Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 16:46:34 (4958)

1997-04-03 16:46:34# 121. lþ. 98.7 fundur 474. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:46]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna frv. um rafræna eignaskráningu verðbréfa sem hér er til umræðu og hæstv. viðskrh. var að mæla fyrir. Ég tel brýnt að það komi fram eins og það liggur fyrir í þskj. 801. Í greinargerð frv. er getið um að víða hafi verið leitað fanga m.a. í Danmörku og á Norðurlöndunum. Það er athyglisvert við þennan þátt, þessa nýlundu sem er að ryðja sér til rúms, þ.e. rafræna eignaskráningu verðbréfa og hætta að gefa verðbréfin út, að Evrópusambandið er ekki búið að setja heildalöggjöf um þennan þátt. Og það sýnir svolítið að hér erum við svona (Viðskrh.: Framsýnir.) framsýnir, eins og hæstv. ráðherra segir, hvað þennan málaflokk varðar og það er vel.

Það kemur fram í greinargerðinni að fjölmargar nefndir hafa unnið að þessu máli. Sá sparnaður sem verður vegna málsins er mjög mikilvægur en áætlað er að kostnaður við þessa umsýslu nemi árlega um 220 milljónum en gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði u.þ.b. 35 milljónir miðað við þann útreikning sem fylgir frv. Það er því ljóst að ef vel tekst til þá er hér um umtalsverðan sparnað að ræða fyrir utan þau þægindi sem málið hefur í för með sér.

Í frv. er vikið að tveimur leiðum til að stofna verðbréfamiðstöð. Það er annars vegar að ríkið setji upp slíka verðbréfastofnun. Það yrði tölvuskráning þar sem byrjað yrði á markaðsverðbréfum ríkissjóðs og í fyllingu tímans mundi starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar síðan taka til allra markaðsverðbréfa á fjármagnsmarkaðnum. Hin leiðin og sem hér er valin, er að aðilar á fjármagnsmarkaði standi sameiginlega að verðbréfamiðstöð og hlutafélag yrði stofnað um þetta. Ég lýsi yfir stuðningi við þá aðferð sem hér er lögð til, þ.e. að stofnsett verði hlutafélag sem fer með þennan rekstur og eignarhald.. Hér er fyrst og fremst um verkefni að ræða sem er til hagræðingar fyrir aðila sem vinna á verðbréfamarkaði.

Það eru hins vegar nokkur álitaefni varðandi þetta sem þurfa að skoðast betur í þingnefnd. Það er t.d. það að frv. er sett upp með almennum hætti. Gert er ráð fyrir því að verðbréfamiðstöðvar gætu verið margar en sagt, með réttu, að það sé mjög ólíklegt að settar verði á stofn margar verðbréfamiðstöðvar. Það er sérstaklega tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir að verðbréfamiðstöðin sem fyrst verður sett á laggirnar verði einkaleyfisstofnun. Ég varpa því fram hvort það hefði nú kannski ekki verið æskilegra á meðan menn væru að fara með þetta af stað að það eigi fyrst og fremst að vera bara ein verðbréfamiðstöð. Þetta er ekki fyrirtæki á samkeppnismarkaði og á í sjálfu sér ekki að vera það. Þetta er fyrst og fremst ákveðin hagræðing í viðskiptum sem hér á sér stað og verður kappkostað við að gæta aðhalds í kostnaði. Það kæmi vitaskuld til álita að sú verðbréfamiðstöð sem nú er í burðarliðnum fengi tímabundið einkaleyfi á starfsemi sinni, t.d. í tvö, þrjú ár, og það yrði þá bundið í lög að það félli niður eftir ákveðinn tíma, þ.e. sett inn sólarlagsákvæði til að styrkja þá umgjörð í hinu fyrsta fyrirtæki sem fer af stað með þennan þátt. Mér finnst það koma vel til greina vegna þess að það er mjög mikilvægt þegar menn leggja af stað með þetta að þeir séu fullvissir um að þá standi að því allir aðilar á markaðnum og að það sé ætlun þeirra að vinna þetta verkefni sameiginlega en ekki að hér spretti upp kannski þrjár verðbréfamiðstöðvar. Og það mætti nálgast það svona, en alls ekki að hafa einkaleyfi nema það sé tímabundið og falli niður eftir ákveðinn tíma. Þetta væri fyrst og fremst aðferð til að fá reynslu af rekstri fyrstu verðbréfamiðstöðvarinnar.

