Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 15:44:03 (4952)

1997-04-03 15:44:03# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:44]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar, frv. til laga um breyting á lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, er út af fyrir sig lítið, nett og einfalt frv. ef þannig er litið á málið, þ.e. það fjallar um breytingar á eignaraðild félagsins. En þarna liggur auðvitað miklu meira að baki. Þarna liggur að baki sú grundvallarbreyting að íslenska ríkið eigi ekki lengur meiri hluta í Íslenska járnblendifélaginu.

Ég sé ástæðu til þess, hæstv. forseti, að fagna því að frv. skuli hafa komið fram og sé til afgreiðslu. Vonandi tekur ekki langan tíma að afgreiða það í þinginu. Umræður hafa farið fram um málið. Um það hefur verið rætt og nokkuð góð lýsing gefin á stöðu þess bæði í framsöguræðu hæstv. iðnrh. en einnig voru gefnar skýrslur í utandagskrárumræðu ekki alls fyrir löngu þannig að ekki er ástæða til að hafa mörg orð um málið af minni hálfu. Engu að síður vil ég fara örlítið yfir það.

Ef við lítum á sögu uppbyggingar stóriðju á Íslandi hefur hún ekki alltaf verið dans á rósum. Það var og hefur verið sannfæring margra að við ættum að reyna að nýta raforkuna sem mest til iðnaðaruppbyggingar. Við ættum að byggja upp orkufyrirtæki og virkja en til þess að það mætti verða hefðum við að sjálfsögðu þurft að hafa stærri og meiri kaupendur en sem nemur einungis almennri notkun í landinu vegna heimilisnotkunar og þeirrar iðju sem hér er stunduð í tengslum við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, þ.e. landbúnað og sjávarútveg. Þess vegna hefur verið leitast við á undanförnum árum að ná samningum við stóriðjufyrirtæki um byggingu fyrirtækja. Ég held að það sé staðreynd sem verði að líta til að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu hafa með einum eða öðrum hætti komið að því verki og þeim tilraunum sem við höfum staðið í, þ.e. að ná samningum um stóriðjufyrirtæki. Það hafa að vísu verið skiptar skoðanir. Staðreyndin er hins vegar sú að í rauninni hafa ekki nema tvö fyrirtæki verið reist sem raunveruleg stóriðjufyrirtæki, álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjan á Grundartanga.

Ef litið er á járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga er saga hennar að ýmsu leyti þyrnum stráð. Lög um hana voru sett 1975. Það liðu ekki nema tvö ár þangað til gera þurfti breytingar á lögunum vegna þess að þá höfðu orðið eigendaskipti og Elkem kom inn. Árið 1984 kom Sumitomo Corporation inn í fyrirtækið sem eignaraðili en í millitíðinni hafði fyrirtækið gengið í gegnum heilmikla erfiðleika. Árið 1982 hafði þurft að auka hlutaféð og standa fyrir aðgerðum til að styrkja félagið sem þá hafði verið rekið um nokkurn tíma.

Um 1990 gekk fyrirtækið í gegnum geysilega mikla erfiðleika. Lægð var í verði á afurðum og 1992 var fyrirtækið komið í mjög mikil vandræði en það stafaði m.a. af því að markaðsaðstæður voru slíkar að stórtap var á rekstrinum. Þá þurfti að endurskipuleggja og auka hlutafé og með mjög harðsnúnum aðgerðum tókst að rétta þessa skútu við. Það voru hins vegar ekki mjög einfaldar aðgerðir. Þær samanstóðu annars vegar af að segja upp starfsfólki, hagræða þarna mjög harkalega, fækka fólki og gera breytingar. Ná fram breytingum á raforkusamningi sem fólu það í sér að greiðslum til Landsvirkjunar var frestað í raun. Breytingar á mörkuðum og aukin eftirspurn leiddi til þess síðar að markaðsverð á framleiðslu verksmiðjunnar hækkaði. Þetta leiddi til þess að rekstur fyrirtækisins gerbreyttist og hefur síðustu ár verið mjög góður. Það hefur verið rekið með prýðilegum árangri. Þegar farið var að ræða um stækkun á járnblendiverksmiðjunni var fyrirtækið í þeirri stöðu að geta talist mjög vel rekið iðnfyrirtæki þannig að auðvitað var allt annað upplit hjá stjórn fyrirtækisins, stjórnendum og forsvarsmönnum eigenda af hálfu Íslendinga að fara í viðræður um bæði stækkun og breytta eignaraðild en hefði verið við þær aðstæður ef fyrirtækið væri rekið með halla. Það er auðvitað grundvallaratriði. Bæði snýr það að því að hleypa inn nýjum aðilum með aukið fé og meiri hluta og svo hins vegar snýr það auðvitað að Landsvirkjun sem þeim aðila sem þurfti að semja um nýjan og breyttan orkusamning.

