Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:30:19 (4943)

1997-04-03 14:30:19# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:30]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Í áliti meiri hluta umhvn. um álver á Grundartanga eru gerðar ýmsar athugasemdir við starfsleyfi fyrir þetta fyrirtæki þrátt fyrir að nefndin hafi ekki lagst gegn því að starfsleyfi yrði gefið út eða því heimiluð staðsetning á þeim stað sem það verður samkvæmt úrskurði sem þegar liggur fyrir.

Efasemdir, sem ýmsir okkar hafa haft um það hvernig á þessum málum hefur verið haldið, hafa orðið að víkja fyrir því hversu langur aðdragandi hefur verið að málinu, bæði skipulagslegur og atvinnulegur, af hálfu stjórnvalda og hálfu sveitarstjórna sunnan Skarðsheiðar sem hafa af atvinnu\-ástæðum talið mjög brýnt að koma upp fleiri atvinnukostum á þessu svæði. Það er ástæðan fyrir því að við höfum látið víkja og treystum því að stjórnvöld leysi úr vandamálum sem við vitum að eiga eftir að koma upp og eru samfara staðsetningu álvers í landbúnaðarhéraði.

Við þekkjum það af reynslunni af járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga að hægt er að reka slíkar verksmiðjur þannig að þær eru í ósátt við umhverfi sitt og fólkið og það er eitt af þeim málum sem við höfum bent á að þurfi að taka rækilega á þannig að eftir verði tekið. Það er að sjálfsögðu alls ólíðandi að opinber stofnun eins og Hollustuvernd skuli ekki fylgjast með verksmiðju eins og járnblendiverksmiðjunni og skuli ekki krefjast þess að mengunarvarnir séu með fyllsta og fullkomnasta hætti sem krafist er í starfsleyfinu. Það vitum við af dæmum sem okkur hafa verið sýnd af fólkinu í Kjós og víðar í Hvalfirðinum að reykur hefur liðast um Hvalfjörðinn dögum og mánuðum saman án þess að nokkrar athugasemdir hafi komið fram við það af hálfu Hollustuverndar og þrátt fyrir að Hollustuvernd hafi samkvæmt starfsleyfi alla burði til þess að gera hverja þá rannsókn og hverjar þær athugasemdir sem henni sýnist og láta bæta úr eftir þeim reglum sem Hollustuvernd setur sér. Að þessu leyti hefur þetta sérstaka upphlaup, sem hefur orðið vegna álversins, orðið miklu kröftugra og menn hafa haft miklu meira til síns máls en annars hefði verið. Þess vegna verð ég að beina því til hæstv. umhvrh. að hann láti þegar koma fram með hvaða hætti á að taka á þeim vandamálum sem hafa skapast hjá Hollustuvernd ríkisins og hvernig að umhverfisvöktun skuli staðið í samráði við íbúa svæðisins.

Við vitum að ýmis önnur mál koma til með að valda erfiðleikum við rekstur álvers á þessu svæði en það eru vatnsöflunarmálin sem sannarlega munu verða vandamál ef stækka á álverksmiðjuna úr 60 þús. tonnum upp í 180 þús. tonn. Ég hef lagt mig fram um að afla upplýsinga um hvernig menn ætla sér að leysa það vandamál þegar þar að kemur. Eftir þeim upplýsingum sem ég fæ er meiningin að verksmiðjan verði loftkæld eða með sjókælingu því að ljóst er að vatnið sem er til staðar á þessu svæði er ekki nægjanlegt til að fullnægja rekstrarþörfum umfram 60 þús. tonn. Það er staðreynd og ég hlýt að sjálfsögðu að gagnrýna að það skyldi ekki koma upp fyrr í umræðunni að slík vandamál gætu skapast.

Ég held samt sem áður að menn hafi þegar gert sér grein fyrir þessu og það er unnið að því að finna nýjar leiðir til kælingar. Þegar við lítum á útgáfu starfsleyfisins sem slíks er ljóst að stjórnvöld og sveitarstjórnir á svæðinu hafa sagt a og þar með þurfa þeir að segja b. Við getum ekki dregið með einhverjum óeðlilegum hætti að gefa út þau leyfi sem nauðsynleg eru þannig að byggingarframkvæmdir geti farið af stað. Ég hlýt, eins og aðrir, að treysta því að ráðuneytið fari að lögum og reglum varðandi útgáfu slíkra leyfa, að gætt sé fyllsta lýðræðis þannig að menn geti sætt sig við það. Þar til annað kemur í ljós mun ég treysta því að ráðuneytið hafi haft rétt fyrir sér í þessu máli.