Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 19:09:30 (4976)

1997-04-03 19:09:30# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[19:09]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fátt um ræðu hv. þm. að segja annað en að það er alveg augljóst á hverju hann byggir afstöðu sína. Hann byggir afstöðu sína á þeirri tilfinningu að hann er fylgjandi einkaeignarrétti og ekkert við því að segja. En hins vegar sést honum yfir að í mörg ár hafa menn verið að velta vöngum yfir því hvernig hægt sé að taka á þeim vandamálum sem m.a. Hæstiréttur hefur lýst þannig að að fullu séu virt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, en samt sem áður sé svarað þeirri spurningu sem Hæstiréttur beindi til Alþingis árið 1981, og samt sem áður sé komið í veg fyrir að íslenskar orkulindir geti hugsanlega lent í höndum annarra en Íslendinga sjálfra. Menn hafa lagst yfir að finna tæknilega lausn á þessum spurningum og þær er að finna í frv. Og hv. þm. verður, ef hann gagnrýnir frv., að gagnrýna það út frá þeim tillögum sem þar eru gerðar og koma þá með einhverjar aðrar útfærslur. Það hefur Sjálfstfl. hins vegar aldrei gert, virðulegi forseti. Hann hefur látið sér nægja að segja bara nei við því sem lagt hefur verið til án þess að koma með aðra útfærslu. Það sem má gagnrýna í þessu frv. er sú tilraun sem þar er gerð til þess að finna leið til að ákveða sérstaka bótameðferð og eignarnámsmeðferð varðandi þessi atriði. Það má gagnrýna og það hefur verið gagnrýnt af lögfræðingum. En um hitt eru allir sammála að ef ætti að fara eftir almennum eignarnámsbótalögum um eignarnámsbætur fyrir það að ríkið nýti þessi réttindi sem í huga almennings eru sameiginleg réttindi þjóðarinnar, þá yrði um harla litla nýtingu að ræða því þá yrðu eignarnámsbæturnar ákvarðaðar út frá þeim hagsmunum sem þar væri verið að leggja út í frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar og eignarnámsbætur yrðu þá svo fjallháar að það væri útilokað að samfélagið gæti ráðist í nýtingu slíkra auðlinda.