Vegna þess að verið er að fjalla um að íslenska ríkið eigi ekki lengur meiri hluta fyrirtækisins, þá þarf að átta sig á því hvers konar fyrirtæki þetta er. Ég held að óhætt sé að segja að miðað við stóriðjufyrirtæki sé þetta að mörgu leyti einstakur vinnustaður. Hann hefur verið eftirsóttur, menn eiga þarna langan starfsaldur og menn hafa sóst eftir því að vinna hjá Íslenska járnblendifélaginu og það hefur verið talinn góður vinnuveitandi. Mjög mikil áhersla hefur verið lögð á rannsóknir og þróunarstarf hjá fyrirtækinu. Umtalsverðir fjármunir hafa árlega verið settir í það. Hjá fyrirtækinu starfa mjög vel þjálfaðir starfsmenn, vel menntaðir og prýðisvísindamenn á sínu sviði sem hafa unnið að því að þróa framleiðsluna, vélbúnað og hugbúnað vegna fyrirtækisins. Það er með þeim ágætum að út hefur spurst til annarra aðila sem vinna á þessum vettvangi. Þetta þróunarstarf hefur m.a. leitt til þess að tæknibúnaður hefur verið seldur frá verksmiðjunni til annarra verksmiðja, tæknibúnaður sem hefur verið þróaður af starfsmönnum járnblendifélagsins. Fram hefur komið af hálfu starfsmanna Elkem að litið er til starfsmanna járnblendifélagsins sem frumkvöðla á þessu sviði. Þetta er auðvitað mjög mikils virði og skiptir mjög miklu máli þegar fulltrúar eigenda, íslenska ríkisins, ganga til þess verks að semja um að aðrir komi til með að auka hlutdeild sína í fyrirtækinu. Virði fyrirtækisins hlýtur að hafa aukist með þessu öfluga þróunar- og rannsóknarstarfi.

Einnig má minna á það sem ég nefndi fyrr í dag í umræðunni að lögð hefur verið áhersla á tengsl fyrirtækisins við t.d. Háskóla Íslands og þannig tel ég að vegur fyrirtækisins hafi vaxið. Það má segja og draga saman að stjórnendur fyrirtækisins og framkvæmdastjórn hefur lagt mikinn metnað í að þar væri góð starfsemi rekin, framsækin starfsemi og þannig hefur staða fyrirtækisin verið styrkt.

Staða Íslenska járnblendifélagsins í þessu ljósi skiptir auðvitað miklu máli vegna þess að í gildi er raforkusamningur við fyrirtækið til næstu 20 ára. Að þeim samningum hafa annars vegar forsvarsmenn fyrirtækisins komið og hins vegar fulltrúar Landsvirkjunar sem hafa talið mjög mikilvægt að ná samningum um raforkusölu til járnblendiverksmiðjunnar til frambúðar og þannig væri hægt að tryggja raforkusölu frá Landsvirkjun og uppbyggingu virkjana á vegum Landsvirkjunar og bætt þannig hag þess fyrirtækis.

Þar sem ég er að fara yfir hvernig fyrirtækið, Íslenska járnblendifélagið, hefur styrkt stöðu sína má ég til með að nefna það sem hefur verið aukabúgrein hjá þeim ágætu mönnum sem þar hafa staðið við stjórnvölinn. Það er hlutafélagið Spölur sem stendur fyrir því að grafa göng undir Hvalfjörðinn. Ég held, hvað sem öðru líður, að hugmyndafræðingar þess verks hafi fyrst og fremst verið í kringum járnblendiverksmiðjuna. Menn hafa litið svo á í stjórn þess fyrirtækis að mikilvægt sé að bæta samgöngurnar inn á höfuðborgarsvæðið. Það styrki stöðu fyrirtækisins og þá um leið bæti það samgöngur vestur um land.

Þannig er staðan. Hins vegar er það niðurstaða stjórnenda járnblendiverksmiðjunnar að styrkja mætti stöðu fyrirtækisins enn betur. Hvernig væri það gert? Jú, það væri gert með stækkun verksmiðjunnar. Í raun væri bráðnauðsynlegt að stækka verksmiðjuna til þess að með nokkru öryggi mætti líta fram á veg og segja: Fyrirtækið getur staðið af sér --- að því leyti sem hægt er að fullyrða slíka hluti --- samkeppni sem kann að koma upp í lækkandi verði á markaði. Með stækkun væri aðeins hægt að tryggja stöðu fyrirtækisins til frambúðar. Það var í ljósi þess sem umræður og athuganir á því sviði fóru af stað. Menn töldu það nauðsynlegan kost að byggja þriðja ofninn til þess að auka hagkvæmni verksmiðjunnar.

