að málsaðilar allir fengju fyrr en síðar að sjá skilyrði stjórnvalda í starfsleyfinu. Það lá orðið fyrir vinna sérfræðinga í Hollustuverndinni, niðurstaða eða úrskurður stjórnar Hollustuverndar sem send var í tillögu til ráðherra og síðan vinna embættismanna og sérfræðinga á vegum ráðuneytisins. Það væri því ekki ástæða til þess að draga útgáfu starfsleyfisins eða bíða þann tíma sem kærufrestur til úrskurðar nefndarinnar varir. Starfsleyfið er síðan afhent gegn yfirlýsingum sem undirritaðar eru m.a. af fulltrúa Norðuráls og fulltrúum ráðuneytisins um kærufresti og fyrirvara af hálfu ráðuneytisins. Hv. málshefjandi hefur þegar lesið það upp þannig að kannski er ástæðulaust að eyða tíma í að fara yfir það, en þar er m.a. skýrt kveðið á um að ef þessari fyrrgreindu ákvörðun verði vísað til úrskurðarnefndarinnar, þá gæti ráðuneytið þurft að taka tillit til þeirrar niðurstöðu í samræmi við íslensk lög og stjórnarhætti. Og það hlýtur að teljast eðlilegt og mikilvægt að slíkt sé haft inni miðað við það ferli sem í gangi er og ég hef ekki reynt að gera lítið úr.

Ég tel að með þessum þáttum sem ég hef rakið hafi ég nánast svarað tveimur fyrstu liðum í spurningum hv. málshefjanda. En hann talar að vísu, til þess að rétt sé nú rétt og því sé haldið til haga, um að aðeins séu tvær vikur liðnar frá því að stjórn Hollustuverndar ríkisins sendi frá sér tillögurnar, þá eru þær nánast þrjár. Bréf Hollustuverndarinnar til ráðuneytisins er dagsett 6. mars, móttaka þess staðfest 7. mars, starfsleyfið gefið út 26. mars og þó að hér sé sagt að kvöldi, þá skiptir það ekki máli. Það er síðdegis gert, rétt fyrir kvöldmat eftir vinnu í ráðuneytinu undanfarna daga og þar eru vinnudagar stundum langir. Það veit hv. málshefjandi líka. Það er ábyggilega oft svo hjá honum. Hann las síðan upp úr útvarpsviðtali sem við mig er haft 12. mars sl., þar sem nákvæmlega er sagt, með leyfi forseta:

,,Við erum núna í ráðuneytinu að líta yfir það mál allt saman og það tekur tíma svoleiðis að ég sé ekki að það sé líklegt að starfsleyfi verði gefið út alveg á næstu dögum.``

Þetta er 12. mars. Starfsleyfið er gefið út 26. mars. Þar er nær hálfur mánuður á milli.

Síðan spyr hv. þm. í þriðja tölulið fyrirspurnar sinnar: ,,Telur ráðherra að hann sé stjórnvald æðra úrskurðarnefndinni?`` Í 4. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit segir, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.``

Síðan má segja að samkvæmt stjórnarskrá sé það ráðherra sem fer með æðsta vald í málefnum af þessu tagi. Starfsleyfi sem útgefið er af ráðherra verður ekki borið undir úrskurðarnefnd, en að sjálfsögðu er það borið undir dómstóla ef málsaðilar telja ástæðu til.

Þá spyr hv. þm. í fjórðu spurningu: ,,Telur ráðherra auk þess rétt að gefa út starfsleyfi á meðan stjórn Hollustuverndar ríkisins er að fjalla um kæru er varðar lagalega stöðu reglugerðarinnar?`` Í mínum huga og af hálfu ráðuneytisins er lagaleg staða reglugerðarinnar algjörlega ljós þannig að það eru engin vafamál uppi þar um málsmeðferð af okkar hálfu. Að öðru leyti er þessi kæra ekki á borði ráðuneytisins. Hún hefur ekki verið send þangað og hún getur auðvitað ekki tafið störf ráðuneytisins eða stoppað það að menn haldi áfram að vinna þar sitt verk.

Í fimmta lagi er spurt hvort eðlilegt sé að gefa út byggingarleyfi til álbræðslunnar og að framkvæmdir við hana hefjist áður en frv. til laga hefur verið afgreitt og áður en umfjöllun um starfsleyfi er lokið. Ég lít þannig á að hér sé um að ræða aðskilin mál. Starfsleyfið er það sem undir okkur heyrir og ég hef hér verið að gera grein fyrir, en við gefum ekki út byggingarleyfi og Alþingi fjallar um frv. þannig að hér er um aðskilin mál að ræða sem geta ekki heldur tafið formlega afgreiðslu eða störf í ráðuneytinu.

Varðandi það hvort ráðherra hafi ráðgast við stjórn Hollustuverndar áður en hann tók ákvörðun, er svarið: Nei.

,,Hvaða áhrif mun það hafa á starfsleyfi álbræðslunnar ef úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að starfsleyfinu frá 26. mars 1997 skuli breytt?`` Um það er að segja eins og áður hefur komið fram að úrskurðarnefndin breytir ekki starfsleyfi sem gefið er út af ráðherra, en niðurstöður hennar geta orðið á þann veg að ráðuneytið þurfi að taka tillit til niðurstöðu nefndarinnar, svo sem áskilið er í fyrirvaranum við starfsleyfisútgáfuna og ég hef þegar gert grein fyrir.

Síðan spyr hv. málshefjandi hvort ráðuneytið hafi lagt mat á hvaða afleiðingar það geti haft í för með sér ef starfsleyfi er breytt á síðustu stigum, þar á meðal á hugsanlega skaðabótakröfu. En ráðuneytið telur að með þeim fyrirvara sem undirritaður er af fulltrúa Norðuráls sé ríkið varið gegn hugsanlegum skaðabótakröfum.

Í níunda lagi spyr hv. þm. hvort allra tilskilinna leyfa og heimilda hafi verið aflað með lögformlegum hætti, þ.e. byggingarleyfis, leyfis til umferðar um eignarlönd o.s.frv. Þessu hef ég reyndar líka svarað áður. Um þetta er að segja að ráðuneytið gefur ekki út byggingarleyfi eða önnur leyfi um framkvæmdir eða umferð um land á byggingarstað. Það hlýtur að vera mál sveitarstjórna og þeirra sem fara með vald heima á svæði, heima á byggingarstað, en getur auðvitað eins og ég sagði í upphafi, komið síðar til ráðuneytis ef talið er að ekki hafi verið rétt að staðið eða málið sé kæranlegt.

Að lokum eru tvær spurningar um mál sem við höfum oft áður rætt hér, þ.e. áhrif á gróðurhúsalofttegundirnar og viðbótarlosun vegna starfsemi stóriðju. Það höfum við oft rætt áður og hv. málshefjanda og hv. þingmönnum öðrum er ljóst hvaða ferli er þar í gangi af hálfu ráðuneytisins og íslenskra stjórnvalda. Við erum í samningum á alþjóðlegum vettvangi um þetta mál og við munum halda áfram að gæta þar okkar sjónarmiða sem við höfum margsinnis skýrt frá hér og hafa komið fram m.a. í svari mínu til hv. málshefjanda hér við skriflegri fyrirspurn sem kom fyrir nokkrum dögum eða nokkrum vikum inn í þingið og ég verð, hæstv. forseti, að vísa til þess þar sem tíma mínum er lokið en ég fæ örlítinn tíma aftur síðar í umræðunni.