Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:34:24 (4981)

1997-04-04 10:34:24# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 805, sem er 478. mál þingsis, er frv. til laga um búnaðargjald sem ég mæli nú fyrir.

Eins og áður hefur komið fram í tengslum við umfjöllun um frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins hefur verið unnið að heildarendurskoðun á innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði með það að markmiði að gera innheimtuna einfalda, örugga og ódýra.

Á síðasta ári skipaði ég nefnd til að endurskoða innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði. Hún hefur nú skilað af sér og hefur samið frv. það sem ég mæli hér fyrir. Í frv. er gert ráð fyrir að sameina álagningu og innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði í eitt gjald sem við höfum nefnt búnaðargjald þar sem gjaldstofn verði einungis einn í stað tveggja. Gjaldið, 2,65%, verður lagt á veltu búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum ef frv. verður að lögum. Er miðað við að gjaldstofninn verði nánast hinn sami og gjaldstofn fyrir markaðsgjald til Útflutningsráðs.

Það skal tekið fram í upphafi að hér er ekki um að ræða nýjan skatt heldur er verið að einfalda það innheimtufyrirkomulag sem nú tíðkast og um leið verða heildarsjóðagjöld lækkuð og þar með dregið úr þeim millifærslum sem verið hafa í landbúnaðarkerfinu.

Hæstv. forseti. Áður en ég fer nánar út í að lýsa efni frv. tel ég rétt og nauðsynlegt að gera hv. þingmönnum í stuttu máli grein fyrir þeim gjöldum og innheimtufyrirkomulagi sem búnaðargjaldi er ætlað að leysa af hólmi.

Í fyrsta lagi skal nefna búnaðarmálasjóðsgjaldið. Það er lagt á samkvæmt lögum nr. 41/1990. Upphæð þess er á bilinu 0,85--2,025% af verði til framleiðenda og fer það eftir afurðategundum. Það gjald er í raun samheiti fyrir innheimtu fimm mismunandi gjalda. Það er gjald til Bændasamtaka Íslands, til búnaðarsambanda, til búgreinafélaga, til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og til Bjargráðasjóðs. Bjargráðasjóðsgjald er innheimt með búnaðarmálasjóðsgjaldinu en sú innheimta byggir einnig á lögum um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, og er því ljóst að ef frv. um búnaðargjald nær fram að ganga þarf að breyta b-lið 5. gr. um Bjargráðasjóð. Hefur það mál verið rætt við félmrn. sem mun fylgja því máli eftir verði þetta frv. að lögum.

Í öðru lagi skal nefna neytenda- og jöfnunargjald. Það er lagt á samkvæmt lögum nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það nemur 2% af heildsöluverði landbúnaðarafurða. Gjaldið er hluti af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins og er forsenda lágra vaxta af útlánum deildarinnar. Breytingu á þessum lagaákvæðum er að finna í frv. um Lánasjóð landbúnaðarins sem áður hefur verið mælt fyrir og er nú til meðferðar hjá hv. landbn.

Í þriðja lagi er framleiðsluráðsgjald sem lagt er á samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það nemur 0,25% af heildsöluverðmæti og er því ætlað að standa undir rekstri Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Lagt er til að það verði fellt niður með frv. þessu, sbr. 7. gr. frv.

Framleiðendur, afurðastöðvar og sölusamtök sjá um innheimtu nefndra gjalda og standa skil af þeim til Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem síðar greiðir það viðkomandi aðilum. Varðandi upphæð gjaldanna og fyrirkomulag vísast nánar til greinargerðar með frv.

Ég hef nú lýst í stuttu máli því fyrirkomulagi sem í gildi er samkvæmt núgildandi lögum. Óhætt er að segja að innheimtuferli fyrrnefndra gjalda er flókið, gjaldstofnar mismunandi og margir aðilar sem standa að innheimtu gjaldanna. Eftirlit með álagningu og innheimtu gjaldanna er erfitt og hætta er á að gjaldstofnar skili sér ekki að fullu. Þá eru innheimtuúrræði við innheimtu gjaldanna veik.

Samkvæmt því frv. sem ég legg nú fram er gert ráð fyrir mikilli einföldun og um leið auknu öryggi frá núverandi fyrirkomulagi. Ber þar sérstaklega að nefna að samkvæmt frv. verður einn gjaldstofn í stað tveggja og innheimta sjóðagjalda færist alfarið yfir á framleiðendastigið undir heitinu búnaðargjald. Lagt er til að búnaðargjald verði lagt á með almennum þinggjöldum eins og markaðsgjald og iðnaðargjöld.

Við það að færa innheimtu búnaðargjalds inn í skattkerfið mun gjaldskyldur búvöruframleiðandi greiða búnaðargjaldið af gjaldskyldri veltu á gjalddögum virðisaukaskatts í staðgreiðslu til innheimtumanna ríkissjóðs. Þannig má segja að ætíð sé um samtímagreiðslu að ræða. Álagning og afstemming fer síðan fram árið eftir á grundvelli skattframtals.

