Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:24:49 (4942)

1997-04-03 14:24:49# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir gagnrýni á málsmeðferð umhvrh. Umræðan snýst um kæru til sérstakrar lögskipaðrar úrskurðarnefndar sem er sjálfstæður lögformlegur aðili. Það er harðlega gagnrýnt að umhvrh. skuli taka ákvarðanir áður en úrskurður þessarar lögskipuðu nefndar liggur fyrir. Slík vinnubrögð, virðulegi forseti, eru hrokafull og þau fótumtroða lýðræðið.

Í lýðræðisríki er mjög mikilvægt að eiga alltaf möguleika á að leita réttar síns telji einstaklingur eða hópur á sér brotið eða að ekki sé farið að lögum og reglum í máli eða málsmeðferð. Þennan rétt höfum við sem þjóð sett í öndvegi. Það eru stjórnarskrárbundin mannréttindi að mega leita réttar síns, bera mál sitt undir dómstóla. Í okkar réttarfari er möguleiki á áfrýjun til æðra dómstóls. Okkur finnst það sjálfsagður og eðlilegur réttur. Við höfum sett lög um og sett á laggir embætti umboðsmanns Alþingis þar sem einstaklingar geta borið undir umboðsmann ef þeir telja á sér brotið í stjórnsýslunni. Umboðsmaður hefur eftirlitsskyldu með Alþingi. Við tryggjum tjáningar- og andmælarétt íbúanna, t.d. hvað varðar skipulags- og byggingarmál þannig að íbúar bæjarfélaga eigi þess ávallt kost að leita réttar síns ef breytingar eru gerðar á umhverfinu sem brjóta í bága við hagsmuni eða réttarstöðu þeirra.

Við tryggjum áfrýjun til æðra stjórnvalds og heimildin til áfrýjunar ákvörðunar, hvort heldur er stjórnvaldsákvörðunar eða dómsniðurstöðu, er stjórnarskrárbundin manréttindi. Í vestrænum lýðræðisríkjum líta menn á þennan rétt sem grundvöll mannréttinda. Markmið með áfrýjunarstigi er auðvitað fyrst og fremst það að tryggja réttaröryggi borgaranna. Dómsniðurstaða eða ákvörðun stjórnvalds getur verið röng. Hún getur verið röng vegna þess að ekki eru nægilegar upplýsingar fyrir hendi. Niðurstaðan byggir ekki á réttum gögnum eða niðurstaða byggir á rangri túlkun laga. Þetta getur auðvitað hent alla. Þess vegna er svo nauðsynlegt, vilji menn tryggja borgurunum réttarríki, að hægt sé að bera ákvörðunina undir annan aðila, æðri dóm eða stjórnsýslustig.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á þennan rétt til að draga það fram að í lýðræðinu felst virðing fyrir rétti þegnanna og að tekið sé tillit til minni hluta. Í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, er 26. gr. ætlað að tryggja þennan mikilvæga rétt íbúanna.

Hér er alvarlegt mál á ferð. Það er ekki beðið eftir niðurstöðu áfrýjunarnefndar þrátt fyrir að kært hafi verið til nefndarinnar. Í 26. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, virðulegi forseti, er sagt að séu aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar, þ.e. stjórnar Hollustuverndar ríkisins, sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar er starfar samkvæmt lögum þessum. Þetta er grafalvarlegt og engin leið að ráðherra tali þannig að hann muni bara taka tillit til þess eftir á ef úrskurðarnefndin komi með athugasemdir.

Virðulegi forseti. Það er ekki beðið eftir niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar en vaðið af stað með starfsleyfi og byggingarleyfi. Ráðherrann segir að hann gæti þurft að taka tillit til niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar en segir jafnframt að úrskurðarnefndin breyti ekki starfsleyfinu. Þetta er kjarni máls. Úrskurðarnefndin breytir ekki starfsleyfinu sjálfkrafa eftir á en hann gæti þurft að taka tillit til niðurstöðunnar eftir á verði hún á annan veg en hann kýs.

Þessi vinnubrögð eru ráðherra til mikils vansa. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur stutt ríkisstjórnina í hennar álversáformum og styður þessar framkvæmdir. Það hefur komið fram í umræðum í þessum þingsal, en við styðjum ekki þessi vinnubrögð, þau eru vond. Ég ræði ekki innihald starfsleyfisins né byggingarleyfið því það er mín bjargfasta skoðun að ráðherra eigi ekki að veita þessi leyfi fyrr en áfrýjunarnefnd hefur afgreitt málið frá sér. Annað er brot á lýðræðisreglum og það er alvarlegt.

Formaður umhvn. atyrti málshefjanda fyrir þessa umræðu, en varðandi þetta mál, m.a. tímasetningu leyfanna, á ég samleið með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.