Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 18:39:45 (4971)

1997-04-03 18:39:45# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[18:39]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir jákvæð orð í minn garð og varðandi minn málflutning. En ég get hins vegar ekki fallist á það með honum að verið sé að lögfesta það sem hafi verið raunverulega í gildi því að staðreyndin er sú að bæði Reykjavíkurborg og Hitaveita Suðurnesja hafa virkjað á sínu eignarlandi og hafa ekki þurft að fá þau réttindi af öðrum þegar þau hafa keypt landið með þessum réttindum. Það sama á við um ýmiss konar jarðefni og vinnslu þeirra eins og um er að ræða í frv. þeirra jafnaðarmanna, en þar er gert ráð fyrir að því verði skipt upp í tvenns konar jarðefni.

Eins það sem ég nefndi með jarðhitasvæðin sem Hafnarfjarðarbær á í landi Krýsuvíkur, þá hefur Hafnarfjarðarbær meira að segja að hluta til afsalað sér þeim réttindum til annarra, til Reykjavíkurborgar vegna samninga um þjónustu Hitaveitu Reykjavíkur í Hafnarfirði.

Ég þakka hv. þm. fyrir að benda mér á 7., 10. og 11. gr. í frv. jafnaðarmanna, en þær greinar eru þess eðlis að þær eru að takmarka nýtingarrétt eigandans á landinu og þær eru að veita þeim sem þegar hafa hafið framkvæmdir undanþágu frá meginreglu frv. Það getur ekki talist, að mínu mati, nægjanlega gott til þess að það sé það sama og fullur eignarréttur á eignarlandi þar sem beinn eignarréttur gildir.

Ég hafði ekki hugsað mér að svipta hv. þm. rétti sínum til að leggja fram breytingar á stjórnarskránni en þessi fjögur frv. sem hér hafa verið nefnd og reyndar það fimmta, sem hópur hv. þingmanna Alþb. flutti fyrr í vetur undir forustu Ragnars Arnalds, eru venjuleg lagafrv. en ekki frv. til breytinga á stjórnarskránni.