Annað álitaefni er í frv. Gert er ráð fyrir að hlutafé sé 65 millj. kr. Fyrirmyndin er sótt til þess að það er sama skilyrði og veitt er fyrir veitingu starfsleyfis til verðbréfafyrirtækja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Mér fyndist vel koma til greina að kveðið væri á um að hlutafé væri meira í þessu fyrirtæki. Þetta er dálítið merkilegt mál og það er mjög brýnt að fyrirtæki sé vel búið fé, ekki síst vegna þess stofnkostnaðar sem er á ferðinni. Hér er löggjafinn að setja rammalöggjöf um mjög sérhæfða starfsemi sem mjög áríðandi er að sé innt af hendi á algjörlega öruggan hátt vegna þess að hér eru verðbréf einstaklinga, fyrirtækja og ríkisvalds algjörlega háð því að vel takist til. Þess vegna fyndist mér vel koma til greina að gera frekari kröfur til styrkleika þessa fyrirtækis en gert er ráð fyrir í frv. Ég bendi hins vegar á 30. gr. þar sem fjallað er um ábyrgðarsjóð og er mjög mikilvæg í þessu sambandi. Það er gert ráð fyrir að ábyrgðarsjóðurinn nemi 650 milljónum. Ég ætla ekki í sjálfu sér að tjá mig neitt um þá upphæð. Hún virkar há en það verður að átta sig á því að sú verðmætaskráning sem við erum hér að tala um mun nema tugum ef ekki hundruðum milljarða þannig að það er mjög mikilvægt að allt sem viðkemur ábyrgð og tryggingum varðandi þessa starfsemi sé mjög vel úr garði gert.

Það er atriði í þessu frv. sem er óljóst. Nú veit ég ekki, herra forseti, hvort viðskrh. heyrir til mín, en það vaknar spurning í þessu máli sem ég óska eftir að fá svar við. Viðskrh. er hér. Í frv. kemur fram óljóst atriði. Á bls. 52 segir nefnilega, þ.e. í umsögn fjmrn., með leyfi forseta:

,,Ætlunin er að stofna félag um rafræna verðbréfamiðstöð með 65--100 millj. kr. hlutafé og þar af hyggst ríkissjóður leggja fram X-hluta.``

Í mínu eintaki a.m.k. stendur X-hluti á síðustu blaðsíðu frv. Það kemur hins vegar ekki fram í greinargerðinni að ríkissjóður hafi hugsað sér að vera hluthafi í þessu fyrirtæki þannig að ég óska skýringa. Er umsögn ráðuneytisins eitthvað eldra vinnuplagg sem menn hafi ekki gengið frá eða er það hugsunin að ríkið verði hluthafi í þessu félagi? En ég skildi ráðherra svo að ekki væri sérstaklega gert ráð fyrir því. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri þetta mál því það er nú mjög óvanalegt að fram sé lagt frv. hér, þó það sé ekki nema í umsögn, þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram X-hluta. (Viðskrh.: 1/7.) Ja, það er ekki læsilegt hjá mér öðruvísi en X. En það má vera að ráðherra geti skýrt þetta mál betur.

Það er sömuleiðis gert ráð fyrir að reglugerðarheimildir verði mjög rúmar. Það er kveðið á um það í 12. gr. frv. Það er álitamál hvort menn ættu ekki að leggja í þá vinnu að setja nánari lagaramma um þá þætti sem þar og annars staðar eru taldir upp þannig að ekki verði eins margt háð reglugerðarákvæðum og gert er ráð fyrir í frv. Það er náttúrlega ljóst að þar sem hér er um að ræða fyrstu löggjöf um þetta mál má búast við að einstök framkvæmdaatriði séu þannig að ekki sé hægt með góðu móti að setja um þau nákvæm lagafyrirmæli, en það mætti nú skoða frv. betur út frá því hvort ekki mætti kveða skýrar að orði um ýmislegt þannig að ekki þyrfti svona margar heimildir til ráðherra varðandi reglugerðir.

Í 4. gr. er ráð fyrir a.m.k. þremur stjórnarmönnum. Mér finnst vera álitamál hvort ekki ætti að gera ráð fyrir fleirum og jafnvel að fastsetja þá því að fjölmargir aðilar munu koma að þessu máli og það er spurning hvort löggjafinn mundi ekki einfaldlega segja að stjórnarmenn í verðbréfamiðstöð skuli vera fimm. Það er hefðbundið í hlutafélagarekstri. Það er vitaskuld hægt að láta þetta vera ákvörðunaratriði félagsins sjálfs. En það er ekkert sjálfgefið vegna sérstöðu fyrirtækisins, verðbréfamiðstöðvarinnar og ef hún verður að starfa eftir þeim lögum sem hér eru lögð til þá gæti vel komið til greina að kveða fastar að orði hvað varðar fjölda stjórnarsæta. Þá er ég líka að hugsa um hin ýmsu praktísku vandamál sem upp geta komið í tengslum við þann þátt. Og þá gæti nú jafnvel verið gott allra hluta vegna að löggjafinn væri búinn að kveða upp úr um fjölda stjórnarmanna og menn semdu sig þá út frá því frekar en að bæta alltaf endalaust við stjórn fyrirtækisins eins og oft vill verða þegar taka þarf tillit til margra hluthafa eins og verður væntanlega í þessu félagi.

