Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 16:03:58 (4953)

1997-04-03 16:03:58# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:03]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið mjög málefnaleg. Í umræðunni hefur verið beint til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að reyna að svara.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fullyrti fyrr í umræðunni að mengunarvarnir fyrirtækisins væru í megnasta ólestri. Þessu verður að mótmæla mjög harðlega því svo er alls ekki. Í skýrslu sem Hollustuvernd ríkisins gaf út 25. febrúar sl. kemur fram að þegar við berum saman þann tíma sem þessir tveir ofnar verksmiðjunnar hafa verið í gangi og svo þann tíma sem reykur hefur sloppið út eða útblástur hefur átt sér stað, þá er það mjög svipað og verið hefur, því í þessari skýrslu er gerður samanburður á 10 ára tímabili, frá og með árinu 1986 aftur til ársins 1996.

Varðandi ofn I, þá hefur reykhreinsibúnaðurinn verið í gangi 99,28% af þeim tíma sem ofn I hefur verið í gangi á árinu 1996. Í 98,7% af þeim tíma sem ofn II hefur verið í gangi hefur reyklausi búnaðurinn verið í gangi. Það er því alls ekki hægt að halda því fram, síður en svo, að mengunarvarnir fyrirtækis séu í ólestri, fyrir utan það að í þeim reyk sem þarna sleppur út eru ekki hættuleg efni, þau bindast ekki öðrum efnum í andrúmsloftinu. Þarna er fyrst og fremst um ryk að ræða sem veldur engum skaðlegum áhrifum heldur hið gagnstæða vegna þess að víða í Evrópu er þetta ryk notað til að bæta gróðurhúsamold.

Menn gera mikið af því að bera Ísland saman við Noreg í mengunarmálum. Hvað snertir járnblendifélagið erum við langt á undan Norðmönnum, gerum miklu ríkari kröfur því við gerum þá kröfu að sá tími sem hreinsibúnaðurinn er í gangi megi ekki fara undir 98% af þeim tíma sem ofninn er í gangi. Við erum langt yfir þeim mörkum. Í Noregi hins vegar eru menn ekki með strangari kröfur en 96%. Fyrirtækið hefur núna að undanförnu nýtt mjög þá fjármuni sem það hefur haft í hagnað af rekstri til þess að bæta stöðu fyrirtækisins hvað mengunarmál snertir.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði hvort það væri ekki alveg klárt í þessum nýju samningum milli eignaraðilanna að frá því væri gengið að Elkem gæti ekki tekið þróunargjöld eða markaðsgjöld eða önnur sambærileg gjöld sérstaklega af fyrirtækinu og náð þannig út verulegum fjármunum. Það er alveg klárt frá því gengið og ég kom inn á það í framsöguræðu minni áðan að samhliða samkomulaginu um stækkun náðist líka samkomulag um nokkur mjög mikilvæg rekstraratriði í fyrirtækinu. Í fyrsta lagi, og þá svara ég því sem hv. þm. Svavar Gestsson spurði um hér fyrr við umræðuna, að rannsóknar- og þróunarstarf sem verið hefur í gangi í fyrirtækinu verði eflt samkvæmt þessum samningi. Elkem hefur á undanförnum árum valið að fara þá leið að fara með rannsóknarstarfsemina meira og minna út úr fyrirtækjunum og inn í miðlæga starfsemi. Það hefur orðið breyting á þessari stefnumótun hjá fyrirtækinu og nú hefur þetta aftur verið fært inn í fyrirtækin. Í þeim samningi sem þarna hefur verið gerður er gengið út frá því að þetta verði eflt.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í þessum samningi að óháður mælikvarði sem byggist á viðskiptum milli óskyldra aðila eigi við um öll viðskipti félagsins. Þar svara ég þá líka þeirri spurningu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar upp, svo og hv. þm. Svavar Gestsson og einnig kom hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon inn á þetta fyrr í umræðunni. Það kemur hins vegar fram í frv. að við þá samninga sem þarna voru gerðir verða Elkem greiddar þrisvar sinnum 5 millj. norskra króna þegar rekstur ofns III hefst. Með þessum 15 millj. norskra króna er tryggt að þriðji ofninn verði nýttur að fullu strax í upphafi þannig að það eru verulegir hagsmunir fyrirtækisins.

Í þriðja lagi kemur líka skýrt fram í þessu samkomulagi að hver hluthafi hefur rétt á því að skipa óháðan löggiltan endurskoðanda til þess að fara yfir viðskiptin í fyrirtækinu fyrir hönd eignaraðilanna. Síðan er gert ráð fyrir því til að valda ekki neinni tortryggni milli eignaraðila að fyrirtækið verði rekið sem sjálfstæð rekstrareining.

Hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvörtuðu undan því í þessari umræðu að þetta mál væri lítið mál, sem það að vissu leyti er, lagafrv. sem slíkt. Samningurinn, eignabreytingin og sú framtíðarstefna sem fyrirtækinu er mótuð er engu að síður mjög stórt mál. En hv. þm. Svavar Gestsson kvartaði undan því að inn í þetta vantaði alla framtíðarsýn. Það eru svipuð umkvörtunarefni og hv. þm. kom fram með við 1. umr. þegar ég mælti fyrir frv. um byggingu álvers á Grundartanga. Þá fór ég mjög rækilega yfir þá framtíðarsýn á uppbyggingu í atvinnulífinu sem ég hef verið að kynna á þeim fundum sem ég hef átt með samtökum iðnaðarins víða um land. Ég heyrði það á hv. þm. að hann var ekki að öllu leyti sammála þeirri áherslu sem þar var uppi, en tók þó að mörgu leyti undir ef ég hef skilið hv. þm. rétt. Þetta mál fellur nákvæmlega inn í þá framtíðarsýn vegna þess að þar var gert ráð fyrir því að ef við ætluðum að vera búin að byggja upp ákveðna hluti og ná ákveðnum markmiðum árið 2005 eins og ég gerði þá grein fyrir, þá þyrftum við að ná fram stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og þá þyrftum við að byggja álver Columbia á Grundartanga, þannig að þetta fellur inn í þá framtíðarsýn. Fyrir utan það gerði ég líka grein fyrir því að vöxturinn væri ekki bara í stóriðjunni, heldur hið gagnstæða. Vöxturinn væri á mörgum öðrum sviðum eins og hv. þm. minntist hér á áðan, í greinum eins og hugbúnaðariðnaði, lyfjaiðnaði, í nýjum atvinnugreinum sem við erum farin að skilgreina sem atvinnugreinar eins og í tónlistariðnaði og kvikmyndaiðnaði sem menn hafa skilgreint sem listgreinar hingað til en eru auðvitað ekkert annað en hreinar atvinnugreinar og eru hjá mörgum þjóðum margar mikilvægustu atvinnugreinarnar. Í Svíþjóð er skemmtanaiðnaðurinn þriðja stærsta atvinnugreinin og í Bandaríkjunum næststærsta atvinnugreinin þannig að á þetta er lögð áhersla.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort ekki væri rétt að skoða önnur atriði eins og skattamál í nefnd. Ég hef ekki neitt við það að athuga og mér finnst eðlilegt að það verði farið mjög gaumgæfilega yfir frv. og gildandi lög og að metið verði af nefndinni hvort ástæða er til þess að gera frekari breytingar, en ég ítreka þó að slíkar breytingar þarf að einhverju leyti að gera í samráði við meðeigendur okkar í fyrirtækinu þannig að það þarf að hafa það í huga ef tillögur verða gerðar um slíkar breytingar.

Með þessu frv. er verið að stíga mikilvægt skref. Mönnum kann auðvitað að finnast það misjafnlega mikilvægt en það er þó þannig að þarna er verið að losa um meirihlutaeign Íslendinga í þessu fyrirtæki. Við áttum 55% í fyrirtækinu en með þeirri breytingu að einvörðungu Elkem auki eignarhlut sinn í fyrirtækinu lækkar okkar eignarhlutur úr 55% niður í 38,5% og getur farið neðar ef ákvarðanir verða teknar um fjórða og fimmta ofn sem eru þó á engan hátt skuldbindingar. Ég vonast til að ég hafi ekki mátt skilja hv. þm. Svavar Gestsson þannig að samningur eða yfirlýsing Landsvirkjunar við fyrirtækið væru einhverjar skuldbindingar um fjórða og fimmta ofninn. Það er fyrst og fremst viljayfirlýsing þar sem það eru sameiginlegir hagsmunir Elkem og að mínu viti líka Landsvirkjunar að um frekari stækkun að verði að ræða. Hagsmunir Landsvirkjunar liggja í frekari orkusölu.

Það er hins vegar alveg skýrt og ég held að það sé engin deila í sjálfu sér um það að eins og samningurinn var áður en honum var breytt núna, þá voru þessi minnihlutaréttindi mjög sterklega tryggð í þeim samningi sem gerður var á sínum tíma. Á þessu eru núna gerðar verulegar breytingar og þær breytingar miða allar í þá átt að hægt verði að setja eignarhlut ríkisins á markað eins og hér er leitað eftir í frv. og hann verði þar skráður þannig að engar hömlur séu settar á í þeim efnum. Ég ætla ekki að fara að tíunda það hér og nú við þessa umræðu sem ég hef margoft talað um áður og er það að þau minnihlutaréttindi sem minnihlutaaðilarnir höfðu í fyrirtækinu voru okkur Íslendingum mjög erfið og meirihlutaeign var okkur í raun og veru einskis virði vegna þess að þegar á reyndi gátum við ekki komið fram þeim hlutum sem við vildum nema með samningum sem tókst reyndar sem betur fer að gera að lokum. Við höfðum ekki rétt sem minnihlutaaðilar.

