Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 18:26:53 (4969)

1997-04-03 18:26:53# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[18:26]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en hér sé um mjög athyglisvert og áhugavert mál að ræða þar sem tekist er á við grundvallaratriði. Í mínum huga eru þau þrjú í okkar þjóðfélagi og efnahagskerfi sem skipta höfuðmáli.

Þá er fyrst að telja eignarréttinn eða einkaeignarréttinn og samningsréttinn eða þá löggjöf sem gerir það að verkum að samningsaðilar eru knúnir til að uppfylla þá samninga sem þeir gera og í þriðja lagi viðskiptafrelsið. Þessi frv. sem hér um ræðir og reyndar fleiri frv. sem lögð hafa verið fram um svipað efni á Alþingi í vetur fjalla einmitt um eignarréttinn.

Verðmæti eigna geta breyst eftir tíðarandanum á hverjum tíma og hvernig landið er nýtt. Við þekkjum jarðir frá gamalli tíð sem voru afskaplega verðmætar þegar við bjuggum við sauðfjárbúskap og héldum sauðfé til beitar og var það beitarþol jarðarinnar sem mestu máli skipti. Í dag eru ýmsar slíkar jarðir einskis eða lítils metnar en jarðir sem áður töldust ekki sérstakar kostajarðir til sauðfjárbeitar eru hins vegar mjög vel til þess fallnar að reka þar mjólkurbúskap, auðvelt að rækta land undir tún og afla þess heyfengs sem þarf til að kýr mjólki vel í fjósum að vetri. Því sé ég ekki að sérstakar ástæður séu til þess að breyta eignarréttarákvæðum í dag vegna þess að einhverjar aðrar aðstæður skapast sem breyta verðmætamati á jörðum aðrar en þær sem ég var að tiltaka áðan og eiga við um landbúnaðinn.

Menn mega heldur ekki rugla saman eignarrétti á jarðefnum, jarðhita og virkjun fallvatna saman við eignarrétt á afréttum og almenningum eða þjóðlendum, eins og nú tíðkast að tala um, og væntanlega verður frv. lagt fram um þau mál á þinginu í vetur. Það er annað mál sem þarf að fá alveg sérstaka og sjálfstæða afgreiðslu þar sem skera þarf úr um eignarrétt á tilteknum landsvæðum.

Ég tel reyndar að ef menn eru að horfa til þess að hið opinbera eða ríkið sérstaklega þurfi á þessum gæðum að halda, sem hér um ræðir, þá hafi það heimild til að taka slík gæði eða slík lönd eignarnámi eins og löggjöf er nú háttað. Þess vegna skil ég í sumum atriðum ekki alveg hvers vegna verið er að leggja til breytingar á eignarhaldinu. Hvers vegna á t.d. að fara að skipta jarðeignum í dag upp í tvo flokka út frá því hvort þau hafa verið nýtt eða ekki? Nema það sé gert til að styggja ekki þá sem nú þegar eru að nýta eitthvað en koma hins vegar í veg fyrir að einkaeignarrétturinn eigi við um aðra hluti sem menn eru ekki farnir að nýta í dag og menn þora þá frekar að breyta því sem ekki telst skipta máli í dag heldur því sem skiptir einhverju máli eins og staðan er.

Svipað á sennilega við þegar menn gera greinarmun á háhitasvæðum og lághitasvæðum. Af hverju eiga einstaklingarnir eða einkaeignarréttarhafarnir að nýta lághitann en ekki háhitann? Mér finnst rök um það hversu erfitt þetta er, hversu mikla tækni þarf eða hversu mikið fjármagn þarf ekki vera efnisatriði í svona mikilli grundvallarumræðu eins og hér fer fram.