Ég set aðeins spurningarmerki við 10. og 11. gr. þar sem gert er ráð fyrir rétti þeirra sem hafa milligöngu um eignaskráningu í verðbréfamiðstöð. Þar eru nokkrir aðilar taldir upp og færð rök fyrir því í greinargerð hvernig þeir komi að þeirri eignaskráningu. Þetta held ég að sé eitt af þeim atriðum sem nefndin verði að skoða betur, þ.e. hvernig þessir aðilar sem eru náttúrlega þungamiðjan í þessum rekstri, koma þarna að, eins og gert er ráð fyrir í frv. eða hvort einhver önnur útfærsla sé hentugri. Ég vil ekki í sjálfu sér tjá mig um það sérstaklega núna við 1. umr. en ég held að þarna sé kafli í lögunum sem rétt er að fara betur yfir.

Ég vil lýsa áhyggjum mínum yfir þeirri kostnaðaráætlun sem gerð er í frv. Það er sagt að ef nýtt tölvukerfi yrði hannað fyrir íslenskan markað þá muni það kosta 29 milljónir. Hins vegar ef keypt yrði tilbúið kerfi erlendis frá sem yrði starfrækt hér á landi þá mundi það kosta 400 milljónir. Ég held að menn séu að tala þarna um hluti sem þeir hafa satt best að segja enga hugmynd um. Og ég get nú sagt að það er ein góð regla um allar áætlanir um tölvukostnað: Það er hægt að taka þessar 30 milljónir, margfalda þær með tveimur og sennilega margfalda þær aftur með tveimur. Það er a.m.k. sú regla sem ég nota þegar ég heyri um kostnað varðandi hönnun á tölvukerfi. (Gripið fram í: Margfalda með tveimur?) Já, tvisvar sinnum með tveimur og þá er maður kannski kominn nálægt því sem þetta hugsanlega endar í. En annað sem kemur líka inn í þetta er að ég nota sömu reglu um tíma sem tekur að hanna ný tölvukerfi nema þá margfalda ég oftar með tveimur til að fá út þann endanlega mánaðafjölda sem tekur að hanna kerfið. Ég held satt best að segja að hérna séu menn að leggja upp með hluti sem eiga eftir að verða miklu dýrari. Ég held samt sem áður að þetta sé rétt aðferðafræði, þ.e. að hanna tölvukerfi hér fyrir íslenskan markað. Tölvumenn okkar kunna það og eru alveg færir um að klæðskerasauma það fyrir íslenskan markað. Þetta kostar hins vegar alltaf meira en áætlað er og líka meira en þessi áætlun gerir ráð fyrir þrátt fyrir þá útboðslýsingu sem hér fylgir.

[17:00]

Mér finnst það virðingarvert, herra forseti, að hér fylgir útboðslýsing af þætti í hugbúnaðarkerfinu þar sem kemur fram lýsing á því hvernig kerfið muni vinna. Mér finnst það virðingarvert að í greinargerð með frv. skuli vera sett eins nákvæm lýsing og fram kemur í útboðslýsingu og gefur glögga mynd af því sem er hugsað. Ég veit að þeir tölvuaðilar sem hafa komið að því útboði eru vel færir um að klára þetta mál þannig að vel sé. Hins vegar má búast við að þetta reynist eitthvað dýrara en menn ætla hér og hugsanlega verði rekstrarkostnaðurinn eitthvað meiri. Það verður að koma í ljós hvort svo verður. Leið C, þ.e. að nota erlend tölvukerfi í verðbréfamiðstöð erlendis, tel ég ekki vera skynsamlega.

Ég held að hér sé lagt upp, herra forseti, með mjög gott mál. Það er vel unnið en þarf vitaskuld góða umfjöllun í nefnd. Ég vil spyrja, af því að hæstv. ráðherra þarf nú að svara nokkrum spurningum varðandi málið, hvort það sé ætlun hans að freista þess að málið verði afgreitt núna fyrir vorið eða hvort málið sé lagt fram meira til kynningar og fái þá umfjöllun í sumar ef menn kjósa svo. Það er dálítið langt liðið á þingið til þess að málið nái í gegn þó að vel sé undirbúið. Þetta er það mikilvægt mál og það miklir fjármunir sem verða bundnir og í húfi enda hefur málið tekið mjög langan tíma í undirbúningi. Ef til vill er heppilegra að stuðla að því að það fái vandaða umræðu og umfjöllun núna á vorþinginu og verði afgreitt þannig að það geti tekið gildi og þá líti betur út með þá hönnun sem er fyrirhuguð í málinu, að það verði haldið áfram í þeim farvegi en málið þá ef til vill ekki lögfest fyrr en á hausti komanda. Ég veit ekki hver er hugur ráðherra hæstv. í þeim efnum en ég teldi að það kæmi fyllilega til greina vegna umfangs málsins.