Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 19:13:59 (4978)

1997-04-03 19:13:59# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[19:13]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Menn geta náttúrlega deilt endalaust um það hvað sé mikið og hvað sé lítið. En ef hv. þm. kynnti sér þær bætur sem greiddar voru samfara Blönduvirkjun þá held ég að hann verði mér sammála um að þar er um allverulegar fjárhæðir að ræða. Og ég held að hann væri mér líka sammála um að ef eignarnám væri viðhaft og bætur yrði að meta samkvæmt hugsanlegum möguleikum jarðeiganda til þess að ráðast sjálfur eða fyrir hans tilverknað í virkjunarframkvæmd af svipuðum toga og samfélagið er að ráðast í, þá verði það háar bætur.

Það breytir ekki því að Sjálfstfl. hefur tvívegis samþykkt að ganga til þess verks sem hér er gengið til. Hann gerði það í stjórnartíð fyrri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í samvinnu við Alþfl. og hann gerði það líka í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi þannig að Sjálfstfl. hefur skuldbundið sig til þess að ganga til þessa verks væntanlega vegna þess að þingmenn hans hafa verið sammála því, eða meiri hluti þeirra, að þetta verk þyrfti að vinna. Sjálfstfl. getur því ekki til eilífðarnóns vikið sér undan því að standa við þær skuldbindingar sem hann hefur sjálfur á sig tekið.