Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 17:09:14 (4960)

1997-04-03 17:09:14# 121. lþ. 98.7 fundur 474. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[17:09]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. sem þátt hafa tekið í þessari umræðu fyrir góð viðbrögð við því máli sem hér er til umræðu. Vitaskuld finnst mér það vera alveg sjálfsagt að málið verði tekið rækilega fyrir og skoðað í nefnd. En ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég teldi afskaplega mikilvægt að hraða afgreiðslu málsins hér í þinginu ef þess er nokkur kostur. Ég tel að málið eins og það liggur fyrir núna hafi fengið í undirbúningi öllum afskaplega vandaða málsmeðferð. Þetta er mál sem í fleiri ár hefur staðið til að koma með hingað inn í þingið en það hefur þó ekki séð dagsins ljós fyrr en nú. Ég fullyrði að þeir sem hafa unnið að undirbúningi málsins fyrir hönd mína og viðskrn. hafa staðið afskaplega vel að verki. En ég er ekki að draga úr því að það er mikilvægt að þingnefndin skoði málið alveg ofan í kjölinn. En ég tel samt að málið sé betur undirbúið heldur en mörg mál sem hér hafa áður komið inn.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurði hvort ekki væri rétt að gefa þessari verðbréfamiðstöð kannski tveggja ára aðlögunartíma og hafa þá tvö ár til að sanna sig og hafa þann tíma til að komast almennilega á fót og hafa þar af leiðandi einkaleyfi í tvö ár. Þær upplýsingar sem ég hef segja mér að það muni taka allt að því tvö ár að koma slíkri verðbréfamiðstöð almennilega á fót, þannig að ef menn væru að hugsa um einkaleyfi þá þyrfti einkaleyfið að vera eitthvað lengra heldur en það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi ekki að hafa einkaleyfi á þessari starfsemi. Einkaleyfi eigi ekki að koma á þetta nema menn sjái fram á að samkeppni geti ekki þrifist á þessum markaði. Ég held að það geti vel gerst að samkeppni verði þarna til en vil ekki fullyrða að svo verði. Það gætu komið hér erlendar verðbréfamiðstöðvar sem gætu lent í samkeppni við þessa. Það sem er líka styrkleiki, og ég tel að tryggi ekki einkaleyfi en allt að því, er það að þeir eignaraðilar sem koma til með að standa að þessu og hafa lýst sig tilbúna til að standa að þessu í upphafi eru þeir sem mestra hagsmuna hafa að gæta. Þannig að ég hef trú á því að það verði ekki aðrir aðilar sem muni reyna.

Varðandi stofnkostnaðinn þá er gert ráð fyrir að hann verði 80 millj. kr. Hlutafé verði 65 millj. Það held ég að sé býsna hátt hlutfall af eigin fé í verðbréfamiðstöðinni að vera með 65 millj. af 80 millj. kr. af stofnkostnaði. En það er gert ráð fyrir að ríkið muni eignast 1/7 hluta. Og af því að hv. þm. Ágúst Einarsson hafði ekki áður séð það hér í þingskjali að ríkissjóður hygðist leggja fram X-hluta þá er þetta ekki x heldur 1/7 hluti sem þarna er um að ræða. Það hefur tekist þannig til í prentuninni að það lítur út eins og x. Þannig að þarna er ekki um sérstakt afbrigði að ræða eins og fram kemur. Það er gert ráð fyrir því í frv. að þarna sé um 1/7 hluta að ræða.

Hv. þm. Ágúst Einarsson kom inn á ábyrgðir á mistökum sem rekja má til verðbréfamiðstöðvarinnar og ábyrgðasjóðurinn væri upp á 650 millj. kr. og hann spyr hvort það sé nægjanlega há upphæð, hvort hún sé ekki allt of lág í samanburði við markaðsverðmæti bréfanna. Ég svara þessu neitandi. Þessi trygging er tiltölulega mjög há í alþjóðlegum samanburði. Þeir sem unnu málið voru með dönsku verðbréfamiðstöðina sér til fyrirmyndar þar sem ábyrgðarsjóðurinn er upp á 12 millarða ísl. kr. Miðað við veltu og markaðsverðmæti bréfanna er sá ábyrgðarsjóður sem gert er ráð fyrir í frv. sem hér er lagt fram fjórum sinnum stærri heldur en sá danski. Þannig að ég held að við séum að gera býsna vel í þessum efnum. Mér finnst þetta undirstrika það hversu mikil vinna hefur verið lögð í allan undirbúning þessa máls. Menn hafa leitað fyrirmynda út fyrir landsteinana, borið sig saman um hvernig við gætum komið þessu upp hjá okkur. Ég er stoltur af því og get fullyrt að undirbúningsvinnan í þessu máli hefur verið mjög mikil fyrir viðskrn. og ég tel að málið sé mjög vel undirbúið til að taka það hér til umfjöllunar. Ég legg áherslu á það út frá þeim hagsmunum sem ég tel að séu í húfi fyrir þá sem starfandi eru á þessum markaði að málið verði afgreitt hér á vorþingi ef þess er nokkur kostur og svo framarlega sem nefndin sjái ekki þá agnúa á sem menn hafa enn ekki komið auga á sem gerðu það að verkum að ekki yrði hægt að afgreiða málið þannig að verðbréfamiðstöðin geti tekið til starfa í árslok 1998, sem ég held að sé afskaplega mikið hagsmunamál.