Hæstv. iðnrh. hefur farið mjög ítarlega yfir hvernig allir þeir hlutir gengu fyrir sig. Hvernig viðræður fóru af stað við meðeigendur íslenska ríkisins í járnblendiverksmiðjunni og hver niðurstaðan varð.

Ég sagði áðan, hæstv. forseti, að raforkusamningurinn og sala á raforku til fyrirtækisins skiptir auðvitað mjög miklu máli. Raforkusamningurinn felur það í sér að strax verður breyting á kaupskyldu fyrirtækisins úr rúmlega 60% í það að verið er að kaupa 85% af því afli sem er nýtt og með þriðja ofninum hækkar það upp í 95%. Það skiptir mjög miklu máli um afkomu og arð Landsvirkjunar af þessari raforkusölu að svo mikil kaupskylda skuli vera hjá fyrirtækinu. Það er auðvitað mjög stórt atriði. Ég tel því að frá sjónarhóli Landsvirkjunar sé mjög vel fyrir hlutunum séð.

Sömuleiðis fór hæstv. iðnrh. yfir það að fengnir voru óháðir aðilar til að meta þessa eign sem Íslenska járnblendifélagið er. Það var því gengið mjög faglega til verks og reynt að ná fram upplýsingum um hvers virði þetta ágæta fyrirtæki væri. Það er ekki auðvelt verkefni að meta það á svo sveiflukenndum markaði sem þessi starfsemi er. Engu að síður voru þrjú virt fyrirtæki, eitt erlent og tvö innlend, fengin til að leggja mat á virði fyrirtækisins. Á grundvelli þess mats var síðan gengið til samninga og niðurstaða fengin um aukna eignaraðild Elkem. Niðurstaðan varð sem sagt sú af hálfu hinna íslensku samningsaðila og hæstv. iðnrh. að ná samningum og ná lendingu um að Elkem, þetta norska fyrirtæki sem hefur verið samstarfsaðili okkar í nokkuð langa tíð, yrði meirihlutaaðili.

Það hefur verið nokkuð gagnrýnt og efasemdir hafa komið fram um ágæti þess að íslenska ríkið léti af hendi meiri hluta í fyrirtækinu og léti hann í hendur norska fyrirtækisins Elkem. Afstaða mín er sú að ég tel að við þær aðstæður sem nú hafa skapast með því að fyrirtækið er komið á beina braut, orðið mjög öflugt og sterkt, þá hefðu skapast skilyrði til þess að íslenska ríkið losaði sig úr meirihlutaeigninni. Ég tel fullkomlega eðlilegt að ganga til samninga við Elkem um það atriði.

Menn spyrja auðvitað hvaða hættur geti falist í meirihlutaeign Elkem. Er hætta á að þeir misnoti aðstöðu sína með því að millifæra og stunda óeðlilega viðskiptahætti við hið íslenska fyrirtæki? Þau svör sem hafa fengist hvað þetta varðar eru að um þessa starfsemi munu gilda alþjóðlegar reglur sem hafa verið settar og eru í gildi og hafa nýst mjög vel gagnvart Ísal. Það er auðvitað gengið út frá því að fyrirtækið sé sjálfstæð hagnaðareining þannig að einn eignaraðilinn geti ekki misnotað aðstöðu sína með því að taka afrakstur út úr fyrirtækinu á óeðlilegan hátt og skert þannig stöðu þessarar rekstrareiningar.

Það þarf auðvitað að undirstrika það mjög vandlega og rækilega að vel sé fylgst með. Á meðan fulltrúar ríkisins eru með verður að leggja mjög mikla áherslu á að vel sé fylgst með því sem þarna er að gerast þannig að hagsmunir íslenska ríkisins sem hluthafa verði ekki fyrir borð bornir. Það er afar mikilvægt að halda þannig á málum. En ég trúi og treysti því að þær alþjóðlegu reglur sem gilda um viðskipti, svokallaðar armslengdarreglur, haldi og það þarf að fylgjast að sjálfsögðu mjög vel með því.

Hæstv. forseti. Tími minn er að verða búinn og vil ég því stytta ræðu mína. Ég vil bara endurtaka það að ég tel að við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir, þá sé fullkomlega eðlilegt að við samþykkjum það frv. sem hér er lagt fram um að heimila að ríkið láti af hendi meirihlutaeign sína í Íslenska járnblendifélaginu hf. Það er sannfæring mín að með því að stækka járnblendiverksmiðjuna og gera hana að hagkvæmari rekstrareiningu verði hún tryggð og treyst sem vinnustaður. En auðvitað þarf áfram að halda vel á spöðum og hyggja að hagsmunum bæði orkuseljandans og ekki síður starfsfólksins sem þar vinnur og hefur lagt metnað sinn í að byggja þetta fyrirtæki upp, gera það hagkvæmt og gera það að góðum vinnustað.

Með þeim orðum við ég ljúka máli mínu, virðulegi forseti.