Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:14:53 (4940)

1997-04-03 14:14:53# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:14]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þann 14. janúar 1997 lýsti stjórn Búnaðarsambands Kjalarness fullri andstöðu sinni við byggingu álvers á Grundartanga og tók þannig undir sjónarmið hreppsnefndar Kjósarhrepps. Ekki vinnst tími til þess hér að hrekja rök búnaðarsambandsins fyrir þessari afstöðu, en þau eru m.a. þau að slík bygging valdi umhverfisspjöllum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir landbúnaðinn í héruðunum sem liggja að Hvalfirði. Í ályktun búnaðarsambandsins segir m.a., með leyfi forseta:

,,Vaxtarbroddar nútímalandbúnaðar, svo sem lífrænn landbúnaður, ferðaþjónusta, fjörunytjar, stangveiði og almenn útivist, samrýmast alls ekki nábýli við stóriðju sem mun breyta ásýnd landsins og spilla hreinleika þeirra auðlinda er bændur nytja. Með bréfi til Skipulagsnefndar ríkisins minna landeigendur á Neðra-Hálsi á að efnahagslegri afkomu þeirra sé ógnað verði af umræddri byggingu.``

Í samþykkt er stjórn Vors, sem er félag bænda í lífrænni ræktun og gerð var á fundi þeirra 22. janúar 1997, segir m.a., með leyfi forseta:

,,... ef slík fyrirætlan gangi eftir hljóti það að teljast aðför að íslenskri náttúru og öllum þeim hagsmunaaðilum öðrum sem landið nytja á þessum slóðum, hvort sem er til matvælaframleiðslu eða markaðsvæðingar í ferðaþjónustu. Þess vegna beinir fundurinn þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að áðurnefnd staðsetning á álveri verði nú þegar tekin til endurskoðunar og að mannvirðing og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi þegar ákvarðanir um frekari stóriðju hér á landi verði teknar.``

Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur færir fyrir því ítarleg rök í grein í Morgunblaðinu í síðasta mánuði að engin niðurstaða önnur en alger höfnun starfsleyfis sé vísindalega og siðferðilega viðunandi. Hann bendir m.a. á að þótt staðbundin áhrif koltvísýrings valdi út af fyrir sig ekki áhyggjum hafi þjóðir heimsins tekið höndum saman um að takmarka losun hans út í andrúmsloftið. Enn fremur vekur Guðmundur athygli á því að nábýli við járnblendiverksmiðjuna valdi því að blöndun brennisteinstvíoxíðs frá álverinu og kísiljárnryks frá járnblendiverksmiðjunni muni að öllum líkindum flýta mjög fyrir myndun brennisteinssýru úr útblæstri beggja verksmiðjanna ef áætlað magn losunar er 21--28 kg af brennisteinstvíoxíði fyrir hvert tonn af áli. Þetta magn jafngildir 16--20 tonnum af brennisteinssýru á dag. Nábýli þessara verksmiðja virðist því síður en svo ákjósanlegt. --- Má ég biðja um þögn í þingsalnum meðan ég tala.

(Forseti (GÁ): Forseti biður um að þingmenn hafi hljóð í þingsal og hlýði á umræðuna.)

Þrátt fyrir áðurnefnd rök eins af okkar virtustu vísindamönnum, þrátt fyrir ógnun við þá starfsemi sem fyrir er í firðinum og þrátt fyrir að fyrir liggi óafgreidd kæra Kjósarhrepps til úrskurðarnefndar virðist ætlun umhvrn. vera sú að keyra þetta mál fram þótt leidd hafi verið að því rök að umhverfismatið sé algerlega ófullnægjandi grundvöllur starfsleyfis fyrir álver á Grundartanga. Þetta verða því að teljast afar óvönduð vinnubrögð og vafasamt að gefa út starfsleyfi að svo komnu máli og raunar vafasamt að slíkar leyfisveitingar standist eðlilegar slíkar stjórnsýslukröfur þar sem lýðræðislegu úrskurðarferli er ekki lokið. Almenningur hlýtur að eiga heimtingu á að vita hvað veldur þessu óðagoti. Hver eru rökin fyrir því að setja margumrætt álver niður einmitt á þeim stað þar sem það er að fjölmargra dómi til hinnar mestu óþurftar? Eru ekki til staður á Íslandi sem betri sátt næst um að hýsa skuli þessa verksmiðju?

Ég vil enn minna á að við höfum lagt umtalsvert fé til að skapa ímynd Íslands sem hins óspillta lands með hreint loft, ósnortnar víðáttur, ómengaðar laxveiðiár og hingað til lands kemur árlega fjöldi erlendra ferðamanna til að njóta þessa með okkur og sá fjöldi fer vaxandi. Með því að setja niður mengandi stóriðju mitt í blómlegu landbúnaðarhéraði þar sem umtalsverð uppbygging í ferðaþjónustunni hefur átt sér stað erum við að gera aðför að þessari ímynd.