Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 19:03:15 (4975)

1997-04-03 19:03:15# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[19:03]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Eins og við var að búast hafa komið fram svör við hluta af því sem ég var að segja og gagnrýni á mína gagnrýni. Það hefur einkum snúið að því að hér sé verið að verja einkahagsmuni sægreifa og landeigenda. En eins og ég sagði í upphafi minnar fyrri ræðu, þá lít ég á eignarréttinn, sérstaklega einkaeignarréttinn, sem grundvöll þess þjóðfélags og þess efnahagskerfis sem við búum við og að hann eigi að vernda. Jafnvel þótt hlutir séu í dag ekki verðmætir, þá geta þeir orðið það seinna, og breytingar geta orðið þannig að verðmætir hlutir verði lítils virði og eins geta þeir sem eru lítils virði orðið verðmætir aftur. En ég tel að einkaeignarrétturinn sé best til þess fallinn að nýta eignirnar þannig að þær nýtist öllu efnahagskerfinu.

Það er nefnt að menn nýti ekki sjálfir eða geti ekki nýtt sjálfir það sem hugmyndin er að svipta þá í þessum frumvörpum. Það eru auðvitað fleiri hlutir sem menn hugsanlega gætu ekki nýtt sjálfir. Tökum sem dæmi að það væru til einhverjar landareignir þar sem væri mikill skógur, stór tré sem hægt væri að höggva, og ég á einhvern hátt eignaðist þetta land og þennan skóg, en ég hefði hins vegar enga fjármuni til þess að fara og höggva skóginn eða til þess að nýta skóginn á einhvern annan hátt og framleiða úr honum timbur eða byggja úr honum hús sjálfur eða hvað sem væri. Væri þá á sömu forsendum réttlætanlegt að svipta mig þessum skógi sem ég ætti eða nýtingarrétti á þessum skógi bara af því að ég á einhverjum tilteknum tímapunkti gæti ekki nýtt mér hann? Mér finnst það vera fráleitt. Og þetta er ekki tilbúningur, þetta eru nákvæmlega sams konar verðmæti sem þarna fylgdu landi og nefnd hafa verið í báðum þessum frumvörpum sem hér er um að ræða.

Síðan var nefnt að það geta verið vandamál með uppruna jarðhitans og það væru áhrif á milli jarðhitasvæða eða það væri væntanlega fleiri en einn eigandi að sama jarðhitasvæðinu. Þetta er ekkert nýtt vandamál. Þetta hefur verið leyst ágætlega með gömlu vatnalögunum frá 1923 sem fjalla um yfirborðsvatn. Frumvarpshöfundar reyna reyndar að leysa þetta líka hvað varðar lághitasvæðin í 16. gr. frv. Ég held að sú lausn geti út af fyrir sig geti út af fyrir sig verið alveg jafngild fyrir háhitasvæði sem væru í einkaeign eins og fyrir lághitasvæði sem væru í einkaeign.

Því var líka haldið fram af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að ég hefði sagt að með frv. væri verið að taka einhver réttindi af þeim sveitarfélögum sem væru að nýta orku á landsvæðum sínum. Ég sagði það ekki, en ég sagði að ef þetta frv. hefði verið orðið að lögum þegar eða áður en sú nýting hófst, þá hefðu sveitarfélögin ekki getað nýtt þau á grundvelli síns einkaeignarréttar sem þau höfðu öðlast með því að kaupa eignina eins og rétt í þeim tilfellum sem ég nefndi. Þau hefðu þá þurft að nýta þessa eign á einhvers konar forgangsréttarákvæðum eða undanþáguákvæðum en ekki sem eignaraðili.

Það var líka nefnt hér áðan að þessi frumvörp hefðu komið til vegna þess að menn hefðu áhyggjur af því að vegna Evrópska efnahagssvæðisins væri hætta á því að erlendir aðilar mundu eignast þessi réttindi eða eignast hér land sem þessi réttindi fylgdu. Ég held að það sé bærilega séð fyrir því að koma í veg fyrir slíkt ef við viljum með þeim eignarnámsákvæðum sem eru í lögum. Eins mætti styrkja það með forkaupsréttarákvæðum ríkisins að slíkum verðmætum og þá væri ekki verið að svipta einn eða neinn eign sinni. En ég undrast það reyndar svolítið að formaður þess stjórnmálaflokks sem mest hefur aðhyllst aðild að Evrópusambandinu skuli hafa sérstakar áhyggjur af þessum hlutum í tengslum við mál eins og þetta, að Evrópska efnahagssvæðið sé að valda einhverjum usla hvað varðar eignarhald á jörðum eða landi og þeim réttindum sem þeim fylgja. Ég reyndar veit ekki nákvæmlega hvernig þessu væri öllu saman háttað ef við værum innan Evrópusambandsins en það getur vel verið að hann hafi svör við því og hafi kannað það og það sé einhver svipuð löggjöf í löndum Evrópusambandsins en ef svo er, þá segi ég bara: Það er ekkert skárra fyrir það.