Eins og ég hef áður lýst eru sjóðagjöld samkvæmt núverandi lögum lögð bæði á framleiðenda- og heildsölustig. Því er nokkuð erfitt um vik að segja nákvæmlega til um hver þau eru ef þau væru einungis innheimt á framleiðendastiginu eins og frv. gerir ráð fyrir. Þó má ætla að við þessa breytingu lækki heildarsjóðagjöld úr um það bil 4% í 2,65% verði frv. samþykkt.

Miðað við veltu ársins 1995 er áætlað að heildarupphæð búnaðargjaldsins verði 370--380 millj. kr. en ef miðað er við veltu ársins 1996 er trúlega um eitthvað hærri tölu að ræða. Ekki er óeðlilegt að áætla að heildarinnheimta sjóðagjalda fyrir árið 1996 muni lækka úr um 610 millj. í 380--390 millj. sem þýðir 220--230 millj. kr. lækkun. Ætlunin er að þessi lækkun komi fyrst og fremst niður á Lánasjóði landbúnaðarins þar sem miðað er við að fallið verði frá 2% innheimtu neytenda- og jöfnunargjalds af heildsöluverði seldra búvara. Þess í stað fái sjóðurinn hlutdeild í hinu nýja búnaðargjaldi sem verði 1,1% af stofni búnaðargjalds eins og fram kemur í frv. um þann sjóð.

Eins og ég hef áður sagt færist innheimta sjóðagjalda frá vinnslu- og afurðastöðvum yfir á framleiðendur. Neytenda- og jöfnunargjald ásamt framleiðsluráðsgjaldinu er í raun hluti af vinnslu- og sláturkostnaði. Sá kostnaðarliður fellur því út úr milliliðakostnaðinum og færist yfir á framleiðendur. Við lækkun neytenda- og jöfnunargjalds skerðast tekjur Lánasjóðs landbúnaðarins sem mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar útlánavaxta á lánum. Til að koma í veg fyrir tekjuskerðingu bænda vegna aukins vaxtakostnaðar þarf að eiga sér stað millifærsla í verðlagningunni af slátur- og vinnslukostnaðinum og yfir á tekjulið verðlagsgrundvallarins. Gangi þetta eftir hefur breytingin sem slík engin áhrif á nettótekjur bænda. Þessi tilfærsla á ekki heldur að hafa í för með sér breytingu á útsöluverði landbúnaðarafurða.

Hæstv. forseti. Landbúnaðaryfirvöld hafa oft verið sökuð um forsjárhyggju og flókið millifærslufargan eins og stundum er sagt þar sem tekjur eru fluttar frá einum aðila til annars sem leitt hefur m.a. til þess að skekkja samkeppnismyndina og stuðla þannig að rangri ákvarðanatöku. Auk þess hefur kerfið verið sakað um að vera dýrt og ekki nægjanlega skilvirkt.

Í því frv. sem hér um ræðir er tekið verulega á þessum málum. Dregið verður stórlega úr innheimtu sjóðagjalda en um leið er leitast við að gera innheimtuna einfaldari, öruggari og ódýrari. Innheimta sjóðagjalda verður nú færð inn í hið opinbera skattkerfi þar sem innheimtuúrræðin verða þau sömu og gilda um opinber gjöld. Gjaldstofninn liggur þegar fyrir hjá greiðendum og kostnaður þeirra verður því óverulegur. Sjóðagjöldin verða um leið sýnilegri og snerta eingöngu hagsmunaaðila. Þá er ljóst að bændur munu fylgjast grannt með hvernig þeim fjármunum sem gjöldin skila verður varið.

Eins og kom fram þegar ég mælti fyrir frv. um Lánasjóð landbúnaðarins eru þessi tvö frumvörp nátengd og þurfa helst að hafa samflot í gegnum þingið. Ef t.d. frv. um búnaðargjald nær ekki fram að ganga á þessu þingi þarf að breyta frv. um Lánasjóð landbúnaðarins með tilliti til þess. Vitað er að bændasamtökin hafa lagt áherslu á að þessi breyting nái fram að ganga. Á næstu dögum fer fram ítarleg kynning á málinu innan stéttarinnar, bæði innan sérbúgreinasambandanna og eins á aðalfundum búnaðarsambandanna sem haldnir verða nú á næstu vikum. Sú umræða sem fer þá fram innan bændastéttarinnar á næstu dögum mun síðan væntanlega og vonandi nýtast hv. landbn. í umfjöllun sinni um málið hér í þinginu og þá varðandi lokaafgreiðslu frv. ef hægt yrði að afgreiða það á þessu vorþingi eins og ég geri mér vonir um.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar og athugasemda við einstakar greinar í frv. Það frv. sem ég hef hér mælt fyrir tel ég að marki tímamót til einföldunar á landbúnaðarkerfinu sem oft er nefnt svo. Ég er á hinn bóginn reiðubúinn til þess að skoða einstök atriði þess í samvinnu við landbn. þingsins.

Að þessu sögðu leyfi ég mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.