Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 17:02:21 (4959)

1997-04-03 17:02:21# 121. lþ. 98.7 fundur 474. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[17:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. Það er mjög brýnt að það komi fram. Þetta frv. mun spara geysimikla fjármuni. Sú kostnaðaráætlun sem hér kemur fram snýr eingöngu að ríkissjóði og hann er sem betur fer ekki stærsti aðilinn á verðbréfamarkaðnum þannig að það eru fleiri aðilar þar sem munu spara umtalsverða fjármuni. Þetta leysir líka mikinn vanda. Þeir sem hafa lent í þeirri stöðu að þurfa að framselja svo sem eins og fimm til tíu kg af pappírum, allt niður í tíkalla, þekkja þennan vanda. Það er mikill kostnaður hjá verðbréfafyrirtækjunum þannig að það er mikið fagnaðarefni að þetta frv. er komið fram. Það er forsenda fyrir því að verðbréfamarkaðurinn geti orðið virkilega lipur. Auk þess er frv. mjög vel unnið á allan máta.

Herra forseti. Ég er ánægður með að gert skuli vera ráð fyrir fleiri en einni verðbréfamiðstöð. Það eykur aðhald að þeirri miðstöð sem er í gangi. Ef hún verður á einhvern hátt óforskömmuð, of dýr, veitir lélega þjónustu eða veður yfir viðskiptamenn sína á einhvern máta þá hafa þeir alltaf möguleika á því að stofna nýja. Þó að það sé mjög ólíklegt að það verði gert þá er sá möguleiki til staðar og það eykur aðhald að þeirri sem í gangi er.

Ég ræði ekki frekar um kosti frv., enda er það óþarfi, ég ætla heldur að geta um ókostina. Herra forseti. Gallinn við frv. er sú þröngsýni að skrá þurfi rafbréf í sama verðbréfaflokki í einni verðbréfamiðstöð. Það kemur sérstaklega fram á síðu 19 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Ekki er gert ráð fyrir að verðbréfamiðstöðin skrái önnur verðbréf en markaðsverðbréf, þ.e. einungis mörg einsleit verðbréf sem gefin eru út í ákveðnum flokkum.``

Hér er í gangi einhver gömul hugsun. Ég er sannfærður um að menn muni breyta henni. Að sjálfsögðu hverfa hugtök eins og ,,flokkar verðbréfa`` algjörlega þegar hægt er að gefa út verðbréf í hvaða krónutölu sem er. Ég get alveg séð fyrir mér ef einhver ætlar að kaupa spariskírteini og hann kaupir spariskírteini fyrir 1.365.822 kr. að nafnvirði. Svo getur hann selt af þessu 523.622 kr. og átt þá restina eftir. Þannig gerir þessi skráning mögulega hluti sem voru gjörsamlega ómögulegir áður. Sú hugsun sem kemur fram í frv. er því enn þá dálítið gamaldags.

Herra forseti. Ákvæði til bráðabirgða II er mjög vafasamt. Ég leyfi mér að varpa fram þeirri spurningu hvort það sé ekki í andstöðu við stjórnarskrána. Þarna er meiningin að innkalla öll viðkomandi verðbréf sem búið er að gefa út, sem fólk er búið að kaupa. Það er ekki aðeins það. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Í stað innkallaðra verðbréfa skal útgefandinn eignarskrá eignarréttindi yfir þeim og ógilda jafnframt hið áþreifanlega verðbréf.``

Nú hafa menn keypt sér svona verðbréf og telja sig eiga einhverja ákveðna eign sem er pappír, undirritaður og jafnvel stimplaður, og sem á allan máta hefur verið talin eign hingað til. Nú er fólki allt í einu gert að afhenda þessa eign, hún er innkölluð. Ég efast um að það fái staðist. Þeir sem vilja mega örugglega eiga þessi bréf sín áfram. Það getur engin krafist þess að þeir afhendi þau. Það getur verið af ýmsum ástæðum. Það getur hreinlega verið að menn treysti þessu ekki, einhver maður eða kona sem er kannski svolítið gamaldags í hugsun treysti ekki þessu nýja kerfi og vilji bara eiga sín spariskírteini heima hjá sér. (Gripið fram í: Hvaða viðurlög yrðu við þessu?) Það er nefnilega málið. Ég held að þetta fái ekki staðist. Þetta er líka algjör óþarfi. Þessi verðbréfamiðstöð er svo hagkvæm fyrir eigendur bréfa að það er nóg til þess að menn munu skrá sín bréf þar ótilkvaddir, þeir sem það vilja. Mér finnst að menn eigi að ganga enn lengra. Ég mun ræða það í hv. efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti, þegar frv. kemur þangað, að gera þeim sem það vilja heimilt að fá pappíra sína prentaða á blað, útgefna af verðbréfamiðstöðinni, og að rafbréfið yrði eytt á skrá verðbréfamiðstöðvarinnar. Þeir borga að sjálfsögðu þann kostnað sem því fylgir og hann getur verið umtalsverður. En það á ekki að loka fyrir að menn geti átt sinn pappír ef þeir vilja það.

Ég sé líka fyrir mér að það sé hægt að skrá miklu, miklu víðtækari bréf heldur en þarna er talað um. Ég sé ekkert á móti því að skráð sé nánast hvert einasta skuldabréf sem gefið er út, t.d. í sambandi við kaupsamninga fasteigna og alls konar skuldabréf einstaklinga. Það er hægt að láta skrá þau í þessari verðbréfamiðstöð. Menn borga bara þann kostnað sem því er samfara. Ef það er gert og kostnaðurinn yrði væntanlega ekki mjög mikill þá er möguleiki á því að þetta yfirtaki öll skuldabréf sem til eru og öll hlutabréf, líka í einkahlutafélögum.

Mér finnst hugsunin í frv. vera full þröng að þessu leyti en ég er viss um að það byggir á ákveðinni tregðu að sjá fyrir sér möguleikana sem þessi nýja tækni gefur.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að fagna því að þetta frv. er komið fram og fagna því hvað það er vel unnið. Ég vil eindregið leggja til að það verði samþykkt eins hratt og mögulegt er. Sá kostnaður sem núverandi kerfi veldur er óhemju mikill. Ég giska á að hann sé einhvers staðar á bilinu 5--10 millj. kr. á dag. Það er því mjög brýnt að fá þetta frv. fram, að það taki gildi, því fyrr því betra. Ég mun vinna að því í hv. efh.- og viðskn. að menn vinni hratt og vel í þessu máli og komi því fram því það er mjög til framdráttar atvinnulífinu.