[16:15]

Hv. þm. Svavar Gestsson fullyrti að verðið á fyrirtækinu væri of lágt. Það má endalaust deila um það. Hið raunverulega verð fyrirtækisins mun ekki koma í ljós að mínu viti fyrr en eignarhlutur ríkisins verður settur á markað því þá kemur í ljós hvað markaðurinn er tilbúinn til að greiða fyrir fyrirtækið. Ég held ég megi þó hins vegar fullyrða að ef við hefðum farið fyrir tveimur eða þremur árum í slíka samninga um kaup Elkem á eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu þá hefði verðið verið mun lægra. Og á erfiðleikatímanum 1992--1993 er ég hræddur um að fáir hefðu verið tilbúnir til þess að greiða nokkuð fyrir eignarhlut okkar í fyrirtækinu. En með mjög bættum rekstri og miklu átaki sem stjórnendur og stjórn fyrirtækisins réðust í á undangengnum tveimur árum hefur mönnum tekist að snúa þessu við.

Því er ekkert að leyna að meirihlutaeign okkar í fyrirtækinu hefur að mínu viti í tvígang a.m.k. orðið þess valdandi að fyrirtækinu var ekki lokað og við tryggðum að rekstur fyrirtækisins héldist áfram. En það hefur kostað okkur verulega fjármuni því við höfum sett í kringum 4 milljarða kr., uppreiknað án vaxta, í fyrirtækið og erum ekki að fá núna með þessari sölu nema hluta af því til baka. En með þessu hefur okkur tekist að halda rekstri fyrirtækisins gangandi.

Það er alveg rétt að þarna eru ekki sköpuð mörg frambúðarstörf. Það er talið að þau verði um 30 en þau eru í raun og veru miklu fleiri vegna þess að hefði ekkert verið aðhafst í stækkun fyrirtækisins þá hefði störfum þar komið til með að fækka vegna aukinna hagræðingaraðgerða sem menn hefðu þurft að fara út í í rekstri fyrirtækisins. Fyrir utan það að hefði ekki orðið af stækkun þá hefði verðmæti fyrirtækisins orðið enn minna eins og fram kom í þeim skýrslun sem bæði Salomon Brothers, Íslandsbanki og Kaupþing gerðu fyrir okkur til þess að reyna að leggja mat á fyrirtækið.

Varðandi raforkuverðið þá erum við hv. þm. Svavar Gestsson sammála um að þar hafi verið gerður mjög góður samningur. Og sá samningur sem gerður var um hækkun á því raforkuverði sem var greitt fram til 30. janúar sl. er veruleg búbót fyrir Landsvirkjun. Ég hef ekki heyrt þá fullyrðingu frá Elkem í Noregi að þeir séu að greiða helmingi lægra verð fyrir raforkuna hér heldur en þeir gera í Noregi. Það er hins vegar alveg ljóst að markaður í járnblendinu er mjög takmarkaður og Elkem er á heimsmarkaði með í kringum 57% markaðshlutdeild þannig að þeir eru mjög ráðandi á þessu sviði. Og það að byggja upp nýjan ofn hér á Íslandi þýðir ákvörðun um að menn séu að leggja niður eða loka verksmiðjum í Noregi. Það er sjálfsagt viðkvæmt mál fyrir fyrirtækið þar að standa í slíku. En ég þori nú að fullyrða að það er ekki helmingsmunur á því raforkuverði sem þeir greiða hér og því raforkuverði sem þeir greiða í Noregi. Því er hins vegar ekki að leyna að raforkuverð fer hækkandi í Noregi. Raforkuverð mun sennilega líka verða hærra hér þegar fram líða stundir. Ég átti ekki alls fyrir löngu viðtal við forstjóra Norsk Hydro sem var hér í heimsókn og lýsti yfir áhuga á því að kanna möguleika á byggingu álvers á Íslandi. Hann taldi vera tvo staði í Evrópu sem gætu þjónað Evrópu í álframleiðslu --- annars vegar væri það Noregur og hins vegar Ísland. Samkeppnisaðstaða Íslands væri betri en Noregs af þeirri ástæðu að raforkuverð á Íslandi væri lægra en í Noregi. Ég tel því að við séum mjög vel samkeppnisfærir á þessum sviðum og ég veit að hv. þm. Svavar Gestsson þekkir það betur heldur en flestir þeir sem hér eiga sæti á hinu háa Alþingi að þeir samningar sem núna hafa verið gerðir um stækkun álversins í Straumsvík, um stækkun járnblendifélagsins og um byggingu álvers á Grundartanga, eru gríðarlega hagstæðir samningar (Forseti hringir.) fyrir Landsvirkjun. Og þessi samningur járnblendifélagsins og samningurinn um byggingu álvers á Grundartanga gera það að verkum að arður Landsvirkjunar, innri arður, verður 6,8% samanlagt af þessum samningum á samningstímabilinu. Þær áætlanir sem eigendur fyrirtækisins Landsvirkjunar hafa gert gerðu þó ekki ráð fyrir nema 5,5% arði, þannig að það er yfir þeim mörkum sem menn hafa sett sér í þessum efnum.