Það má kannski nefna að kostnaður fyrir hið opinbera, ef það þarf á þessum gæðum að halda, sé svo mikill. Eða kostnaður fyrir einstaklingana sem njóta jarðvarmans sem hitaveituvatns eða orkunnar sem framleidd er með jarðgufu eða vatnsafli vatnsaflsvirkjana sé svo mikill vegna þess að einkaeignarréttur eigi þarna við. En þessu er bara ekki þannig háttað. Það er staðreynd að kostnaður við að afla réttindanna til að nýta þau í almannaþágu er afar lágt hlutfall af heildarkostnaði við virkjunina og þar með af verði þeirrar orku eða þess vatns sem um er að ræða.

Ég velti því líka fyrir mér hvort höfundar frv. --- eða kannski er réttara að segja flm. frv. þar sem fram hefur komið að frv. var samið í ráðherratíð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar í iðnrn. --- hafi velt fyrir sér afleiðingum þess ef frv. yrðu að lögum, hverju það mundi breyta varðandi þá hluti sem við erum að gera í dag. Ef við hugsum okkur að þessi frv. hefðu verið lög einhvern tímann á síðasta áratug, þá væri næsta ólíklegt að Reykjavíkurborg væri að virkja orku á Nesjavöllum til að selja síðan Landsvirkjun og Landsvirkjun aftur að selja Norðuráli sem hugsanlega verður byggt á Grundartanga, einfaldlega vegna þess að Reykjavíkurborg hefði verið svipt einkaeignarrétti sínum á þeim gæðum þess lands sem borgin hefði keypt á Nesjavöllum.

Það sama ætti við um Hitaveitu Suðurnesja. Hitaveita Suðurnesja hefði ekki haft rétt til þess að virkja á því landi sem hún keypti á Svartsengi fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum og íbúa þar. Ef við hugsum þetta upp á framtíðina þá ætti Hitaveita Suðurnesja erfitt með að virkja annars staðar en á því landi sem hún er þegar farin að virkja og þá raunverulega á undanþáguákvæði samkvæmt þessum lögum.

Það sama á við um Hafnarfjörð. Hafnarfjörður á land í Krýsuvík, að vísu umdeilt hversu mikið land, en Hafnarfjörður á jafnframt jarðhitaréttindi bæði á því landi sem er klárlega í eigu bæjarins og eins á því landi sem er umdeilt, þ.e. hvort bærinn á landið eða ekki. En með frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu yrði bærinn sviptur jarðhitaréttindum sínum og hann gæti ekki nýtt þau nema með sérstöku leyfi og aðrir aðilar hefðu þá jafnframt möguleika á að fá það leyfi. Ég velti því fyrir mér hvort hv. flm. hafi gert sér grein fyrir þessu.

Hins vegar verð ég líka að segja að það er athyglisvert innlegg í hina pólitísku umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum, sérstaklega um sameiningu vinstri manna, að fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni í ræðu hans áðan, að hann telur að þessi tvö frv. hv. þm. þingflokks jafnaðarmanna --- mér sýnist að fleiri séu á frv. en bara þingmenn Alþfl. --- séu í eðli sínu alveg eins og frv. hv. þm. Alþb. Það gæti hugsanlega verið grundvöllur að sameiningu þessara flokka þó manni sýnist af síðustu skoðanakönnunum að Alþb. þurfi kannski ekkert á þessum liðsauka að halda. Hann er orðinn næststærsti flokkurinn og hinir fara væntanlega minnkandi í sama hlutfalli og þá verður bara Alþb. eitt eftir.

Hins vegar þótt mér leiðinlegt að heyra hnýtt í hæstv. félmrh. og samkvæmt því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hefur haldið hér uppi sérstökum vörnum fyrir þrönga landeigendahagsmuni. Ég get alls ekki fallist á að það að halda uppi vörnum fyrir stjórnarskrána og það sem þá var 67. gr. stjórnarskrárinnar, eignarréttarákvæðið, séu manninum álitshnekkir og um sé að ræða þrönga landeigendahagsmuni. Ég held að það að halda uppi vörnum fyrir stjórnarskrána geti í engum skilningi talist þröngir hagsmunir. Þetta er grundvallarlöggjöf okkar lýðræðisríkis og við höfum reyndar allir hv. þm. undirritað eiðstaf að því að verja þá stjórnarskrá.